Af hverju vill Tyrkland allt í einu vingast við Ísrael?

Tyrkland var áður einn helsti bandamaður Ísraels. Það breyttist þó þegar Erdogan tók við sem forseti Tyrklands. Hann hefur ekki farið leynt með andúð sína á Ísraelsríki og hefur styrkt tengslin við herská samtök íslamista.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, og helstu ráðgjafar hans hafa á liðnum mánuðum reynt að bæta til muna samskiptin á milli Tyrklands og Ísrael. Sú afstaða Erdogans hefur vakið furðu, enda hefur hann í þá tvo áratugi sem hann hefur setið við völd haft mikla andúð á Ísrael eins og margir aðrir herskáir múslimar.

Dálkahöfundurinn Caroline B. Glick fjallar um þennan undarlega viðsnúning Erdogans í nýjasta hefti tímaritsins Newsweek. Glick sat um skeið í samninganefnd fyrir hönd Ísraels í viðræðum við Frelsishreyfingu Palestínu (PLO) og hefur um árabil fjallað um málefni landanna.

Í grein sinni rifjar hún upp að á tíunda áratug síðustu aldar hafi Tyrkland verið einn helsti bandamaður Ísraels, fyrir utan Bandaríkin. Ríkin tvö áttu í nánu viðskiptasambandi, allt frá ferðaþjónustu til vopnasölu, og héldu sameiginlegar heræfingar. Eftir valdatöku Erdogans fóru hlutirnir að breytast, enda hefur hann lagt áherslu á að styrkja samskiptin við Bræðralag múslíma og hryðjuverkasamtökin Hamas. Tyrkir voru meðal annars fremstir í flokki í gagnrýni sinni á Ísrael þegar hinn alræmdi Ahmed Yassin, stofnandi Hamas-samtakanna, var ráðinn af dögum árið 2004. Í framhaldi af því studdi Tyrkland vel við Hamas og samhliða hófu ríkissjónvarpsstöðvar landsins að sýna andgyðinglega þætti þar sem Ísraelsmönnum var líkt við barnamorðingja, hryðjuverkamenn og annað í þeim dúr. Árið 2010 reistu Hamas-samtökin nýjar höfuðstöðvar í Tyrklandi, þar sem þau gátu undirbúið voðaverk sín í friði. Sama ár skipulögðu IHH, tyrknesk samtök tengd Al Kaída, siglingar með vopn inn á Gasa-ströndina. Þegar ísraelskir hermenn fóru í eftirlitsferð um borð í skipið Mavi Marmara mættu þeir tyrkneskum málaliðum sem gerðu á þá árás. Níu tyrkneskir árásarmenn féllu og sjö ísraelskir hermenn særðust. Eftir þennan viðburð var samskiptum landananna svo gott sem sjálfhætt. Ísraelsmenn hættu að ferðast til Tyrklands eftir að hafa verið áreittir á flugvellinum í Istanbúl, eins og gefur að skilja stöðvuðust viðskipti með hergögn á milli landanna og Tyrkir beittu sér fyrir því innan Atlantshafsbandalagsins að Ísraelsmönnum yrði ekki boðið að taka þátt í heræfingum bandalagsins.

Ísraelsmenn finna gas

Um það leyti sem Tyrkir létu samskipti sín við Ísrael renna út í sandinn fundu Ísraelsmenn nýja náttúruauðlind, gas, innan landhelgi sinnar í austanverðu Miðjarðarhafi. Nágrannaríkin Kýpur, Grikkland og Egyptaland fundu einnig gasauðlindir innan eigin svæða. Á síðustu fimm árum hafa þessi fjögur ríki, sem öll eiga það sameiginlegt að vera í dag talin með óvinaríkjum Tyrklands, aukið samvinnu og samskipti sín á milli. Sú samvinna lagði grunn að stofnun EastMed Gas Forum (EMGF) á síðasta ári. Þar eiga einnig aðild Ítalía og palestínska heimastjórnin. Frakkland hefur lýst yfir áhuga á að ganga í ráðið og Evrópusambandið og Bandaríkin eiga nú þegar áheyrnarfulltrúa. Tyrkir eiga að sjálfsögðu ekki fulltrúa í ráðinu og þeim verður að öllum líkindum ekki boðið að gerast aðili.

Nú þegar liggja fyrir áætlanir á vegum EMGF um að leggja gasleiðslur um Krít til að flytja gas til Evrópu. Sú innviðauppbygging mun kosta um sex milljarða evra. Gasleiðslan mun að öllu óbreyttu leysa af hólmi gasleiðslu sem í dag liggur frá Tyrklandi til Evrópu.

Vinum Tyrkja fer fækkandi

Glick rekur í grein sinni hvernig Tyrkir hafa með markvissum hætti reynt að grafa undan starfsemi EMGF, meðal annars með því að styrkja tengsl sín við Líbíu (þ.e. þann arm sem nú ríkir í Trípólí) og reyna þannig að hafa áhrif á siglingaleiðir um Miðjarðarhaf. Þá hafa Tyrkir storkað Egyptum með deilum um landhelgi, auk þess sem tyrkneski sjóherinn hefur ögrað aðilum EMGF á hafi úti, meðal annars ísraelsku rannsóknarskipi nýlega.

Þetta herskáa viðhorf Tyrkja í garð Grikklands og Kýpur, sem bæði eru í Evrópusambandinu, hefur reitt ráðamenn í Evrópu til reiði, þá sérstaklega Frakka og Ítali. Um miðjan desember ræddu leiðtogar Evrópusambandsins um mögulegar þvingunaraðgerðir gegn Tyrkjum vegna gasleitar þeirra í grískri og kýpverskri lögsögu, sem er í bága við alþjóðasamninga. Þá hafa Bandaríkjamenn einnig boðað viðskiptaþvinganir gegn Tyrklandi vegna kaupa Tyrklandsstjórnar á hinu rússneska S-400 eldflaugavarnarkerfi. Glick bendir í grein sinni á að viðhorf verðandi forseta Bandaríkjanna, Joe Biden, sé í takt við viðhorf Frakka í þessum málum og því megi búast við því að boðaðar verði harðari aðgerðir. Múslimaríki á borð við Sádi-Arabíu, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Marokkó hafa nú þegar hafið viðskiptaþvinganir gegn Tyrklandi vegna náins samstarf þeirra síðastnefndu við Bræðralag múslima. Það hefur orðið til þess að draga verulega úr útflutningi frá Tyrklandi.

Tyrkir mega illa við viðskiptaþvingunum, því að efnahagskerfi landsins er nú þegar að hruni komið. Tyrkneska líran féll um 30% á nýliðnu ári, ferðamönnum hefur fækkað um 90%, verðbólgan er um 14%, gjaldeyrisvaraforði landsins hefur rýrnað verulega og í dag er lítil sem engin erlend fjárfesting í landinu.

Falskur söngur?

Erdogan Tyrklandsforseti hefur sem fyrr segir reynt á undanförnum mánuðum að vingast við Ísraelsmenn á ný. Tyrknesk stjórnvöld hafa gefið það í skyn að leynilegar viðræður eigi sér stað við Ísraelsmenn og hafa Tyrkir opinberlega sagt að þeir séu tilbúnir að skipa aftur sendiherra í Ísrael (þeir höfðu áður kallað þáverandi sendiherra sinn heim til að mótmæla flutningi bandaríska sendiráðsins til Jerúsalem í maí 2018). Mesut Casin, ráðgjafi Erdogans í utanríkismálum, gekk skrefinu lengra þegar hann sagði í nýlegu viðtali við Voice of America að til stæði að hefja á ný hernaðarsamstarf við Ísrael. Því til viðbótar bauð hann upp á samstarf við EMGF, meðal annars með því að flytja gas frá Ísrael til Evrópu í gegnum gasleiðslur sem þegar eru til staðar í Tyrklandi.

Glick bendir á að allar þessar tillögur að auknum samskiptum ríkjanna séu á forsendum Tyrkja og til þess fallnar að styrkja stöðu þeirra. Með hernaðarsamstarfi fái Tyrkir aukna vitneskju um hertækni Ísraels og með því að bjóða flutning á gasi í gegnum Tyrkland sé verið að veikja stöðu Ísraels í þeirri samvinnu sem nú þegar er til staðar við Grikkland, Kýpur og Egyptaland. Allt er þetta gert, að mati Glick, til að vinna sér inn stig hjá Biden-stjórninni sem nú er að taka við völdum vestanhafs.

Glick bendir einnig á að á sama tíma og vinaþjóðum Tyrklands fari fækkandi og hagkerfi Tyrkja sé að hruni komið hafi Ísrael styrkt stöðu sína verulega á liðnum árum. Þrátt fyrir að ísraelska hagkerfið hafi orðið fyrir höggi vegna Covid-19 faraldursins hefur erlend fjárfesting aukist á milli ára í fyrra, atvinnuleysi er á niðurleið og landið er nú fremst í flokki í bólusetningum vegna faraldursins – og stefnir í að vera fyrsta ríkið sem getur opnað landamæri sín á ný.

Hún bendir einnig á að þrátt fyrir að Tyrkland horfi til þess að nýta Ísrael sem einhvers konar björgunarbát í þeim stormi sem Erdogan hefur skapað þjóð sinni megi enn finna það Ísraelshatur sem nú þegar er til staðar meðal tyrkneskra stjórnvalda. Væntanlegur sendiherra, Ufuk Ulatas, á sér langa sögu fyrir opinbert hatur á Ísrael og Háskólinn í Istanbúl (innsk. sem á síðasta ári veitti Róbert Spanó heiðursdoktorsnafnbót) stóð nýlega fyrir netráðstefnu þar sem fulltrúar Bræðralags múslima og Heilags stríðs íslams (e. Islamic Jihad) kölluðu eftir útrýmingu Ísraels. Erdogan tjáði sig sjálfur um möguleikann á bættum samskiptum við Ísrael um miðjan desember en gerði enga tilraun til að lýsa andúð sinni á ríkinu í samskiptum við fjölmiðla.

Óráð að semja

Glick segir í lok greinar sinnar að vissulega sé Tyrkland öflugt ríki og hafi á sínum tíma verið dýrmætur bandamaður Ísraels. Því hafi þessi fjandsamlegi viðsnúningur, knúinn af hugmyndafræði íslamista, verið mikill missir fyrir Ísraelsríki. Aftur á móti hefur Tyrkland á liðnum áratug reytt af sér bandamenn og sökkt eigin hagkerfi. Á sama tíma hefur Ísrael styrkt stöðu sína hernaðarlega og efnahagslega og með öflugu leiðtogahlutverki sínu gert friðarsamninga og/eða aukið samskipti við nokkur mikilvæg ríki á svæðinu.

Ísraelsmenn hafa því enga hagsmuni af því að losa Tyrki úr þeirri einangrun sem þeir hafa sjálfir komið sér í með fjandsamlegri hegðun sinni. Þeir hafa heldur enga hagsmuni af því að gera samning við Erdogan sem verður til þess að kasta á skugga á góð samskipti við ríki sem einnig stendur ógn af Tyrklandi.

Að mati Glick væri því mikið óráð fyrir stjórnvöld í Jerúsalem að þiggja boð Erdogans um viðræður.

 

Byggt á grein Caroline B. Glick, sem birtist á vef Newsweek 30.12.20. Millifyrirsagnir eru á vegum Þjóðmála.