Magnús Carlsen varði heimsmeistaratitilinn – Verður einvígið haldið í Reykjavík 2022?

Norðmaðurinn Magnús Carlsen kátur í mótslok.

Heimsmeistaraeinvígið í skák var haldið í London dagana 9.-28. nóvember. Um titilinn börðust tveir stigahæstu skákmenn heims; Norðmaðurinn Magnús Carlsen og ítalskættaði Bandaríkjamaðurinn Fabiano Caruana.

Margt óvenjulegt

Einvígið var fyrir marga hluti sérstakt. Leita þarf aftur til ársins 1990 til einvígis þar sem tveir stigahæstu skákmenn heims mætist, en þá tefldu Kasparov og Karpov fimmta einvígi sitt um titilinn. Enn fremur var þetta í fyrsta skipti síðan í Reykjavík 1972 sem Bandaríkjamaður tefldi um æðstu metorð í skákheiminum. Og þetta var í fyrsta skipti í sögunni sem öllum skákum heimsmeistaraeinvígis lauk með jafntefli. Einvígið var alls 12 skákir en hér áður fyrr, t.d. í Reykjavík 1972, voru tefldar 24 skákir. Margir gagnrýna hversu stutt einvígin eru í dag, en það verður óneitanlega til þess að keppendur taka minni áhættu.

Vel teflt einvígi

Einvígið var afar vel teflt, sennilega best teflda heimsmeistaraeinvígi sögunnar en þó ekki besta einvígi sögunnar. Báðir tefldu varfærnislega og tóku litla áhættu. Magnús var nærri sigri í fyrstu skákinni. Caruana átti vinningsleið í sjöttu skákinni sem var varla fyrir mannlegan mátt að finna þótt tölvurnar hafi fundið einstigi til sigurs.

Caruana kom almennt betur undirbúinn til leiks og fékk heimsmeistarinn aldrei neitt út úr byrjuninni þegar hann hafði hvítt. Skákirnar þegar Magnús hafði svart voru skemmtilegri. Lokaskákin var t.d. æsispennandi en svo bauð Carlsen allt í einu jafntefli, mörgum til mikillar undrunar, með betri stöðu og meiri tíma. Norðmaðurinn virtist ekki vilja taka neina áhættu og virtist telja sig vera í góðum málum ef það yrði jafnt. Þá er nefnilega teflt til þrautar með styttri umhugsunartíma.

Heimsmeistarinn var mikið gagnrýndur fyrir ákvörðunina. Meðal annars lét Garrí Kasparov hann heyra það og lýsti því yfir að hann teldi hann ekki lengur sigurstranglegri því hann virtist vera að fara á taugum. Carlsen svaraði því heldur betur við skákborðið því hann einfaldlega rúllaði yfir Bandaríkjamanninn í bráðabananum, þar sem tefld var atskák, 3-0. Spurður um ummæli Kasaparov sagði hann heimsmeistarann fyrrverandi hafa rétt á því að hafa heimskulegar skoðanir. Það virðist enginn standast Norðmanninum snúning þegar umhugsunartíminn styttist.

Eftir á lýsti Magnús því yfir að hann hefði ekki teflt aftur heimsmeistaraeinvígi hefði hann tapað, sem skýrir kannski eitthvað varfærni hans við skákborðið.

Breytt fyrirkomulag?

Eftir einvígið hefur mikið verið í umræðunni að breyta þurfi fyrirkomulaginu. Sá sem þetta ritar er ekki sannfærður. Einvígið vakti mikla athygli í heimspressunni og komst t.d. á forsíðu Financial Times. Stærstu sjónvarpsstöðvar Bandaríkjanna fylgdu sínum manni yfir Atlantshafið. Norska ríkissjónvarpið, NRK, var allan tímann á staðnum og tók meðal annars viðtal við Þröst Þórhallsson, sem var fyrsti stórmeistarinn sem Magnús náði jafntefli gegn, en þá var Magnús aðeins 10 ára.

Fjallað var um einvígið á forsíðu Financial Times.

Það er ekki nýtt að mörg jafntefli verði í heimsmeistaraeinvígi þegar tveir sterkir skákmenn tefla. Kasparov og Karpov gerðu eitt sinn 17 jafntefli í röð. Jafntefli eru líkleg úrslit þegar tveir afar sterkir skákmenn mætast.

Aðrir eru ósáttir við að úrslitin ráðist í skákum með styttri tímamörkum. Áður var það þannig að heimsmeistarinn hélt jafntefli á jöfnu og hafa sumir viljað taka það upp. Benda þeir að þá sé meiri pressa á áskorandann, sem þurfi að vinna skák. Taki hann hins vegar áhættu og tapi þarf hann að vinna tvær skákir, sem getur verið nánast ógerlegt. Umræðan verður örugglega mikil á komandi mánuðum. Næsta heimsmeistaraeinvígi fer fram árið 2020.

Þröstur í viðtali á NRK.

Aðstæður í Lundúnum

Greinarhöfundur fór í fyrsta skipti á heimsmeistaraeinvígi. Teflt var í miðborg Lundúna, á Holborn-svæðinu. Keppendur tefldu bak við hljóðeinangrað glervegg. Áhorfendur gátu þaðan horft á þá og haft aðgang að símum. Judit Polgar var með skákskýringar á skákstað og gerði það vel. Þeim var sjónvarpað um netið.

Rýmið var hins vegar þröngt og lentu áhorfendur í því að fá t.d. aðeins klukkutíma inni í skáksal. Alþjóða skáksambandið hefur búið við krísuástand undanfarin ár, sem hefur meðal annars orðið til þess að dagsetningar hafa legið seint fyrir á stórum skákviðburðum. Bundnar eru vonir við að nýr forseti þess, Arkady Dvorkovitsj, muni takast að breyta stöðu skákhreyfingarinnar.

HM í Reykjavík árið 2022?

Einvígi aldarinnar fór fram í Reykjavík árið 1972. Árið 2022 verður því hálf öld síðan það var haldið í Laugardalshöll, en það var ein mesta landkynning sem landið hefur fengið fyrr eða síðar. Minnast þarf þeirra tímamóta, og hvernig væri það betur gert en einmitt með nýju heimsmeistaraeinvígi hérlendis?

Ísland getur sennilega boðið upp á einn glæsilegasta vettvang í heimi, Hörpu. Þar er allt til staðar. Landkynningin yrði gríðarleg. Til London kom fjöldi gesta víðs vegar frá í heiminum. Blaðamennirnir voru í hundraðavís. Ekki yrði það minna ef einvígið yrði haldið hér.

Áhuginn á Íslandi og einvíginu er gríðarlegur. Hægt væri að minnast einvígisins með opnun sýningar um einvígi aldarinnar, fara með gesti að leiði Fischers og sýna einvígisborðið sem nú er geymt í Þjóðminjasafninu. Rétt væri að hafa einhverja viðburði í Laugardalshöllinni, t.d. upphafsblaðamannafundinn.

Það yrði svo algjör happdrættisvinningur ef Bandaríkjamaður tefldi hérlendis. Gæti það gerst að Bandaríkjamaður endurtæki afrek Fischers 50 árum síðar – einnig í Reykjavík?

Greinarhöfundur ræðir við Dvorkovich í London.

Sá sem þetta ritar ræddi málið á meðan á heimsmeistaraeinvíginu í Lundúnum stóð við Arkady Dvorkovitsj, nýkjörinn forseta FIDE, sem leist vel á hugmyndina. Hann hefur þegar staðfest komu á GAMMA Reykjavíkurskákmótið í apríl næstkomandi og er reiðubúinn að hitta íslenska ráðamenn.

Að halda heimsmeistaraeinvígi er ekki ókeypis. Aðeins verðlaunafé, skattar og þóknun til FIDE er um tvær milljónir evra. Það er ljóst að slíkt einvígi yrði ekki haldið hérlendis án veglegs stuðnings ríkis, borgar og einkaaðila, þá bæði innlendra og erlendra.

Að mati undirritaðs á hér að tefla til sigurs! Þetta yrði stærsti viðburður sem Ísland hefur staðið fyrir um áratugaskeið.

Höfundur er forseti Skáksambands Íslands.

Greinin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 4. tbl. 2018. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.