Í grein sem Friðjón R. Friðjónsson birti í nýjasta hefti Þjóðmála telur hann upp ástæður fyrir því að hægrimenn eigi að hafna Donald Trump Bandaríkjaforseta og pólitískri stefnu hans. Friðjón segir að hefðbundin stefnumál hægrimanna séu fyrir bí í Repúblikanaflokki Trumps. Flokkurinn sé ekki hægriflokkur heldur „rasískur afturhaldspopúlistaflokkur.“
Friðjón bendir jafnframt á að þegar stjórnmálaflokkur tali „helst bara við hvíta meirihlutann í landinu“ glati hann hæfileikanum til að tala við aðra hópa. Repúblikanaflokkurinn hafi glatað tækifærinu á samtali við stóra hópa kjósenda sem geti ekki kosið flokkinn „vegna þess að hann hefur ákveðið, undir forystu Trumps, að tala ekki við þessa hópa nema í mýflugumynd vegna hörundslitar þeirra.“
Þar sem vefútgáfa greinarinnar var birt á kjördegi leið ekki á löngu þangað til hægt var að máta hana við veruleikann vestanhafs. Hvernig myndu minnihlutahópar refsa forsetanum fyrir djúpstæða kynþáttahyggju?
Þvert á móti sýndu útgöngukannanir á kjörstöðum að Trump naut meiri stuðnings meðal blökkumanna og fólks af rómönskum uppruna en í kosningunum 2016. Niðurstöðurnar bentu raunar til þess að stuðningur minnihlutahópa við forsetaframbjóðanda Repúblíkana hefði ekki verið meiri síðan árið 1960. Fylgistap meðal hvítra karlmanna varð honum að falli.
Svona er Trump. Óhefðbundið og yfirdrifið háttalag veldur skammhlaupi í huga andstæðinga hans. Þeir sjá rautt, og verða ófærir um að lýsa veruleikanum eins og hann er. Öllu er snúið á hvolf.
Það þurfti svo sem enga útgöngukönnun til að hrekja ásakanir um rasisma enda hefur forsetinn lagt kapp á að höfða til minnihlutahópa á liðnu kjörtímabili. Til marks um það hældi Trump sér stanslaus þegar atvinnuleysi blökkumanna í Bandaríkjunum var í sögulegu lágmarki. Svo kom kórónukreppan. Forsetinn fær auk þess falleinkunn hjá rasistum fyrir umbætur á bandaríska refsirammanum, sem hafði komið þungt niður á minnihlutahópum.
Fjölmörg dæmi má tína til og ljóst er að áherslur forsetans skiluðu sér í auknu fylgi hjá minnihlutahópum. Ef Trump er sannarlega rasisti inn við beinið er hann nokkuð mistækur sem slíkur.
Sumt forystufólk í Sjálfstæðisflokknum fann sig knúið til að deila greininni á helstu samfélagsmiðlum og hélt þannig á lofti ósannindum um forseta Bandaríkjanna. Því þykir „með ólíkindum að hér á landi sé fólk sem vilji láta taka sig alvarlega í þjóðfélagsumræðu og beri blak af slíkum manni,“ eins og það er orðað í greininni.
Tæp átta prósent íslenskra kjósenda hefðu kosið Donald Trump samkvæmt könnun á vegum Fréttablaðsins í lok september. Fylgi Trumps meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins stóð í rúmum 18 prósentum. Flokkur sem vill endurheimta stöðu sína sem breiðfylking í íslenskum stjórnmálum hefur ekki efni á því að gera lítið úr flokksmönnum sem deila sömu skoðun og 71 milljón Bandaríkjamanna.