Margir líta svo á að á seinni tímum þurfi stjórnmálin með einhverjum hætti að breytast. Þannig þurfi ólíkir flokkar og ólíkir stjórnmálaforingjar að eiga samtal sem þeir hafa ekki átt áður. Tilgangurinn er iðulega óljós, en oftast fylgir það sögunni að hægt sé að sættast á mál sem eigi hvort eð er ekki að vera pólitískt þrætuefni. Síðan geti menn tekið slaginn um önnur atriði eftir því hvar þeir standa á litrófi stjórnmálanna. Þetta hefur verið reynt, en sjaldnast með góðum árangri og aldrei með langtíma árangri. Þeir sem fylgjast með störfum Alþingis vita að meginþorri mála rennur þar í gegn án þess að mikið sé tekist á um þau. Það er ekki endilega jákvætt, því meginþorri þessara mála er kominn frá embættismönnum sem hafa ekkert lýðræðislegt umboð, en mæla afköst sín í fjölda laga og reglugerða. Í nær öllum tilvikum fela þessi lög og reglugerðir, sem aldrei er tekist á um, í sér aukin umsvif hins opinbera á kostnað frelsisins. Vart þarf að taka fram að lög og reglugerðir eru nær aldrei afnumin.
Eðli málsins samkvæmt eru það síðan málin sem tekist er á um sem fá meiri athygli. Um þau er fjallað í fjölmiðlum og almenningur fær það á tilfinninguna að stjórnmálamenn séu alltaf að rífast. Þess vegna kallar fólk gjarnan eftir auknu samstarfi í stjórnmálum og það má að sumu leyti sýna því sjónarmiði skilning. „Af hverju geta ekki bara allir unnið saman að því að gera eitthvað gott fyrir fólkið í landinu?“ er spurning sem er vinsæl meðal almennings. Og spurningin á svo sem rétt á sér. Alþingismenn eru kjörnir fulltrúar almennings og vinna í þágu almennings, svo langt sem það nær.
Það má hins vegar ekki fylgja þessu sjónarmiði í blindni. Sá sem hér skrifar var fyrir nokkrum árum þeirrar skoðunar að mögulega væri hægt að breyta stjórnmálunum til hins betra. Að mögulega væri hægt að eiga samstarf og samtal um mikilvæg málefni og takast á um önnur. Sú skoðun reyndist röng, eða í það minnsta óskhyggja. Stjórnmálunum verður ekki breytt. Þau eru, hafa alltaf verið og verða alltaf hatrömm. Sá sem stefnir að pólitískum árangri og vill koma stefnumálum sínum í gegn gerir það ekki öðruvísi en að berjast fyrir skoðunum sínum af krafti og í fulla hnefana. Það er í sjálfu sér eðlilegt að gera málamiðlanir um einstaka atriði en því fylgir alltaf ákveðin uppgjöf – enda eru málamiðlanir sjaldnast verðlaunaðar.
Nú er rétt að taka fram að vissulega geta stjórnmálamenn átt kunningja í öðrum flokkum og það getur ríkt ágætis samband á milli aðila innan veggja þingsins. Á árum áður gátu menn tekist harkalega á um einstaka málefni inni í þingsal en síðan farið saman og fengið sér kaffi (eða eitthvað sterkara) og rætt um daginn og veginn. Þeim tilvikum fer þó fækkandi og vinskapur heyrir sögunni til.
***
Nú situr við völd ríkisstjórn sem leidd er af Vinstri grænum (VG) með þátttöku Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Frá síðustu kosningum bætti VG aðeins við sig einu prósentustigi og einum þingmanni, þrátt fyrir að hafa mælst með fjórðungsfylgi nokkrum vikum fyrir kosningar. Reyndar má segja að það hafi kvarnast úr þingflokknum þegar tveir þingmenn flokksins lýstu því yfir að þeir styddu ekki núverandi ríkisstjórnarsamstarf.
Eflaust má færa rök fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn, sem er sem fyrr stærsti flokkur landsins, hafi ekki átt marga aðra valkosti en að ganga til samstarfs við VG og eftirláta formanni VG embætti forsætisráðherra.
En er það rétt? Nú reyndu menn að koma saman fjögurra flokka stjórn VG, Framsóknar, Samfylkingar og Pírata (sem hefði haft eins manns meirihluta á þingi ef allir þingmenn hefðu stutt það samstarf) en það mistókst. Viðræður flokkanna voru vart hafnar í sveitinni hjá formanni Framsóknar þegar þingmenn Pírata voru byrjaðir að gaspra og góla í fjölmiðlum og nokkrum dögum síðar runnu þessar viðræður út í sandinn. Síðar var rætt um að bæta Viðreisn inn í hópinn en þá var það orðið of seint. VG og Framsókn, sem væntanlega sáu í hvers konar ófremdarástand stefndi í samstarfi við Pírata, voru komin í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn. Það verður að teljast ólíklegt að það hefði samt breytt nokkru þó svo að Viðreisn hefði komið að viðræðunum. Fimm flokka vinstristjórn var mjög óraunhæf og því má ætla að staða Sjálfstæðisflokksins hefði orðið enn sterkari.
Í anda sátta og samlyndis var því gengið að núverandi ríkisstjórnarsamstarfi. Ríkisstjórnin var varla tekin til starfa þegar heilbrigðisráðherra lýsti því yfir að það yrði enginn frekari einkarekstur í heilbrigðiskerfinu á hennar vakt, nýr umhverfisráðherra (sem kom beint frá hagsmunasamtökunum Landvernd) hafði uppi miklar yfirlýsingar um framtíð virkjunarmála og nýr samgöngumálaráðherra sló út af borðinu alla vinnu um mögulegar einkaframkvæmdir í samgöngumálum, án þess þó að útskýra hvernig staðið yrði að nauðsynlegum samgöngubótum næstu árin. Enginn þingmaður eða ráðherra Sjálfstæðisflokksins hafði nokkuð út á þetta að setja, væntanlega í anda sátta og samlyndis.
***
Það má þó á móti segja að Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson hafi sýnt ábyrgð með því að ganga til ríkisstjórnarsamstarfs. Þannig hafa þau væntanlega viljað koma í veg fyrir stjórnarkreppu og það má öllum vera ljóst að hvorki Píratar né Samfylkingin með núverandi forystu eru stjórntækir flokkar. Í stuttu máli má segja að ríkisstjórnarsamstarfið sé afleiðing (eða niðurstaða, eftir því hvernig á það er litið) af flókinni stöðu í kjölfar kosninga. Það er sjálfsagt að virða það við fólk að ná að mynda einhvern samstarfsgrundvöll í slíkri stöðu. Það má einnig segja Bjarna til hróss að með því að gefa eftir forsætisráðuneytið hafi hann liðkað til fyrir myndun ríkisstjórnar og um leið ákveðinnar festu í íslenskum stjórnmálum. Festu sem einhverjir vona að leiði til aukins samstarfs og sé til þess fallin að róa andrúmsloftið í þjóðfélaginu.
Gott og vel, menn eiga alltaf að vera bjartsýnir og vona það besta.
En það er tvennt sem hafa þarf í huga. Í fyrsta lagi; vinstrimenn munu aldrei virða það við Bjarna Benediktsson að hafa stigið þetta skref. Stjórnarsamstarfið er á meðan það er og sjálfsagt vilja fæstir innan VG fella ríkisstjórn sem leidd er af þeirra eigin formanni. En jafnvel þó svo að samstarfið dugi heilt kjörtímabil munu skæruliðar VG reyna hvað þeir geta til að koma höggi á Bjarna og Sjálfstæðisflokkinn síðar meir. Það má ekki gleyma því að innan þingflokks VG eru pólitískir vígamenn (og konur). Þess utan má fastlega reikna með því að Píratar og Samfylkingin reyni að viðhalda pólitískum óróa, enda þrífast þeir best í slíku ástandi. Undirritaður yrði manna fegnastur að þurfa að éta þessi orð ofan í sig síðar meir.
Í öðru lagi er hætt við því að ríkisstjórnarsamstarfið muni að flestu leyti snúast um það að elta mestu vitleysuna í VG – og það án þess að hreyfa við mótmælum. Það er til lítils unnið fyrir Sjálfstæðisflokkinn að sitja í ríkisstjórn ef stjórnarsamstarfið gengur út á það að þóknast sósíalistunum í VG. Þá er alveg eins gott að leyfa öðrum að sitja í vinstristjórn og huga frekar að eigin hugmyndafræði – til að berjast af fullri hörku síðar meir. Því miður kann það að fara svo að systurnar sátt og samlyndi staldra aðeins stutt við.
***
Að þessu sögðu og af fullri jákvæðni fyrir framtíðinni óska ég lesendum Þjóðmála gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
Gísli Freyr Valdórsson, ritstjóri Þjóðmála.