Ég hafði beðið með nokkurri eftirvæntingu eftir kvikmyndinni Sjö dagar í Entebbe (e. 7 Days in Entebbe), sem frumsýnd var hér á landi í maí. Myndin segir frá einni merkilegustu björgunaraðgerð sögunnar, þegar sérsveitir ísraelska hersins björguðu 102 gíslum (flestir ísraelskir ríkisborgarar) úr höndum hryðjuverkamanna sem höfðu haldið þeim í gíslingu í Entebbe í Úganda í viku.
Áður en vikið er að myndinni er rétt að rifja upp þennan merkilega atburð í nokkrum orðum, enda verður það ekki gert nógu oft.
Þann 27. júní 1976 rændu meðlimir PFLP samtakanna (sem voru ein af mörgum herskáum frelsishreyfingum Palestínu) ásamt tveimur meðlimum þýsku hryðjuverkasamtakanna Byltingarsellurnar, flugvél Air France sem lagt hafði af stað frá Tel Aviv í Ísrael til Parísar, með millilendingu í Aþenu í Grikklandi. Þennan sama dag voru flugvallarstarfsmenn í Aþenu í verkfalli og vopnaleit var því ábótavant, sem gaf flugræningjunum færi á að smygla vopnum um borð.
Eftir að hafa rænt vélinni, með 260 manns um borð, var henni beint til Líbíu, þar sem tekið var eldsneyti og í framhaldinu flogið til Entebbe í Úganda. Þar hittu flugræningjarnir fyrir fjóra meðlimi PLFP til viðbótar ásamt hinum sturlaða einræðisherra Úganda, Idi Amin. Hann veitti hryðjuverkamönnunum skjól í eldri flugstöð (sem þá var ónotuð) við alþjóðaflugvöllinn í Entebbe. Amin hafði fyrr á ferli sínum verið stuðningsmaður Ísraels en eftir að Ísraelsmenn neituðu að selja honum herflugvélar árið 1972 tók hann upp málstað Palestínumanna. Flugræningjarnir kröfðust þess m.a. að 40 hryðjuverkamenn yrðu látnir lausir úr ísraelskum fangelsum og 13 fangar úr fangelsum í öðrum ríkjum auk þess sem þeir fengju fimm milljóna dala í lausnarfé, ella yrðu gíslarnir teknir af lífi.
Það vakti óhug þegar hryðjuverkamennirnir hófu að aðskilja gyðinga og ísraelska ríkisborgara frá öðrum gíslum. Meðal gíslanna var m.a. eldri kona sem hafði sloppið lifandi úr fangabúðum nasista rúmum 30 árum áður.
Ómöguleikinn
Yitzhak Rabin, þáverandi forsætisráðherra Ísraels, og Shimon Peres, þáverandi varnarmálaráðherra, stóðu frammi fyrir erfiðri ákvörðun. Þrátt fyrir að byrjað væri á laun að undirbúa hernaðaraðgerð til að frelsa gíslana voru skiptar skoðanir meðal herforingja ísraelska hersins um slíka aðgerð og hvort hún væri yfir höfuð möguleg. Þetta var verkefni sem krafðist a.m.k. 200 hermanna og fjögurra flugvéla en umfram allt mikillar kænsku. Ekkert mátti fara úrskeiðis. Tveimur árum áður höfðu hryðjuverkamenn ráðist inn í barnaskóla Ma‘alot í norðurhluta Ísrael og haldið þar 115 manns í gíslingu. Eftir tveggja daga umsátur réðust sérsveitir hersins til atlögu inn í skólann. Um leið hófu hryðjuverkamennirnir að tæma hríðskotabyssur sínar á gíslana og drápu 25 manns, þar af 22 börn og unglinga, áður en þeir voru felldir. Ekkert útilokaði það að hryðjuverkamennirnir í Entebbe myndu gera slíkt hið sama ef þeir yrðu þess varir að Ísraelsmenn væru á leiðinni.
Allt leit út fyrir að Ísraelsmenn yrðu að reyna að semja um lausn gíslanna, sem var alls ekki að þeirra skapi og algjört rof á þeirri dýrmætu grundvallarreglu að semja ekki við hryðjuverkamenn. Ísraelsmenn áttuðu sig fljótt á því að þeir væri einir á báti. Ekkert heyrðist frá Sameinuðu þjóðunum (SÞ), Bandaríkjamenn höfðu sig ekkert í frammi og frönsk yfirvöld aðhöfðust ekkert eftir að búið var að skipta gíslunum upp í fyrrnefnda hópa. Enginn taldi líklegt að flugræningjarnir myndu skaða þá gísla sem ekki voru frá Ísrael.
Og það var rétt mat því að þremur dögum eftir flugránið, 30. júní, var 48 gíslum sleppt, sem flestir voru eldri borgarar, sjúklingar, konur og börn – allir úr hópi þeirra sem ekki voru gyðingar eða ísraelskir ríkisborgarar. Daginn eftir, 1. júlí, tilkynntu Ísraelsmenn að þeir myndu hefja samningaviðræður og í framhaldinu var um 100 gíslum sleppt til viðbótar. Aðeins ísraelskir ríkisborgarar, þ.á.m. börn, urðu eftir ásamt áhöfn Air France-vélarinnar, sem neitaði að yfirgefa hópinn. Með því að samþykkja samningaviðræður náðu Ísraelsmenn að tefja málið og framlengja frest sinn um 36 klukkustundir, til hádegis 4. júlí.
Björgunaraðgerð undirbúin
Ísraelskir verktakar höfðu reist flugstöðina sem gíslunum var haldið í og áttu því nákvæmar teikningar að byggingunni (þetta kemur ekki fram í myndinni). Eftir að hafa reist grófa eftirlíkingu af framhlið flugstöðvarinnar á innan við sólarhring hófu sérsveitir ísraelska hersins æfingar fyrir þetta verkefni, sem öllum var ljóst að yrði mjög erfitt og næstum því ómögulegt.
Sumir yfirmanna ísraelska hersins höfðu nokkrum árum áður þjálfað hermenn í Úganda og þekktu því bæði styrkleika og veikleika þeirra. Vitað var að Ísraelsmenn þyrftu einnig að berjast við þá ef til kastanna kæmi enda gættu þeir flugstöðvarinnar.
Leyniþjónusta Ísraels, Mossad, tók skýrslu af þeim gíslum hafði verið sleppt og flogið til Frakklands og fékk þannig upplýsingar um fjölda hryðjuverkamanna á svæðinu, hvernig þeir höguðu sér, hvar þeir sváfu, hvernig vaktaskipti fóru fram, hvers konar vopn þeir báru o.s.frv. Allar upplýsingar nýttust vel.
Tveimur dögum fyrir aðgerðina hafði lítil flugvél með tvo menn innanborðs á leið frá Rúanda til Kenía tilkynnt um gangtruflanir og hafið undirbúning að nauðlendingu í Entebbe, með leyfi flugumferðarstjórnar að sjálfsögðu. Flugmenn vélarinnar tilkynntu þó stuttu síðar að tekist hefði að laga vélina og gátu haldið leið sinni áfram. Það amaði þó ekkert að vélinni heldur var henni flogið af starfsmönnum Mossad sem nýttu þetta færi til að taka myndir úr lofti af gömlu flugstöðinni sem gíslunum varið haldið í. Myndirnar nýttust vel við undirbúning aðgerðarinnar.
Þrjú stig aðgerðarinnar
Ísraelski herinn skipti aðgerðinni upp í þrjú stig, 1) ferðalagið, 2) aðkomuna að flugstöðinni og 3) árásina á flugstöðina. Til viðbótar þurfti einnig að plana heimferðina.
Fjórar Hercules C-130 vélar lögðu af stað síðdegis 3. júlí frá Ísrael. Ríkisstjórnin hafði ekki enn samþykkt aðgerðina, en ef hún ætti að eiga sér stað á þeim tíma sem áætlað hafði verið, um miðnætti sama dag, þyrftu sveitirnar að vera komnar áleiðis.
Um klukkustund eftir að vélarnar fóru í loftið samþykkti ríkisstjórnin aðgerðina, sem hafði fengið nafnið Thunderbolt, eða Þrumufleygur.
Flogið var í um 100 m hæð yfir Rauða hafið til að forðast radara frá þjóðum sem þá voru óvinveittar Ísrael; Sádi-Arabíu, Egyptalandi og Súdan. Aftur á móti höfðu Ísraelsmenn fengið leyfi til að fljúga yfir Kenía. Með því að fljúga svo lágt tókst þeim einnig að fljúga alla leið til Entebbe án þess að flugumferðarstjórn í Úganda yrði vör við vélarnar.
Óvíst var hvort kveikt yrði á lendingarljósum flugvallarins við áætlaða komu Ísraelsmanna. Síðasta lending í áætlunarflugi var áætluð kl. 22.45. Flugmenn Ísraelshers gerðu allt eins ráð fyrir því að þurfa að lenda í myrkri. Svo vildi til að ljósin voru enn kveikt þegar fyrsta vélin lenti, um kl. 23 um kvöldið.
Þá beið þeirra það verkefni að komast óséðir að gömlu flugstöðinni. Fyrsta vélin flutti um 40 sérsveitarmenn sem ætlað var að ráðast á flugstöðina og frelsa gíslana. Í hinum vélunum voru frekari liðsaukar. Eftir að fyrsta vélin lenti keyrðu sérsveitarmennirnir áleiðis að gömlu flugstöðinni. Vitað var að Idi Amin og æðstu hershöfðingjar hans ferðuðust um á svörtum Mercedes Benz-bifreiðum í fylgd tveggja Land Rover-jeppa. Ísraelsmenn höfðu orðið sér úti um slíkar bifreiðar og keyrðu beint að flugstöðinni, sem var í tæpri kílómetra fjarlægð frá flugbrautinni sjálfri, í þeirri von að hermennirnir sem gættu flugstöðvarinnar myndu halda að Amin sjálfur eða einhver háttsettur hershöfðingi væri þar á ferð.
Og þá var komið að árásinni sjálfri. Það var algjört lykilatriði að komast óséðir að flugstöðinni og ná að koma bæði hryðjuverkamönnunum og úgönsku hermönnunum á óvart. Það tókst að mestu, því að Ísraelsmenn áttu um 100 metra eftir að flugstöðinni þegar einn þeirra neyddist til að skjóta úr byssu sinni á hermann frá Úganda. Skothvellirnir heyrðust vel og ljóst varð að bregðast þurfti hratt við. Sérsveitarmennirnir hlupu út úr bílum sínum og hófu árás á flugstöðina. Án þess að rekja árásina í smáatriðum er vert að taka fram að það tók aðeins nokkrar mínútur að fella þá hryðjuverkamenn sem gættu gíslanna. Nokkrum mínútum síðar barst liðsauki úr hinum vélunum sem höfðu þá lent og fljótlega tókst Ísraelsmönnum að ná tökum á svæðinu að mestu. Aðeins einn ísraelskur hermaður féll í árásinni, liðsforinginn Yonatan Netanyahu (sem var eldri bróðir Benjamin Netanyahu, núverandi forsætisráðherra).
Rúmum 50 mínútum eftir að fyrsta vélin lenti var haldið heim á leið, þó ekki fyrr en Ísraelsmenn höfðu eyðilagt á annan tug orrustuflugvéla Úganda til að tryggja að þær kæmu ekki á eftir þeim. Flogið var til Kenía til að taka eldsneyti og þaðan áleiðis til Ísrael. Þessi hetjulega björgunaraðgerð hafði tekist að mestu.
Þrír gíslar féllu í skotbardaganum og ein eldri kona hafði áður verið færð á sjúkrahús í Entebbe og var ekki viðstödd þegar frelsun gíslanna átti sér stað. Hún var myrt daginn eftir af hermönnum Idi Amin.
Eftirmál
Eins og gefur að skilja braust út mikill fögnuður í Ísrael þegar fluttar voru fréttir af björguninni snemma morguns. Flugvélarnar voru enn í loftinu þegar fréttirnar bárust og þeim var fagnað gífurlega við heimkomu. Idi Amin brást hinn versti við og lét drepa tugi Keníumanna sem bjuggu í Úganda, til að hefna sín á stjórnvöldum í Kenía fyrir að veita Ísraelsmönnum aðstoð.
Nú fyrst heyrðist í alþjóðasamfélaginu. Afríkusambandið kvartaði undan árásinni til SÞ og þáverandi aðalritari SÞ, Austurríkismaðurinn Kurt Waldheim, sagði aðgerðina vera alvarlegt brot á fullveldi Úganda. Margar friðarhreyfingar víðs vegar á Vesturlöndum, sem ekkert höfðu tjáð sig um flugránið eða gíslatökuna, fordæmdu aðgerðina harkalega.
Ráðamenn á Vesturvöldum voru þó á öðru máli. Frönsk stjórnvöld hrósuðu Ísraelsmönnum (enda voru áhafnarmeðlimir Air France-vélarinnar meðal þeirra sem frelsaðir voru) og stjórnvöld í Sviss, Bretlandi, Bandaríkjunum og V-Þýskalandi gerðu slíkt hið sama.
Skilningur á vondum málstað?
Kvikmyndin 7 Days in Entebbe segir meginþorrann af sögunni ágætlega. Hún einblínir þó nokkuð meira á þátt flugræningjanna heldur en hér hefur verið gert. Undirbúningur hernaðaraðgerðarinnar er rakinn sæmilega en aðgerðin sjálf heldur minna.
Helsti gallinn á myndinni er sá að maður fær það á tilfinninguna að áhorfendum sé ætlað að sýna málstað flugræningjanna skilning, þá sérstaklega Þjóðverjunum Brigitte Kuhlmann og Wilfried Böse. Bæði voru þau meðal þeirra sem stofnuðu Byltingarsellurnar, sem voru samtök vinstrisinnaðra skæruliða og báru ábyrgð á a.m.k. 180 hryðjuverkaárásum.
Kvikmyndin gerir lítið fyrir minningu Kuhlmann og Böse, þó að henni sé mögulega ætlað að varpa heilbrigðu ljósi á (vondan) málstað þeirra. Þau koma í raun út sem kjánar sem virðast hafa fengist of mikið í fang og ráðist í verkefni sem þau réðu ekki við – og varð þeim að falli.
Það er þó rétt að taka fram að hegðun þeirra á staðnum var lýst með mismunandi hætti meðal gíslanna sem þau héldu. Þeir lýstu því síðar hvernig Kuhlmann var mun harðari í afstöðu sinni og köld í viðmóti gagnvart gíslunum. Hún stóð m.a. fyrir því að skipta upp hópnum með þeim hætti sem áður var lýst og kom almennt illa fram við gíslana.
Böse var lýst sem aðeins mildari karakter. Þegar Ísraelsmenn réðust til atlögu mundaði hann byssu sína og gerði sig tilbúin til að skjóta á gíslana, eftir skipun frá Kuhlmann. Hann skaut þó engan og sagði gíslunum þess í stað að leggjast niður og leita skjóls.
Myndin gerir þó ágreining og núningi á milli þeirra Yitzhak Rabin og Simon Peres góð skil. Hún gerir þó of mikið úr vilja Rabin til að semja við hryðjuverkamenn. Hann sóttist ekki sérstaklega eftir því að semja en vissulega reyndist þetta mál honum erfitt, enda um 100 mannslíf undir auk þess sem mikill órói ríkti meðal almennings vegna málsins. Simon Peres fór meðal annars yfir þetta í bók sinni Entebbe Diary sem kom út árið 1991 auk þess sem hann lýsti sambandi sínu við Rabin í öðrum bókum sínum. Rabin tók að vísu þátt í friðarviðræðum við Palestínumenn á árunum 1993-4, sem lauk með hinu svokallaða Óslóarsamkomulagi, og hlaut að lokum friðarverðlaun Nóbels fyrir, ásamt Simon Peres og Yasser Arafat, leiðtoga PLOsamtakanna. Rabin var ári síðar myrtur af öfgamanni í Ísrael.
Í stuttu máli er myndin ágætis afþreying og lýsir því helsta sem átti sér stað varðandi þessa merkilegu aðgerð ísraelskra hersins, en gengur of langt í því að reyna að vekja samúð með málstaði þeirra illu afla sem stóðu að flugráninu og gíslatökunni. Fyrir þann sem hefur áhuga á að kynna sér málið nánar má finna ágætar heimildarmyndir um aðgerðina á YouTube.
Höfundur er ritstjóri Þjóðmála.
– Kvikmyndarýnin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2018.