Áslaug Arna: Mikilvægt að vera trúr hugsjón sinni

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (Mynd: HAG)

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, var 26 ára gömul þegar hún settist á þing. Hún var þá orðin ritari flokksins. Þó svo að hún hafi áður verið formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, og setið í miðstjórn og stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna, segir hún aðspurð að það hafi ekki verið markmið í sjálfu sér að fara svo ung út í stjórnmál. Röð atvika hafi þó orðið til þess, meðal annars fyrrnefndur landsfundur flokksins haustið 2015.

„Það er mikilvægt að ungt fólk láti til sín taka í stjórnmálum,“ segir Áslaug Arna meðal annars í ítarlegu viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála.

„Það eykur fjölbreytileika og hefur jákvæð áhrif á þingið og samfélagið í heild. En ungt fólk þarf ekki að skilgreina sig út frá því einu, ekki frekar en að konur tali eingöngu máli kvenna eða að karlar tali eingöngu máli karla. Maður er einfaldlega talsmaður sjálfstæðisstefnunnar og hún nær til allra aldurshópa, allra kynja og allra þjóðfélagshópa.“

Í framhaldi af þessari umræðu segir Áslaug Arna að það sé mikilvægt að skapa þannig umhverfi að einstaklingar sjái sér fært að bjóða sig fram til að starfa í stjórnmálum, óháð aldri og kyni.

„Stjórnmálin þurfa að vera eftirsóknarverður vettvangur til að starfa á,“ segir Áslaug Arna.

„Ég vildi óska þess að ég ætti auðveldara með að mæla með þessu starfi. Það er vissulega að mörgu leyti skemmtilegra en ég hafði gert mér vonir um, en fyrst og fremst fjölbreyttara. Vinnan á bak við frumvörp, fundir með fólki og nefndarvinnan í þinginu eru til dæmis þættir starfsins sem sjást minna út á við en eru allir mjög mikilvægir. En auðvitað er þetta vinna sem tekur mikinn tíma og fólk þarf að vera tilbúið að takast á við ýmiss konar gagnrýni, bæði málefnalega og ómálefnalega. Maður verður að vera tilbúinn að gefa sig allan í verkefnið; ástríðan og áhuginn á starfinu drífur mann áfram.“

Getur þú ekki mælt með þessu starfi?

„Jú, hiklaust, ég held þó að við þurfum alltaf að stefna að því að gera þingið meira spennandi vettvang til að þangað sækist öflugt fólk til að starfa. Fólk sem á erindi og er í stjórnmálum til að fylgja hugsjón sinni eftir mun njóta þess bæði í auðveldum og erfiðum verkefnum. Þá er stundum óhjákvæmilegt að rugga bátnum og fólk verður ósátt og gagnrýnir en þá þarf að geta tekið þeirri gagnrýni og svarað henni með málefnalegum hætti,“ segir Áslaug Arna.

„Svo er mismunandi hvernig fólk sinnir þingstarfinu og á hvað það leggur áherslu. Ég held að það sé mikilvægt að vera trúr hugsjón sinni og það endurspeglist í bæði í málflutningi manns og störfum almennt. Stundum þarf að rugga bátnum, leggja fram mál sem ýta á ráðherra í ákveðnum málum til að halda sinni hugsjón hátt á lofti. Síðan getur fólk lagt öðruvísi áherslur í þingstörfunum. Þingmenn geta komist upp með það að lenda aldrei á milli tannanna á fólki en þá má spyrja um leið hvort þeir séu að hafa áhrif og þá hversu mikil. Stundum þarf að kasta boltanum lengra en svo að hann lendi bara á miðjunni.“

Sem fyrr segir er Áslaug Arna í ítarlegu viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála. Þar fer hún yfir stöðu Sjálfstæðisflokksins á 90 ára afmæli flokksins, mikilvægi þess að hann svari kalli um nýja tíma og nýjar áherslur og störf sín sem þingmaður. Þá fjallar Áslaug Arna um þær áherslur sem hún hefur lagt á menntamálin og þörfina á því að menntakerfið taki framförum.

Viðtalið birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.