Hvernig stendur á því að margir sem tala fyrir hærri lágmarkslaunum tala einnig fyrir róttækum opinberum aðgerðum til að sporna gegn losun koltvísýrings í andrúmsloftið? Hvernig stendur á því að talsmenn lægri skatta eru einnig oftar en ekki sama fólkið og talar fyrir virðingu fyrir gömlum gildum og hefðum? Hvernig stendur á því að gjörólík umræðuefni raða oft sömu einstaklingunum sitthvoru megin við borðið?
Hagfræðingurinn Thomas Sowell velti þessu fyrir sér og reyndi í bók sinni, A Conflict of Visions: Ideological Origins of Political Struggles (2007), að svara spurningunni. Kenning hans er athyglisverð og snýr að tvenns konar sýn (vision) á samfélagið: Sú takmarkalausa (unconstrained) og sú takmarkaða (constrained).
Hin takmarkalausa sýn er í stuttu máli sú sýn að okkur mannfólkinu haldi engin bönd. Með vilja og áræðni, auk visku og rökhugsunar, sé hægt að ná hvaða markmiði sem er, svo sem jöfnun á kjörum, réttlæti, bættu siðferði og velmegun. Menn þurfi einfaldlega að setja sér markmið og hafa viljastyrkinn og nauðsynlega þekkingu. Þannig séu engin bönd á okkur þegar kemur að gildum fortíðar, lögunum eða fyrri reynslu. Dómarar eigi að stuðla að réttlæti en ekki fylgja dauðum bókstaf lagatextans, svo dæmi sé tekið. Alla þekkingu sé hægt að sækja til að stuðla að réttlátu samfélagi. Hin takmarkalausa sýn snýr að því að leysa vandamálið – finna lausnina. Hin færustu meðal okkar geti það og við hin njótum þess.
Hin takmarkaða sýn er af allt öðrum toga. Samkvæmt henni er ekki hægt að stýra samfélaginu eins og skipi heldur er miklu vænlegra að búa til hvata sem stuðla að réttlátu samfélagi og leiða saman þá þekkingu sem er dreifð á meðal alls fólks. Í þessu felst meðal annars réttarríkið – að lög séu fyrirsjáanlegar leikreglur sem eru túlkaðar þröngt og samkvæmt ákveðnum reglum. Hefðir og reynsla fortíðar séu mikilvægar vörður til framtíðar enda afleiðing árþúsunda af uppsafnaðri þekkingu. Ekki sé hægt að skilgreina lausn og róa öllum árum að henni. Mun vænlegra sé að huga að þeim ferlum sem eiga sér stað í samfélaginu, svo sem í viðskiptum, og átta sig á því að oftar en ekki eru kostir og gallar á öllu.
Kenningin um hina takmarkalausu og takmörkuðu sýn er ekki pólitísk í sjálfu sér en getur mögulega nýst sem greiningartæki í pólitískri umræðu. Hún gæti mögulega útskýrt af hverju stuðningsmaður lögbundinna lágmarkslauna og hárra skatta, sem hvort tveggja á að jafna kjör, er mjög líklega líka stuðningsmaður opinberra aðgerða gegn losun koltvísýrings með það að markmiði að takmarka hlýnun jarðar. Sýn hans er jú takmarkalaus – maðurinn geti skilgreint hvaða kjara fólk eigi að njóta og ásættanlegt hitastig lofthjúpsins og náð markmiðum sínum ef hann leggi sig allan fram með liðsinni hinna færustu sérfræðinga. Hann geti gert fátæka ríka með því að hækka laun, nánast með einu pennastriki. Hann geti stjórnað hitastigi plánetunnar. Hann geti læknað alla sjúkdóma og eytt loftbornum veirum. Það séu með öðrum orðum engar takmarkanir aðrar en í viljastyrk okkar og áræðni.
Hinum megin borðsins situr einstaklingur sem er mótfallinn bæði hærri lágmarkslaunum og opinberum aðgerðum í nafni loftslagsbreytinga þótt hann vilji líka bæta hag hinna fátæku og búa við hreint umhverfi. Hann vill ekki að hið opinbera skipti sér af launum fólks og að skattar refsi ekki fyrir verðmætasköpun. Of há laun geti leitt til atvinnuleysis og of háir skattar geti haft letjandi áhrif. Kosti og galla þurfi að skoða í samhengi. Inngrip inn í hagkerfið séu ekki afleiðingalaus og hafi keðjuverkandi áhrif. Í stað beinna aðgerða sem miðast að ákveðnum lausnum ætti að tryggja gott rekstrarumhverfi fyrirtæki og atvinnufrelsi og leyfa svo einstaklingum að leita laus sinna mála á eigin forsendum. Að sama skapi sé ekki bara hægt að hækka og lækka hitastig jarðar. Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum séu inngrip með afleiðingar, rétt eins og hækkun lágmarkslauna.
Hinar tvær sýnir takast ekki alltaf á með beinum hætti, enda tala þær um áskoranir með mjög ólíku tungutaki. Sá með ótakmarkaða sýn rökstyður þá mál sitt með þeim hætti að sá með hina takmörkuðu sýn mætir aldrei röksemdunum beint. Deiluaðilar gætu allt eins verið að tala sitthvort tungumálið þar sem hvorugur skilur hinn. Nýlegt dæmi er hin þráláta umræða í íslensku samfélagi um nýja stjórnarskrá. Stuðningsmenn hinnar nýju stjórnarskrár (sú með rætur í Stjórnlagaráði) tala um lausnir og tala út frá hinni ótakmörkuðu sýn: Með því að setja hitt og þetta ákvæði í stjórnarskrá sé búið að tryggja öllum menntun, velmegun, réttlæti, hreint umhverfi, auðlindarentu og hvaðeina. Þeir sem séu á móti stjórnarskránni nýju hljóti að vera á móti öllum hinum jákvæðu fyrirmælum hennar til yfirvalda. Þeir hljóti t.d. að vilja hampa kvótaeigendum á kostnað almennings og þeim ríku á kostnað hinna fátæku. Þeir vilji ekki réttlátara samfélag, laust við spillingu og sérhagsmunagæslu. Breytingar á stjórnarskrá leysi vandamál.
Andstæðingar róttækra breytinga á stjórnarskrá lýðveldisins svara slíkum ásökunum aldrei beint. Þeir reyna ekki að hafna þeim lausnum sem talsmenn nýrrar stjórnarskrár tala fyrir. Miklu frekar tala andstæðingar róttækra stjórnarskrárbreytinga um mikilvægi þess að varðveita stöðugleika í réttarkerfinu. Ný stjórnarskrá skapi réttarfarslega óvissu og fyrri dómsmál nýtist ekki lengur sem fordæmisgildandi. Slíkt gæti skapað keðjuverkun neikvæðra afleiðinga. Mikilvægt sé að halda sig við minni breytingar í einu sem raski ekki um of ferlum samfélagsins. Enginn hafni því að fátækt eigi að útrýma, menntun að tryggja og auðlindir að varðveita en glæný stjórnarskrá sé engin trygging fyrir slíku jafnvel þótt viljinn sé til staðar. Breytingar á stjórnarskrá hafi kosti og galla.
Ekki er víst þótt einstaklingur tilheyri hinni takmörkuðu sýn í einu máli að hann tilheyri henni í öðru líka. Að mati Sowell var Karl Marx fylgjandi hinni takmörkuðu sýn þegar hann lýsti fortíðinni (hin óumflýjanlegu öfl sem mótuðu samfélagið) en hinni ótakmörkuðu þegar hann talaði um framtíðina (þegar hinn sósíalíski maður yrði mótaður eftir kollsteypu kapítalismans). Manneskja getur verið hliðholl kristnum hefðum og venjum og séð sig sem innbyggðan hluta af vestrænu samfélagi og tengingu við fortíðina en engu að síður verið hlynnt löggjöf sem hækkar laun verkafólks töluvert með einu pennastriki og talið slíkt vera án neikvæðra afleiðinga.
Tíðarandinn getur verið einni sýninni hliðhollari en annarri. Til dæmis er hægt að færa rök fyrir því að við lifum núna á tímum hliðhollum hinni takmarkalausu sýn. Hægt sé að uppræta fátækt, fordóma, ofbeldi og hvaðeina með harðari dómum, afhjúpunum, opinberri smánun og auknum tilfærslum á peningum frá einum til annars. Dómarar fá skammir fyrir að dæma ekki harðar fyrir glæpi jafnvel þótt refsiramminn sé festur í lög. Sönnunarbyrði réttarríkisins er jafnvel töluð niður sem vernd fyrir glæpa- og ofbeldismenn. Þeir sem aðhyllast öllu takmarkaðri sýn reyna að benda á að hlutir taki stundum tíma, ákveðnum gegnsæjum ferlum þurfi að fylgja, réttarríkið skipti máli og að upplýsingar og opinská umræða séu stundum ákafanum og óþreyjunni fremri. En þegar heykvíslirnar eru komnar fram og nornabrennurnar byrjaðar er oft erfitt að stöðva það sem koma skal.
Óháð því hvaða sýn við fylgjum tel ég vera ávinning í því að reyna að skilja hugarfar þeirra sem við deilum eða ræðum við. Hin ótakmarkaða sýn er oft að reyna að rækta vínber á Grænlandi en hin takmarkaða sýn er gjörn á að hafa hendina tilbúna á handbremsunni og toga í við minnstu hreyfingu. Kannski báðar fylkingar geti lært af hinni en til vara lært að tala saman.
Höfundur er verkfræðingur.
—
Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 3. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.