Er aðskilnaðarstefna við lýði í Ísrael?

Jerúsalem.Jerúsalem.

Undanfarin ár hefur Ísraelsríki – eina raunverulega lýðræðisríki Mið-Austurlanda – setið undir sífellt háværari ásökunum um að viðhafa aðskilnaðarstefnu gagnvart Palestínumönnum. Nýleg skýrsla frá Human Rights Watch hefur dregið aukna athygli að þessu viðfangsefni undanfarnar vikur. Hugtakið aðskilnaðarstefna vísar til kerfisbundinnar aðgreiningar kynþátta innan sama ríkis og var upphaflega notað um stefnu afkomenda Evrópubúa í Suður-Afríku gagnvart þeldökkum íbúum landsins. Notkun hugtaksins um lýðfræðilegan veruleika Ísraelsríkis gefur því í skyn að yfirvöld í Ísrael reki sambærilega stefnu og var við lýði í Suður-Afríku.

Fyrsta stjórnarskrá Suður-Afríku kvað á um algjöra aðgreiningu fólks sem byggði á húðlit og tiltók meðal annars að einungis þeir sem væru hvítir á hörund mættu sitja á þingi og að þeir sem væru svartir á hörund gætu ekki fengið ríkisborgararétt. Þeir sem leggja fram sambærilega ásökun gegn Ísraelsríki vilja gjarnan draga upp einfeldningslega mynd af „nýlenduríki“ undir stjórn „vondra hvítra Gyðinga“ sem ofsækja „góða brúna Palestínumenn“ en þessi framsetning á sér ekki stoð í veruleikanum. Þvert á móti er ásökunin um aðskilnaðarstefnu gagngert lögð fram til að hræra í tilfinningum fólks og hindra það í að komast að kjarna málsins.

Þegar hugmyndum um þjóðerni og kynþætti er hnoðað saman

Á vinstri væng stjórnmálanna má í auknum mæli finna einstaklinga sem vilja ólmir leggja allar birtingarmyndir þjóðerniskenndar að jöfnu við kynþáttahyggju. En þessi tvö hugtök vísa til gjörólíkra hugmynda. Hugtakið „þjóð“ vísar í raun hvorki til húðlitar né annara erfðaþátta heldur vísar það til sameiginlegra menningarlegra þátta, til dæmis tungumáls, tónlistar- og matarmenningar. Þetta á ekki síður við um Íslendinga en aðrar þjóðir. Á undanförnum áratugum hefur flutningur fólks frá ólíkum heimshlutum til Íslands færst í aukana. Margir þessara einstaklinga og afkomendur þeirra eru nú íslenskir ríkisborgarar og tilheyra þar af leiðandi íslensku þjóðinni óháð uppruna sínum og útlitseinkennum.

Að sama skapi byggja Gyðingar sjálfsmynd sína ekki á útlitseinkennum, enda eru hinir ýmsu hópar Gyðinga ólíkir í útliti eftir því hvar þeir ólu manninn í aldanna rás. Afkomendur þeirra Gyðinga sem settust að í Evrópu eru flestir ljósir á hörund en Gyðingarnir sem bjuggu í Mið-Austurlöndum hafa áþekkt útlit og Arabarnir frá sömu löndum. Svo eru Gyðingar frá Indlandi og Eþíópíu mjög dökkir á hörund. Þessir hópar Gyðinga voru flestir þvingaðir til að flýja heimalönd sín á 20. öldinni og ekkert ríki nema Ísrael hefði verið tilbúið að taka við þeim.

Í dag geta yfir 60% þeirra Gyðinga sem búa í Ísrael rakið ættir sínar til landa utan Evrópu, þar á meðal til þeirra Gyðinga sem hafa búið á svæði Ísraels frá örófi alda. Allir þessir hópar teljast vera Gyðingar samkvæmt lögum Ísraelsríkis. Það eru því ekki yfirborðskenndir þættir eins og útlitseinkenni sem sameina Gyðinga heldur þjóðerni þeirra, sem byggir meðal annars á sameiginlegu tungumáli (hebresku) og menningararfi (siðvenjum og helgiritum).

Það er samt sem áður staðreynd að ákveðnir samnefnarar í erfðaefni Gyðinga bera merki um einangrun þeirra frá öðrum hópum og sameiginlegan uppruna þeirra í Mið-Austurlöndum. En það sem ræður úrslitum er að viðkomandi hópur hafi varðveitt menningararf Gyðinga og þjóðernisvitund í aldanna rás. Í ljósi hins mikla erfðafræðilega fjölbreytileika Ísraelsmanna fellur ásökunin um kynþáttabundna aðskilnaðarstefnu um sjálfa sig.

Ísrael sem þjóðríki Gyðinga

Ásökunin um aðskilnaðarstefnu á hendur Ísraelsríki byggir að hluta til á eðli Ísraelsríkis sem þjóðríkis Gyðinga. Þá sérstaklega er lagalegur réttur Gyðinga til að setjast að í landinu talinn vera til marks um mismunun. En á sömu forsendum væri hægt að ásaka hvert einasta ríki heimsins um viðlíka „mismunun“. Ekkert ríki er öllum opið. Alþingi Íslendinga þarf reglulega að ákveða hvaða umsækjendur fái íslenskan ríkisborgararétt og fjölda umsókna er hafnað.

Það er vitsmunalega óheiðarlegt að ætla sér að klekkja á Ísraelsríki fyrir að vera þjóðríki Gyðinga þegar staðreyndin er sú að flest ríki í heiminum hygla einni þjóð, til dæmis með því að tilgreina sérstaka þjóðtungu eða þjóðartrú. Ísland er á meðal þeirra ríkja.

Í Arababandalaginu er í augnablikinu 21 ríki og öll hygla þau arabískri tungu og þjóðmenningu, þrátt fyrir þann fjölda minnihlutahópa sem þar býr og tilheyrir ekki arabísku þjóðinni. Í þessu samhengi er einnig vert að undirstrika að sjálfstæðisyfirlýsing Frelsishreyfingar Palestínu (PLO) frá 1988 skilgreinir framtíðarríki Palestínumanna sem „arabískt þjóðríki“ en ekki sem fjölþjóðlegt ríki.

Þótt Ísrael sé þjóðríki Gyðinga býr þar að sama skapi fjöldi Araba. Um 21% ríkisborgara Ísraels er Arabar – flestir þeirra múslimar – og taka þeir fullan þátt í ísraelsku samfélagi. Til dæmis situr arabískur dómari í hæstarétti Ísraels og að sama skapi eru Arabar með eigin flokka á þjóðþinginu í Jerúsalem. Arabar í Ísrael hafa auk þess hærra menntunarstig en þegnar nokkurs Arabaríkis. Þetta er gjörólíkt stöðu þeldökkra í Suður-Afríku, sem var hvorki leyft að taka þátt í stjórnmálum né afla sér menntunar.

Veggir og öryggishlið á Vesturbakkanum

Andstæðingar Ísraels hafa dregið sérstaka athygli að ákveðnum veggjum og öryggishliðum sem standa á milli byggða Gyðinga og Palestínumanna á ákveðnum svæðum Vesturbakkans. Þeir telja veggina vera birtingarmynd aðskilnaðarstefnu en draga aldrei fram raunverulegar ástæður þess að veggirnir voru byggðir.

Taka ber fram að sjálfstætt arabískt þjóðríki hefur aldrei verið til á þessu landsvæði. Öllum tillögum að skiptingu landsvæðisins í tvö ríki Gyðinga og Araba var hafnað af fulltrúum Palestínuaraba fyrir stofnun Ísraelsríkis. Óslóarsamningarnir útveguðu Palestínumönnum sitt eigið yfirráðasvæði í fyrsta sinn í mannkynssögunni. Þeir Palestínumenn sem þar búa eru palestínskir ríkisborgarar með eigin vegabréf. Ísraelsríki hefur síðan þá við nokkur tækifæri boðið fulltrúum Palestínumanna stærra svæði ásamt viðurkenningu á sjálfstæðu ríki Palestínumanna en þeir hafa hafnað öllum slíkum tilboðum. Til samanburðar má benda á að aðskilnaðarstjórnin í Suður-Afríku stóð aldrei í slíkum samningum við þeldökka íbúa landsins og bauð þeim aldrei sjálfstæði.

Nokkrum mánuðum eftir að Yasser Arafat hafnaði tilboði um stofnun ríkis Palestínumanna á bróðurhluta Vesturbakkans hófst „hið seinna Intifada“ – hryðjuverkastríð Palestínumanna gegn Ísraelsríki og íbúum þess. Ytri múrinn á Vesturbakkanum var reistur þar sem byggðir Ísraelsmanna mættu byggðum Palestínumanna í nánd við gamlar vopnahléslínur. Þetta var gert þegar hið seinna Intifada stóð sem hæst. Eftir að múrinn var reistur snarfækkaði árásum Palestínumanna á Ísraelsmenn. Sambærilega múra er að finna víða á Norður-Írlandi en þeir voru reistir til að skilja að byggðir kaþólikka og mótmælenda sem höfðu áður átt í hatrömmu stríði. Aldrei er talað um þá múra sem birtingarmynd kerfisbundinnar aðskilnaðarstefnu.

Aðskilnaðarstefna af hálfu palestínskra yfirvalda

En hvað um aðra veggi og öryggishlið sem hefur verið komið upp á Vesturbakkanum? Algengast er að þeir sem tala um aðskilnaðarstefnu bendi á borgina Hebron í því samhengi en það byggir einnig á misskilningi. Hebron og aðrar borgir með öryggishliðum eru á mörkum hinna eiginlegu palestínsku sjálfstjórnarsvæða og svæðisins sem er enn undir stjórn Ísraelsríkis, en það er einmitt arfleifð frá Óslóarsamningunum. Að fenginni reynslu Ísraelsmanna af palestínskum hryðjuverkamönnum ætti eftirlit við hliðin ekki að koma á óvart. Palestínumönnum er reglulega hleypt þar um til að vinna á yfirráðasvæði Ísraels á sama tíma og Ísraelsmönnum er óheimilt að fara inn á yfirráðasvæði Palestínumanna. Ef einhverja aðskilnaðarstefnu er að finna á svæðinu er hún af hálfu palestínskra yfirvalda.

Eitt af grunnskilyrðunum sem fulltrúar Palestínumanna settu við gerð Óslóarsamninganna var að á endanum yrðu svæði Palestínumanna hreinsuð af Gyðingum. Þetta er í sjálfu sér merkileg krafa sem endurspeglar mikla fordóma af hálfu palestínskra yfirvalda og fulltrúar Ísraelsmanna hefðu verið í fullum rétti að hafna þessari kröfu. Engu að síður var þessi krafa samþykkt í nafni friðar og árið 2005 voru allir Gyðingar þvingaðir til að flytja frá Gazasvæðinu. Á öðrum svæðum sem féllu í hendur Palestínumanna bjuggu engir Gyðingar. Í dag liggur dauðarefsing við því að selja Gyðingum land eða fasteignir á palestínsku yfirráðasvæði.

Palestínsk yfirvöld reyna markvisst að koma í veg fyrir að Palestínumenn eigi uppbyggileg samskipti við Ísraelsmenn. Þeir sem hafa verið staðnir að slíkri tengslamyndun hafa verið hnepptir í fangelsi og pyntaðir. Sem dæmi um það má nefna nýlega reynslu Rami Aman á Gazasvæðinu, sem var hnepptur í fangelsi mánuðum saman fyrir það eitt að skipuleggja Zoom-fund með Ísraelsmönnum. Sú stefna palestínskra yfirvalda að berjast stöðugt gegn veru Gyðinga í Ísrael krefst þess að þeir haldi sig aðgreindum frá þeim. Sá aðskilnaður sem á sér stað vegna þessa hugarfars er auðvitað ekki til marks um aðskilnaðarstefnu af hálfu Ísraelsríkis.

Ber að veita væntanlegum landráðamönnum ríkisborgararétt?

Þótt þeldökkir íbúar Suður-Afríku hafi barist fyrir jöfnum réttindum börðust þeir ekki gegn tilvistarrétti Suður-Afríku sem ríkis. Þetta er ólíkt afstöðu fjölda Palestínumanna, sem telja Ísraelsríki ekki eiga sér tilvistarrétt. Þessi staðreynd er sérstaklega mikilvæg þegar staða Palestínumanna í austurhluta Jerúsalemborgar er skoðuð.

Í samningaviðræðum milli Ísraels og Palestínu hefur staða Austur-Jerúsalem alla tíð legið á milli hluta. Jerúsalem hefur í reynd verið sameinuð borg í rúm 50 ár og bersýnilega er ekki hægt að skipta henni samkvæmt vopnahléslínunum frá 1949 sem mynduðust í stríði milli Ísraels og Jórdaníu. Á þeim tíma urðu allir íbúar Vesturbakkans jórdanskir ríkisborgarar. Árið 1967 féll borgarhlutinn í hendur Ísraelsríkis eftir 18 ára hernám Jórdaníu. Öllum íbúum borgarhlutans var gefinn kostur á að sækja um ísraelskan ríkisborgararétt en fæstir þeirra notfærðu sér það og héldu þeir þar af leiðandi jórdönskum ríkisborgararétti sínum. Jórdanía svipti íbúa Vesturbakkans ríkisborgararéttinum árið 1988 og sátu íbúar Austur-Jerúsalem þá uppi ríkisfangslausir.

Á undanförnum áratugum hefur íbúum palestínsku sjálfstjórnarsvæðanna og Austur-Jerúsalem verið innrætt stækt Gyðingahatur frá barnsaldri í gegnum menntakerfi sem er fjármagnað af UNRWA, sérstakri stofnun SÞ sem hefur það eina hlutverk að sinna afkomendum palestínskra flóttamanna. Þegar eðli námsefnisins var nýlega gert opinbert kváðust talsmenn UNRWA ekki hafa gert sér grein fyrir hatursfullu innihaldi þess.

Þessi innræting Palestínumannanna í Austur-Jerúsalem og á Vesturbakkanum gerir það að verkum að það eru nánast engar líkur á að þeir muni nokkurn tímann viðurkenna tilvistarrétt Ísraels, og sömuleiðis munu þeir ekki viðurkenna stjórnarumboð ísraelska þjóðþingsins. Allar líkur eru á því að þeir myndu halda áfram baráttu sinni gegn Ísraelsríki og stofnunum þess þótt þeir fengju ísraelskan ríkisborgararétt.

Það þarf vart að taka fram að hver sem vinnur að því að rífa niður alþjóðlega viðurkennt þjóðþing í eigin landi væri með réttu skilgreindur sem landráðamaður. Það er ekki hægt að ætlast til þess að Ísraelsríki bjóði væntanlegum landráðamönnum ríkisborgararétt. Gagnrýni á hendur Ísraelsríki fyrir að hafa einungis veitt minnihluta íbúa Austur-Jerúsalem ríkisborgararétt missir vægi sitt þegar málið er skoðað frá þessum sjónarhóli, sérstaklega með það til hliðsjónar að það voru Jórdanir sem sviptu þá ríkisborgararéttinum á sínum tíma.

Önnur ríki sitja ekki undir ásökunum um aðskilnaðarstefnu

Fyrir utan Suður-Afríku hefur hugtakið „aðskilnaðarstefna“ einungis verið notað í samhengi við Ísraelsríki en aldrei í samhengi við ríki sem ættu þennan stimpil raunverulega skilið. Ekki er rætt um aðskilnaðarstefnu í Íran þrátt fyrir að þarlend yfirvöld ofsæki minnihlutahópa, meðal annars með því að skerða möguleika Baha’í-samfélagsins til að afla sér menntunar. Ekki hefur Kína hlotið þennan stimpil, þrátt fyrir að Tíbetar, Úígúrar og fjöldi annara þjóðarbrota hafi þar sætt kerfisbundinni mismunun í marga áratugi. Ekki hefur Rússland verið sakað um aðskilnaðarstefnu þrátt fyrir að þarlend yfirvöld mismuni fjölmörgum þjóðarbrotum – einna helst Tatörum og þjóðum frá Kákasusfjöllum.

Með þessar upplýsingar til hliðsjónar má sjá að ásökunin um aðskilnaðarstefnu á hendur Ísraelsríki er ekki byggð á traustum grunni. Hún er aðeins ein margra aðferða sem þjóna þeim tilgangi að grafa undan tilverurétti Ísraels. Það er verulega sorglegt að horfa upp á alþjóðastofnanir og deildir innan virtra háskóla taka þessa orðræðu upp á sína arma. Nýleg skýrsla Human Rights Watch er aðeins eitt dæmi af mörgum. Sú stofnun beinir spjótum sínum ítrekað gegn Ísraelsríki – langt umfram gagnrýni stofnunarinnar á önnur ríki – eins og stofnandi samtakanna viðurkenndi í grein sem birtist í The New York Times í október árið 2009.

Það er enginn vafi á því að þessi orðræða er runnin undan rifjum þeirra sem vilja útrýma eina griðastað Gyðinga í heiminum. Hún mun hvorki hjálpa Palestínumönnum né stuðningsmönnum þeirra. Hún mun einungis auka á þá óvild sem hefur knúið deiluna fyrir botni Miðjarðarhafs áratugum saman.

Höfundur er í starfsstjórn MIFF (Með Ísrael fyrir friði) á Íslandi.

Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 3. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.