Gleymum ekki fórnarlömbum kommúnismans

Í vetur sem leið sinnti ég lítilsháttar forfallakennslu í mannkynssögu við Verslunarskóla Íslands. Þannig hitti á að ég þurfti einkum og sér í lagi að útlista kenningar kommúnista fyrir nemendum og segja þeim sögu Sovétríkjanna og annarra sósíalískra ríkja. Í þeirri kennslubók sem nemendur studdust við var mjög svo dregið úr lýsingum af grimmdaræði sovéskra kommúnista og á köflum voru lýðræðisríki Vesturlanda lögð að jöfnu við alræðisríkin í austri.

Því miður er framsetning af þessu tagi algeng og í nálega hvert sinn sem voðaverk kommúnismans eru fordæmd stíga einhverjir fram og bera blak af stefnunni. Þetta má heita í hæsta máta undarlegt, þar sem kommúnisminn er glæpsamlegur í eðli sínu. Í því sambandi er rétt að líta til nokkurra þátta: a) Höfundar Svartbókar kommúnismans (fr. Le Livre noir du communisme), Frakkarnir Jean-Lois Margolin og Nicolas Werth, álita að heildarfjöldi fórnarlamba kommúnismans sé um 85 til 100 milljónir manna. b) Í nafni kommúnisma var heilum þjóðflokkum útrýmt, sem og stéttum, svosem rússneskum og úkraínskum sjálfseignarbændum. Og í nafni stefnunnar voru líka framin þjóðarmorð í Kambódíu, Tíbet og víðar. c) Grimmdaræði kommúnista í Rússlandi og Kína var heldur ekki „rökrétt“ framhald af ofbeldishneigð stjórnvalda í þessum ríkjum, eins og alloft er haldið fram. Sem dæmi má nefna voru 3.932 líflátnir í Rússlandi á árunum 1825–1917 af stjórnmálaástæðum. Bolsévikar höfðu jafnað þá tölu eftir fimm mánuði á valdastóli – í mars 1918.

Nánari útlistum á óhæfuverkum í nafni kommúnismans má lesa í Svartbók kommúnismans, en hún kom út í íslenskri þýðingu dr. Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar árið 2009.

Haustið 2016 komu út í nýrri útgáfu tvær bækur um sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna, sem komu út á íslensku á sínum tíma. Þetta voru bækurnar Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum (Baltic Eclipse) eftir Ants Oras frá 1955 í þýðingu séra Sigurðar Einarssonar í Holti og Eistland: Smáþjóð undir oki erlends valds (Estland: En studie i imperialism) eftir Andres Küng frá 1973 í þýðingu Davíðs Oddssonar, þá laganema.

En svo ég víki aftur sögunni að verslunarskólanemum, þá taldi ég rétt að leiða þá í allan sannleika um kommúnismann og hvatti þá til lesturs Svartbókarinnar og fleiri aðgengilegri rita á íslensku. Meðal fleiri bóka um þetta efni má nefna Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum (e. Baltic Eclipse) eftir Ants Oras, sem var prófessor í enskum bókmenntum í Tartu í Eistlandi og síðar við Flórídaháskóla í Bandaríkjunum. Örlaganótt kom út á ensku árið 1948 og hefur verið þýdd á fjölda tungumála. Séra Sigurður Einarsson í Holti íslenskaði hana með snilldarhætti og bókin varð fyrsta útgefið verk Almenna bókafélagsins haustið 1955. Almenna bókafélagið gaf hana út á nýjan leik í fyrra í tilefni þess að aldarfjórðungur var liðinn frá því að Ísland endurnýjaði viðurkenningu sína á sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna, en eins og dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson rekur í inngangsorðum þá viðurkenndu Íslendingar aldrei hernám Eystrasaltslanda. Það er sami skilningur og leiðtogar Eystrasaltsþjóðanna og menn eins og Oras héldu fram: Ríki þeirra hefðu verið hernumin á árunum 1940 til 1991. Í nýlegri íslenskri kennslubók í mannkynssögu segir að þessi ríki hafi nýtt sér þann „rétt“ sem þau hefðu haft alla tíð til að ganga úr Sovétríkjunum. Sá „réttur“ var vitaskuld aðeins í orði kveðnu. Ríkin gengu heldur aldrei í Sovétríkin og gátu þess vegna ekki gengið úr þeim.

Ants Oras var fæddur í Eistlandi árið 1900, en landið var þá hluti Rússaveldis. Hann nam enskar bókmenntir við háskólana í Tartu, Leipzig og Oxford. Oras kenndi fræðigreinar sínar við háskólana í Tartu og Helsinki, auk þess sem hann varð umsvifamikill þýðandi. Honum tókst að flýja ásamt konu sinni til Svíþjóðar árið 1943, en bókin segir frá hörmungum eistnesku þjóðarinnar frá því að griðasáttmáli Hitlers og Stalín er undirritaður sumarið 1939, innrás Rauða hersins í kjölfarið, fólskuverkum Sovétmanna í landinu og því næst innrás þýskra þjóðernissósíalista 1941 og glæpum þeirra gegn landsmönnum. Oras lést í Flórída í Bandaríkjunum 1982 og lifði því ekki að sjá land sitt frelsað undan oki ráðstjórnarinnar.

Bók hans Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum er engin skemmtisaga, heldur „átakanleg harmsaga“ eins og séra Sigurður kemst að orði í inngangi. Sagan segir af því hvernig friðsæl, hámenntuð og athafnasöm smáþjóð verður fyrir skefjalausu grimmdaræði. Lýsingarnar á Eistlandi geta að miklu leyti, að breyttu breytanda, átt við um hernám Sovétmanna og síðar þýskra þjóðernissósíalista í Lettland og Litháen. Þessi þrjú ríki höfðu öðlast sjálfstæði árið 1918, sama ár og Ísland. Á árunum milli stríða höfðu lífskjör batnað stórum og þegar komið var fram á ofanverðan fjórða áratuginn var Eistland orðið jafnoki Norðurlandanna í mennta- og menningarefnum. Frelsið hafði orðið þjóðinni aflvaki framfara á öllum sviðum.

Lýsingar Oras á þeim hörmungum sem fylgdu innrás Sovétmanna eru svo skelfilegar að ég varð reglulega að leggja bókina frá mér. Sem dæmi má nefna vitnar hann á einum stað í bréf sem bóndakona skrifar börnum sínum, en þessi kona hafði verið flutt til að vinna þrælavinnu langt austur í Rússlandi, ásamt tugþúsundum Eistlendinga. Hún skrifar:

„… þeir neyða mig til að ganga hálfbogna alla daginn og snúa mó tólf tíma á dag, dag eftir dag, og að bera mókörfur á öxlunum … ég hef alltaf verk í bakinu, og nú hefur hann líka sett sig í brjóstið“.

Ants Oras var fæddur í Eistlandi árið 1900, en landið var þá hluti Rússaveldis. Hann nam enskar bókmenntir við háskólana í Tartu, Leipzig og Oxford. Honum tókst að flýja ásamt konu sinni til Svíþjóðar árið 1943. Oras lést í Flórída í Bandaríkjunum 1982 og lifði því ekki að sjá land sitt frelsað undan oki ráðstjórnarinnar.

Þessar lýsingar voru þó hátíð miðað við vosbúðina sem flestir hinna brottfluttu máttu þola. Langflestir lifðu aðeins skamma hríð og fyrst til að láta lífið voru ung börn og gamalmenni. Margir voru látnir þræla í námum á heimskautasvæðum Síberíu. Í bréfi eins Eistlendings heim segir að þeir hafi mátt sofa í ösku og á morgnana hafi klæði þeirra jafnan verið frosin við jörðina: „Mennirnir dóu umvörpum, en nýir fangar bættust sífellt í skörðin.“ (bls. 91).

Stór hluti fanganna lést af völdum harðræðis og vosbúðar veturinn 1941–42. Um 400 eistneskir liðsforingjar höfðu sem dæmi verið sendir til að þræla í námum í Úkhta í Rússlandi. Aðeins 35 þeirra voru lifandi um vorið. Líkin voru ekki jörðuð heldur þeim fleygt út fyrir girðingar þrælabúðanna.

Grimmdarverk innrásarhersins jukust dag frá degi. Sjálfur kveðst Oras eiga erfitt með að hafa eftir þær pyntingaraðferðir sem landar hans, sér í lagi konur máttu þola. Oftar en ekki voru augun stungin úr fólki áður en það var skotið í hnakkann. Hann segir svo frá:

„Ef til vill var það ennþá verra að fá augnlok sín fest upp með nálum og ofsasterku ljósi beint inn í augun klukkustundum saman, eins og gert var við nokkra fanga í nánd við Paide. Eða vera flegnir á höndum og fótum. Þetta kölluðu bolsévikar „að taka mál af hönskum og sokkum“. Þannig murkuðu þeir lífið úr frú Ellerbusch í Kuressaari. Auk þess höfðu þeir skorið af henni brjóst á hinn viðbjóðslegasta hátt.“ (bls. 109).

Böðlar fyrri alda höfðu fundið ofjarla sína. Villimannsleg grimmdin átti sér engin takmörk og iðulega voru særðir og slasaðir fangar kviksettir. Jafnskjótt og rauði herinn hafði verið hrakinnn burt frá landinu 1941 hófust Gyðingaofsóknir þýskra þjóðernissósíalista, auk annarra ofsókna.

Ants Oras prófessor komst á brott frá Eistlandi 1943. Þegar hann skrifar bók sína höfðu Sovétmenn á nýjan leik hernumið landið og sömu ofsóknirnar héldu áfram. Markmiðið var augljóslega að afmá eistnesku þjóðina og eistneska menning og viðurstyggilegum aðferðum var beitt við þá iðju. En hinar þrautseigu Eystrasaltsþjóðir þreyjuðu ógnarstjórn í áratugi. Í bókarlok segir Oras orðrétt um Eistlendinga, Letta og Litháa: „Þeir vona enn, að einhvern tíma muni réttlætið sigra. Þeir vilja ekki trúa því, að þrjár friðelskandi framfaraþjóðir verði brotalaust ofurseldar glötuninni.“ Oras lifði í voninni um frjálst Eistland. Sá draumur átti eftir að rætast þó svo að hann lifði ekki að sjá föðurland sitt frelsað úr klóm ráðstjórnarinnar.

Við verðum að draga lærdóma af sögunni. Safn til sögu kommúnismans, sem Almenna bókafélagið stendur að, er virðingarverð tilraun til að halda á lofti málstað hins undirokaða og kúgaða. Örlög Eystrasaltsþjóðanna hefðu getað orðið örlög Íslendinga, hefðum við ekki bundist varnarsamstarfi vestrænna ríkja. Ekki þarf heldur að spyrja að leikslokum hefði Danmörk, Noregur, Holland eða Belgía endað á hernámssvæði Sovétmanna. Miklu skiptir að ungmenni séu frædd um eðli alræðisstefna, eins og kommúnisma og þjóðernissósíalisma. Ekki verður við það unað að í skólum landsins sé notast við kennslubækur þar sem jafnvel er borið blak af alræðisríkjum og þau um sumt lögð að jöfnu við lýðræðisríki Vesturlanda. Nýlega útgefin rit Almenna bókafélagsins um kommúnismann, eins og Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum, eru mikilvæg til aukins skilnings á því grimmdaræði sem óhjákvæmilega fylgir kommúnískum stjórnarháttum og sjá má fram á þennan dag á Kúbu og í Norður-Kóreu.

Einn nemanda Verslunarskólans orðaði það svo í vetur eftir að ég hafði frætt bekk hans um kommúnismann, að stefnan fæli í sér hreina og klára illsku. Það eru orð að sönnu.

Höfundur er doktorsnemi í lögfræði og sagnfræði.

 

Bókarýnin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2017.