Íbúar Kúbu verða frjálsir einn daginn

Frá einu af fjölmörgum fátæktahverfa Kúbu. Hverfa sem fæstir ferðamenn fá að sjá í heimsókn sinni til landsins.

Um miðjan júní tilkynnti Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, að hann hygðist snúa við ákvörðun forvera síns í starfi, Barack Obama, og setja aftur á viðskiptabann á Kúbu. Bandaríkin lögðu viðskiptabann á Kúbu í áföngum á árunum 1959-62.

Rétt er þó að hafa í huga að Bandaríkin hafa aldrei stöðvað viðskipti Kúbu við þriðja aðila, viðskiptabannið var einungis í gildi gagnvart bandarískum þegnum og fyrirtækjum. Í apríl árið 2009 var viðskiptabanninu aflétt að hluta, en áfram ríkja ströng skilyrði fyrir bandaríska þegna til að eiga viðskipti við Kúbu enda hafði Obama ekki leyfi til að aflétta viðskiptabanninu í heild sinni. Það fellur í hlut bandaríska þingsins og þar er enn deilt um bannið. Diplómatísk samskipti ríkjanna hafa þó verið endurvakin.

Donald Trump telur aftur á móti að þrátt fyrir mikinn vilja Bandaríkjamanna til að bæta samskipti ríkjanna hafi stjórnvöld á Kúbu haldið áfram að kúga þegna sína og því sé rétt að grípa aftur til hertra aðgerða gegn ríkinu.

Það átta sig flestir á því að kommúnistastjórnin á Kúbu er enn við sama heygarðshornið þó svo að Fidel Castro sé horfinn af sjónarviðinu. En þeim fer þó fækkandi sem telja að viðskiptabann sé rétta leiðin til að bæta líf almennings á Kúbu. Rand Paul, þingmaður í öldungadeild Bandaríkjaþings, skrifaði pistil á vef Reason tímaritsins þann 20. júní sl. þar sem hann fjallaði um kosti þess að annars vegar eiga í viðskiptum við Kúbu eða hins vegar útfæra viðskiptabannið frekar. Paul er líkt og faðir hans, Ron Paul, fv. fulltrúardeildar-þingmaður frá Texas, þekktur frjálshyggjumaður og talsmaður frjálsra viðskipta.

„Þetta er ekki bara spurning um Kúbu, heldur á það sama við um Íran, Rússland og Kína,“ segir Paul í grein sinni (í lauslegri þýðingu) og veltir því upp hvort rétt sé að eiga viðskipti við þessi ríki eða hvort réttar sé að halda að sér höndum og stöðva öll viðskipti í þeirri von að breyta hegðun þessara þjóða (eða leiðtoga þeirra).

Hann minnir á að í meira en hálfa öld hefur verið í gildi viðskiptabann á Kúbu og bendir á að þeir Castro bræður (Fidel og bróðir hans Raúl sem nú er forseti) hafi ekki einungis komist ágætlega af heldur hafi þeir nýtt bannið sér til framdráttar. Þeir bræður hafi óspart notað áróðurstæki ríkisins til að telja fólki trú um að það væri Bandaríkjunum að kenna að það væri skortur á vörum og gæðum í landinu og þar með forðast það að benda á hinn raunverulega sökudólg, sósíalismann.

„Viðskiptabannið gerði ekkert til að sigra Castro, nákvæmlega ekkert,“ segir Paul í grein sinni. Þá segir hann að viðskiptabannið hafi í raun fært Castro aukin völd yfir almenningi í landinu og þá að öllum líkindum tækifæri til að ílengja valdasetu sína.

„Ég er sjaldan sammála Obama en það má þó hrósa honum fyrir þau litlu skref sem hann steig í átt til bættra samskipta við Kúbu,“ segir Paul.

„Ákvörðun hans um að leyfa aukin ferðalög og viðskipti við Kúbu hafa orðið til þess að Bandaríkjamenn sækja landið eins og aldrei fyrr. Ferðalög þeirra til landsins er í raun birtingarmynd á þeim auð sem bandarískur kapítalismi býr til. Hver dollari sem verður eftir í höndum og veskjum leigubílstjóra, hótelstarfsfólks, þjónustustarfsfólks og annarra íbúa er áminning um það hvað bíður þeirra ef þau hafna sósíalismanum. Við getum ekki dreift lýðræði með valdi, eins og við höfum rekið okkur á aftur og aftur í utanríkisstefnu okkar. En við getum sýnt heiminum kapítalismann í verki, flutt hann út með fólki og vörum og þannig unnið rökræðuna án þess að hleypa af svo mikið sem einni byssukúlu.“

Þá rifjar Paul upp að á æskuárum sínum hafi hann og fjölskylda hans verið miklir andstæðingar kommúnismans, og séu það enn, en jafnframt á móti því að opna á viðskipti við „Rauða Kína“ eins og það var kallað þá.

„Þar höfðum við þó rangt fyrir okkur,“ segir Paul. Hann segir að vissulega séu leifar af sósíalisma í Kína, en fáir geti þó mótmælt því að landið sé bæði kapítalískara og frjálsara en það var áður en Bandaríkin stofnuðu til stjórnmála- og viðskiptasambands.

„Í stað þess að fela kapítalismann á bakvið misheppnað viðskiptabann ættum við að rífa niður alla veggi sem fela í sér viðskiptahömlur og um leið opna í auknari mæli fyrir ferðalög og viðskipti,“ segir Paul.

„Í stað þess að leyfa sósíalistunum að halda áróðri sínum áfram óáreittum ættum við að hafa nægilegt traust á kapítalismanum og láta hann sigra umræðuna í verki. Við skulum sjá hvernig íbúar á Kúbu bregðast við þegar þeir komast í snertingu við iPhone, nútíma bíla og ferðamenn með fullar fúlgur fjár sem vilja kaupa af þeim vöru og þjónustu. […] Ég óttast ekki samkeppni á milli sósíalismans og kapítalismans. Afléttum viðskiptabanninu og kapítalisminn mun smátt og smátt […] útrýma veikburða gripi sósíalismans. Íbúar Kúbu munu upplifa frelsi þegar þeir átta sig á því að fátækt og sósíalisminn fara hönd í hönd.“

Stíflan er brostin

Og það eru fleiri á þessari línu. Doug Bandow, fræðimaður hjá Cato hugveitunni í Washington og fv. aðstoðarmaður Ronald Reagan Bandaríkjaforseta, fjallaði um útspil Trump í pistli á vef Cato. Bandow bendir á að Trump hafi mótmælt meðferð stjórnvalda á Kúbu á þegnum sínum, en hann hefði þó ekkert tjáð sig eða fjallað um kúgun stjórnvalda á þegnum sínum í nýlegri ferð sinni um Mið- Austurlönd, t.d. í Saudi-Arabíu.

Bandow segir í pistli sínum að Kúba hafi verið á „vonda“ listanum í Washington frá því að byltingarmenn undir forystu Fidel Castro komust til valda árið 1959. Þá segir Bandow að Kúba hefði í raun haft litla þýðingu hefði Castro ekki sóst eftir stuðningi Sovétríkjanna á dögum kalda stríðsins. Hvað útspil Trump varðar segir Bandow að afturhvarf til misheppnaðar stefnu muni ekki frelsa íbúa Kúbu. Bandow segir að bandaríska viðskiptabannið hafi ekki komið höggi á Castro og félaga. Þvert á móti hafi það gefið þeim afsökun til að réttlæta misheppnaða efnahagsstefnu sína með áróðri sem fólst í því að kenna Bandaríkjamönnum um fátækt og vöruskort. Það hafi tekist þrátt fyrir að Evrópubúar hafi fjárfest á Kúbu í gegnu tíðina. Sjálfur dvaldi hann á hóteli í eigu Hollendinga þegar hann heimsótti landið fyrir rúmum áratug.

Þá segir Bandow að í raun hafi lítil hugsun verið að baki því að viðhalda viðskiptabanninu svo lengi sem raun ber vitni. Það hafi aðeins verið gert til að halda hópi Bandaríkjamanna af kúbverskum uppruna ánægðum en sá hópur er dyggur hópur kjósenda í Flórída ríki (Í Bandaríkjunum þurfa kjósendur að skrá sig á kjörskrá fyrir kosningar og þeir sem eru af kúbverskum uppruna eru mjög traustir kjósendur).

„Stefna Bandaríkjanna í þessu máli er skilgreining á sturlun; að gera það sama aftur og aftur og búast við breyttri niðurstöðu,“ segir Bandow.

Bandow er ósammála Trump um það hvernig rétt sé að nálgast Kúbu og bendir á að á dögum kalda stríðsins hafi Bandaríkjamenn átt diplómatísk samskipti við Sovétríkin, Austur-Evrópuþjóðir og á seinni árum við ýmsa einræðisherra þriðju heims ríkja.

„Sendiráð er samskiptarás á milli stjórnvalda en ekki táknmynd um stuðning við stefnu stjórnvalda,“ segir Bandow. Þar beinir hann orðum sínum augljóslega í gagnrýni á þá stefnu Trump að vilja loka á ný sendiráði Bandaríkjanna á Kúbu.

Bandow segir réttilega að frjáls viðskipti og fjárfestingar gagnist báðum aðilum efnahagslega.

„Frjáls viðskipti grafa undan ofríki stjórnmálamann og stuðla að bæði efnahagslegu og pólitísku frjálsræði,“ segir Bandow.

„Viðskiptatengsl og hagvöxtur hafa stuðlað að því að örva lýðræðisþróun í ríkjum á borð við Mexíkó, Suður-Kóreu og Taívan. Frjáls viðskipti tryggja þó auðvitað ekki pólitíska umbreytingu. […] En áhrif kommúnismans fara þó þverrandi.“

Þá vísar hann í orð Christopher Sabatini, prófessors við Columbia University, sem sagði eftir heimsókn sína til Kúbu á síðasta ári að „stíflan hefði brostið“, það væri áþreifanlegur munur á því hvernig íbúar landsins eru tilbúnir að tjá sig um ríkisstjórnina, vaxandi velmegun hefði ýtt undir frumkvöðlahugsun og þá væri vaxandi vilji til þess að vernda tjáningarfrelsi blaðamanna, ólíkt því sem áður var.

Bandow varar við því að herða enn tökin á Kúbu. Það muni fyrst og fremst bitna á íbúum landsins og hindra uppgang einkageirans á eyjunni, sem að öllu óbreyttu hefði leitt til þverrandi áhrifa kommúnismans. Fari svo að Trump haldi sig við þá stefnu sem hann boðaði í júní muni það einungis styrkja ríkisstjórn Kúbu og ílengja kúgun hennar á íbúum landsins.

„Kosningabaráttan er búin. Trump forseti ætti að gera það sem er best fyrir bæði Bandaríkjamenn og íbúa Kúbu og binda endi efnahagslegar þvinganir gegn eyjunni,“ segir Bandow.
Líkt og Rand Paul fullyrðir hann að íbúar Kúbu verði frjálsir einn daginn. Með því að flæða fólki, og þar með fjármagni, yfir eyjuna muni sá dagur koma fyrr en síðar.

Fjallað var um Kúbu og misheppnað viðskiptabann á landið í sumarhefti Þjóðmála 2017.