Stjórnmálamenn þurfa iðulega að meta hvaða slagi þeir ætla sér að taka og í hvaða tilvikum þeir ætla að láta kyrrt liggja. Sumum er nokkurn veginn sama en aðrir taka meðvitaða ákvörðun um að sleppa því að taka ákveðna slagi eða stíga inn á baráttu fyrir ákveðnum málum. Sumir eru latir og aðrir hræddir en verst er þegar menn hafa ekki hugsjónir til að berjast fyrir. Þá eiga menn auðvitað ekkert erindi í stjórnmál.
Til að gæta sanngirni er þó rétt að taka fram að auðvitað getur það verið merki um kænsku að hlaupa ekki inn í öll mál eða blanda sér inn í alla bardaga. Stjórnmálamenn þurfa að nýta tíma sinn og orku vel og þá þarf vissulega að forgangsraða verkefnum.
Það er algengur misskilningur að það að verða ráðherra sé hápunktur á ferli stjórnmálamanna. Það er vissulega svo að ráðherraembætti er oftast falið þeim sem telja má treystandi að fari vel með það hlutverk. Viðkomandi hefur þá um leið tækifæri til að hafa mikil áhrif á samfélagið og þá sérstaklega ef hann eða hún ætlar sér að koma einhverjum pólitískum málum í gegn.
Svo kann það aftur á móti að gerast að í ráðherraveitingu felist bjarnargreiði, þ.e. að hinn kjörni fulltrúi týnist í aðkallandi verkefnum, sinni embættisverkum fyrst og fremst og leggi pólitíkina til hliðar.
Þá er betur heima setið en af stað farið.
***
Tilefnið að þessum vangaveltum er m.a. sú umræða sem á sér stað um ekki merkilegra mál en hinn svokallaða þriðja orkupakka. Þriðji orkupakkinn er ekki stórpólitískt mál þannig. Það er engin sérstök hugmyndafræði á bak við málið og hér er um einfalda tilskipun að ræða, sem fylgir því að taka þátt í því alþjóðasamstarfi sem við gengumst undir með aðild að EES-samkomulaginu. Í stuttu máli má segja að hér sé um einfalt embættismannafrumvarp að ræða (og það er ekki sagt embættismönnum til hróss).
Aftur á móti er sú mikla, eða öllu heldur háværa, andstaða sem hefur skapast um málið að mestu tilefnislaus. Sumir segja orkupakkann fela Evrópusambandinu (ESB) völd yfir íslenskri orku (sem er rangt), að ESB geti neytt okkur til að leggja sæstreng (sem er líka rangt) og að orkuverð muni hækka við innleiðingu tilskipunarinnar (einnig rangt). Sumir hafa sagt málið vera mikilvægara en Icesavedeilan, sem er þvæla. Þá er vert að nefna að við höfum, í gegnum EES-samstarfið, innleitt aðrar tilskipanir sem ganga miklu lengra en þessi, t.d. í fjármálakerfinu. Það eru mikilvægari mál til að beita sér gegn en þetta.
***
Í framhjáhlaupi má nefna að andstaða við orkusölu í gegnum sæstreng er undarleg. Við seljum nú þegar sjávarafurðir erlendis ásamt annarri tækni, þekkingu og þjónustu – svona fyrir utan það að við seljum aðgang að landinu okkar í gegnum ferðaþjónustu. Ef það er möguleiki á því að selja umhverfisvæna orku, og búa þannig til auknar útflutningstekjur fyrir þjóðarbúið, er erfitt að finna góð rök gegn því. En það er umræða sem bíður betri tíma og vissulega þarf að tryggja næga orku hér á landi til að ýta undir atvinnuuppbyggingu og íbúaþróun úti um allt land.
***
Málefni þriðja orkupakkans hvílir á herðum tveggja ráðherra; Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, sem er ráðherra orku- og iðnaðarmála ásamt fleiru. Hvorug eru þau höll undir inngöngu Íslands í ESB – þvert á móti – og þeim er báðum vel treystandi fyrir því að standa vörð um íslenska hagsmuni í því alþjóðastarfi sem við tökum þátt í. Öll vinna þeirra í kringum þetta mál ber merki um fagmennsku og leið nærgætni og virðingu fyrir því að málið kunni að vera umdeilt. Þegar þessu máli er lokið er óskandi að þau snúi sér að öðrum og mikilvægari málum – en umfram allt pólitískum málum.
***
En hvað um það. Þau ákváðu bæði að taka faglega á málinu og afgreiða það með slíkum hætti. Það er þó ekki alltaf kostur, sama hvaða ráðherra á í hlut. Það vill oft gerast að stjórnmálamenn fari í einu og öllu eftir tilmælum embættismanna. Þeir þurfa að vinna með þeim á hverjum degi og það er að hluta til bara mannlegt að vilja skapa frið um störf sín og sjálfa/n sig um leið. Þá gerist það að stjórnsýslan tekur völdin og aðeins koma fram frumvörp sem njóta velvildar embættismanna.
Að því sögðu er rétt að setja þetta í samhengi við stöðu Sjálfstæðisflokksins. Í þessu riti Þjóðmála er nokkuð fjallað um stöðu Sjálfstæðisflokksins í tilefni af 90 ára afmæli flokksins; ritari flokksins er í ítarlegu viðtali og nokkrir einstaklingar sem gegnt hafa trúnaðarstörfum fyrir flokkinn skrifa um mögulega framtíð hans. Sjálfstæðisflokkurinn á sér glæsta sögu, nær öll alvöru framþróun síðustu aldar átti sér stað undir stjórn hans og var leidd af honum, s.s. velferðarkerfi, uppbygging innviða, mannréttindamál og þannig mætti áfram telja. Saga flokksins er um leið saga mikilla leiðtoga landi og þjóð til heilla.
En Sjálfstæðisflokkurinn á sér ekki glæsta sögu af því að ráðherrar hans voru svo faglegir, heldur af því að innan hans fengu pólitískar hugmyndir að þróast og verða að veruleika. Nærtækast er tímabilið eftir 1991 þegar þjóðfélaginu var gjörbreytt til hins betra undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Andstæðingar flokksins eru enn – og munu lengi áfram – að reyna að mála upp aðra mynd. Þeir búa í samfélaginu sem hefur það svo gott að þeir hafa líka til þess frelsi og svigrúm.
***
Ein helsta afsökun þingmanna og ráðherra Sjálfstæðisflokksins fyrir því að berjast ekki fyrir ákveðnum málefnum er að flokkurinn er ekki einn í stjórnarsamstarfi. Stundum fær hinn almenni sjálfstæðismaður þá tilfinningu að flokkurinn sé svo upptekinn við að sitja í ríkisstjórn (stjórna landinu) og þurfi að sýna samstarfsmönnum sínum í ríkisstjórn svo mikla tillitssemi að best sé að láta öll pólitísk mál bíða seinni tíma. Það ríkir þó ekki sama viðhorf meðal hinna samstarfsflokkanna í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi og þá síst meðal Vinstri grænna.
Gott dæmi er framganga Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og barátta hennar fyrir ríkisvæðingu alls heilbrigðiskerfisins. Hún veit vel hver opinber stefna Sjálfstæðisflokksins er í málinu en það virðist skipta litlu máli. Og af hverju ætti það að skipta máli? Það er ekki eins og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi beitt sér með markvissum hætti gegn stefnu hennar – væntanlega af því að menn vilja vera svo faglegir í því að stjórna landinu og það telst ókurteisi að tala gegn ráðherra í samstarfsstjórn.
***
Þegar stjórnmálaumhverfið breytist svo ört sem raun er, eins og það hefur gert síðastliðinn áratug, er eðlilegt að velta því fyrir sér hvort stjórnmálaflokkar séu að leiða eða elta einhverja þróun. Enginn stjórnmálaflokkur eða stjórnmálamaður er það klár að hann geti vitað fyrir fram hvernig allir hlutir þróast en þetta snýr frekar að því að vera á tánum og móta þau skilaboð sem fela það í sér að afla ákveðnum hugmyndum fylgi. En þá þurfa hugmyndir að fá að blómstra og þar þurfa þingmenn og aðrir kjörnir fulltrúar að sýna fordæmi.
***
Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki farið inn í næstu kosningar eingöngu með þau skilaboð að flokkurinn sé vandvirkur og faglegur í samstarfi við aðra flokka og embættismenn.
Ef kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins trúa því að lægri skattar á einstaklinga og fyrirtæki bæti hag þeirra þarf hann að boða róttækar hugmyndir um lága skatta. Lækkun um brot af prósentustigum á einstaka liðum er ekki róttæk hugmynd. Ef kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins trúa því að aukinn einkarekstur í heilbrigðismálum bæti hag sjúklinga og þeirra sem þurfa á kerfinu að halda þurfa þeir að sýna fram á að þeir ætli sér að umbylta kerfinu í þá veru. Ef kjörnir fulltrúar flokksins trúa því að aukinn einkarekstur og aukið svigrúm í menntakerfinu sé til þess fallið að efla menntun og samhliða bæta atvinnulífið þurfa þeir að stíga stór skref í þá átt. Ef kjörnir fulltrúar flokksins trúa því að aukið einkaframtak stórbæti samgöngur og lífsskilyrði um allt land þurfa þeir að sýna það í verki.
***
Það er barátta um hugmyndir og sú barátta fer fram á hverjum degi. Hún þarf líka að fara fram á skrifborðum ráðherra.
—
Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.