Lýðræðisleg stjórnskipun setur embættisvaldinu skorður

Fari svo að yfirréttur Mannréttindadómstóls Evrópu staðfesti niðurstöðu undirréttar í Landsréttarmálinu svokallaða, má segja að runnið sé upp skeið nýrrar tegundar stjórnarfars, þar sem stjórn yfirþjóðlegra stofnana hefur leyst grundvallarstofnanir íslenska lýðveldisins af hólmi. (Mynd: VB/BIG)

Lýðræðið byggir á skýrri hugmynd sem allir geta skilið. Samkvæmt henni er valdið í höndum kjósenda. Grunnhugmyndin er því sú að borgararnir sjálfir taki þátt í stjórn landsins og stýri því annað hvort sjálfir (með beinu lýðræði) eða með því að kjósa fulltrúa sem fara tímabundið með þetta vald (fulltrúalýðræði). Lýðræði merkir þannig í reynd „stjórn fólksins“, svo sem blasir við í hinni alþjóðlegu mynd orðsins, sem er af grískum stofni, þar sem demos vísar til fólksins en kratos til valds eða stjórnar. Í þessu felst líka mjög mikilvægur öryggisþáttur, þ.e. að almenningur geti, á friðsamlegan hátt, skipt um valdhafa með því að endurúthluta valdinu í lok hvers kjörtímabils. Annar hornsteinn íslenskrar stjórnskipunar og augljóslega nátengdur lýðræðinu er fullveldi þjóðarinnar og réttur hennar til sjálfsákvörðunar.

Þjóðin (demos) er samkvæmt þessu eining, sem hefur sameiginlega hagsmuni og sameiginlega framtíð, en ekki bara samansafn af einangruðum einstaklingum, hagsmunahópum, sértrúarsöfnuðum o.s.frv. Lýðræði og fullveldi þjóðar miða að því að gefa þjóðinni kleift að finna leiðir til að búa saman, verja rétt sinn og starfrækja stjórnkerfi sem þjónar hagsmunum kjósenda. Eða dreymir annars nokkurn mann um fyrirkomulag þar sem eina hlutverk kjósenda er að þjóna stjórnkerfinu?

Tjáningarfrelsi er forsenda lýðræðis

Lýðræðislegar kosningar eru samkvæmt þessu leið kjósenda til að lýsa afstöðu sinni til þess hvernig haldið skuli um stjórnartaumana. Þetta geta menn ekki gert án þess að nota vitsmuni sína. Í því samhengi þjóna hugsunarfrelsi og tjáningarfrelsi algjöru lykilhlutverki. Ef menn geta fallist á að lýðræðið byggi á því að frambjóðendur setji fram hugmyndir sínar og höfði til hyggjuvits kjósenda (fremur en tilfinninga) blasir jafnframt við að lýðræðið er háð því að menntun, kennsla og fræðistörf þjóni öllum almenningi, enda er það forsenda þess að lýðræðið virki sem skyldi, sem brjóstvörn gagnvart fávísi, ofstæki, ofbeldi, kúgun og harðstjórn. Ef okkur á að takast að beina stjórn landsins í góðan farveg þurfum við að geta tjáð okkur, hlustað, skilið og dregið sjálfstæðar ályktanir. Þær ályktanir verða að byggjast á traustum grunni, þar sem kjósendur geta greint á milli sannleiks og blekkingar.

Þrígreining ríkisvaldsins byggir á lýðræðislegri undirstöðu og miðar að því að hamla gegn ofríki og misbeitingu valds. Í því felst að handhafar ríkisvalds gangi ekki, í embættisfærslu sinni, út fyrir þau mörk sem stjórnarskráin setur þeim. Hinn lýðræðislegi grunnur gerir að verkum að löggjafarþing fullvalda þjóðar gegnir algjöru lykilhlutverki í stjórnskipun okkar. Alþingi er leiðandi og stefnumarkandi stofnun. Hlutverk þingsins er að setja lög sem ráðherrar framkvæma og dómarar dæma eftir. Af þessu er augljóst að stjórnskipun okkar byggir á þeirri skýru undirstöðu að kjörnir fulltrúar almennings, sem þegið hafa umboð sitt í lýðræðislegum kosningum, stýri málum í samræmi við vilja kjósenda og svari til ábyrgðar fyrir embættisverk sín gagnvart kjósendum.

Til áminningar skal áréttað að 1. gr. stjórnarskrárinnar er afdráttarlaus um þann lýðræðislega grundvöll sem ríkisvaldið hvílir á: „Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.“ Í þessu felst að ráðherrar sem boðið hafa fram krafta sína í þágu kjósenda svara til pólitískrar og lýðræðislegrar ábyrgðar fyrir störf sín og þurfa að hverfa úr embætti missi þeir stuðning þingsins. Þannig geymir upphafsákvæði stjórnarskrárinnar skýr fyrirmæli um ábyrgð og störf ráðherra, sem sérhver íslenskur dómari þekkir vel, hafandi unnið eið að stjórnarskránni. Inntak þeirrar greinar sem hér birtist lýtur að því hvort rétt sé og viðunandi að dómarar við erlenda dómstóla og embættismenn sem starfa við yfirþjóðlegar stofnanir, sem ekki hafa unnið neinn sambærilegan eið að íslenskri stjórnarskrá, geti gripið inn í íslensk stjórnarmálefni með beinum hætti. Greinin er rituð til að hvetja lesendur til vakandi meðvitundar um stöðu lýðveldisins í framangreindu samhengi, sem og innan yfirþjóðlegs stofnanaumhverfis EES samningsins, sem nú verður nánar vikið að.

Kjörnir fulltrúar eða tæknimenn?

Iðnvædd samfélög nútímans eru tæknivæddari en samfélög fyrri tíma. Slíkt kallar á margs konar reglur um tæknilegar útfærslur og tæknilega framkvæmd. Sjálfsagt er að sérfræðingar með vit á tækniatriðum komi að samningu slíkra reglna. Þannig má t.d. eftirláta sérfræðingum að ákvarða hagkvæmustu flutningsleiðir rafmagns og straumstyrk. Öðru máli gildir hins vegar um stefnumörkun á sviði raforkumála, t.d. hvað varðar félagslega þætti, byggðasjónarmið, öryggisþætti, hagnaðarsjónarmið o.fl. Með fullri virðingu fyrir tæknimönnum, sérfræðingum og embættismönnum getur það ekki verið þeirra hlutverk að semja lög og marka samfélaginu pólitíska og siðræna stefnu. Stóru málin á nú sem fyrr að taka til almennrar umræðu og lýðræðislegrar ákvarðanatöku.

Undirritaður blandaði sér í umræðu um þriðja orkupakkann (O3) með vísan til þess að málið væri af þeirri stærðargráðu að það bæri að útkljá samkvæmt reglum íslenskrar stjórnskipunar um lýðræði, þingræði, handhöfn lagasetningarvalds og ábyrgð kjörinna fulltrúa gagnvart íslenskum kjósendum. Stjórnarskrárákvæði marka grundvöll samfélags okkar og skilgreina hvernig stjórn landsins skuli vera háttað.

Í því sambandi skal áréttað að samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar fer Alþingi með löggjafarvaldið. Slík ákvæði eru ekki gluggaskraut og standa ekki í stjórnarskrá til þess eins að veita lýðræðislega ásýnd. Ef ástæða er til að ætla að valdhafar virði í reynd ekki leikreglur lýðræðisins þá ber kjósendum öllum að hreyfa athugasemdum og mótmælum, ef ekki á illa að fara. Í því samhengi er einfaldast að beina sjónum að því hvort þeir sem í raun setja landsmönnum lög og reglur hafi lýðræðislegt umboð til þeirra starfa og svari til ábyrgðar gagnvart kjósendum.

Í aldanna rás – og enn í dag – hafa menn reynt fyrir sér með annars konar stjórnarfyrirkomulag, þar sem stjórn landsins er afhent tiltekinni ætt, stétt, klíku, fámennum hópi eða auðmönnum. Allar þessar tegundir stjórnarfars þekkjum við Íslendingar, sumar af eigin reynslu, en aðrar af vondri afspurn. Sagan sýnir að þótt slíkt stjórnarfar geti haldið velli um lengri eða skemmri tíma veitir það almenningi enga tryggingu gagnvart mismunun, misnotkun valds og afnámi réttinda.

Umræðan um O3 leiddi í ljós bága stöðu íslensks lýðræðis, sem kristallaðist í því að heyra þingmenn lýsa áhrifaleysi Alþingis gagnvart ESB sem í samhengi EES heimilar engar undanþágur. Fjölbreyttar leiðir voru farnar til að beina athygli frá lýðræðishallanum, sem í tilviki Íslands er algjör í samanburði við Bretland, þar sem meirihluti kjósenda hefur þó knúið í gegn útgöngu úr ESB. Rætt var um tæknileg atriði fremur en heildarsamhengið, settar voru fram óraunhæfar hugmyndir um að heimatilbúnir fyrirvarar eða ákvæði eldri þjóðréttarsamninga gætu komið íslenska ríkinu að haldi gagnvart grunnreglum Evrópuréttar, ráðist var að mönnum með skoðanahroka og yfirlæti að vopni, eða með sýndarrökum þess efnis að tilfinningar eigi stjórna umræðu fremur en rökhugsun, nánar tiltekið vegna þess að ábendingar um varðstöðuhlutverk Alþingis gagnvart ESB í samhengi EES væru „móðgandi“ fyrir þingmenn.

Aldarfjórðungur í farþegahlutverki

Ef umræða um móðgun ætti eitthvert erindi í þá umræðu sem fara þarf fram um stöðu lýðveldisins og íslensks lýðræðis nú á tímum væri það mögulega út frá áhrifaleysi íslenskra kjósenda. Íslendingar standa frammi fyrir þeirri staðreynd að allar reglur EES eiga uppruna sinn hjá ESB. Stofnanir ESB setja reglurnar án aðkomu Íslands eða annarra EFTA ríkja. Íslendingar áttu því enga aðild að samningu reglna O3. Þeir sem það gerðu unnu ekki í umboði íslenskra kjósenda og við þekkjum engin deili á þeim. Lýðræðisleg ábyrgð þeirra er engin og umræður þeirra um málið fóru fram bakvið luktar dyr. Að ferlinu loknu voru gerðirnar sendar fullbúnar til samþykktar í sameiginlegu EES nefndinni.

Í viðtali RÚV við sérfræðing í Evrópurétti sl. sumar kom fram að Ísland hefði aldrei í 25 ára sögu EES samningsins hafnað upptöku löggjafar. Ástæðan að mati sérfræðingsins var sú að afleiðingin væri bæði „lagaleg og pólitísk óvissa“. Í þessari stuttu grein sem hér birtist skal látið liggja milli hluta að hve miklu leyti þessi fullyrðing sérfræðingsins byggir á pólitísku mati fremur en lögfræðilegu.

Frammi fyrir þessu skal þó áréttað að EES samningurinn geymir skýr ákvæði um neitunarvald. Alþekkt er að stofnanir ESB rökstyðja forgang ESB réttar með skírskotun til þess að samninga skuli halda. Ekkert hefur komið fram um hvers vegna Íslendingar ættu ekki að njóta réttar samkvæmt þessari ævagömlu meginreglu samningaréttar. Sú staðreynd að smáþjóðin Ísland hafi aldrei þorað að láta reyna á samningsbundnar heimildir sínar til hagsmunagæslu er vart merki um „jafnræði“ svonefnds „Tveggja stoða kerfis“ EFTA og ESB í EES samningnum. Aldarfjórðungsreynsla bendir til að jafnræðið sé fremur í orði en á borði. Lögbundin stjórn og skuldbindingar ráðamanna á þeim grunni ættu að vega þyngra á metunum en pólitískt fát og ótti við hið óþekkta. Eða hvar væri mannkynið statt ef ótti við „óvissuna“ hefði ávallt ráðið för?

Lýðræðið setur dómstólunum skorður

Í stjórnskipulegu tilliti er Alþingi í yfirburðastöðu gagnvart handhöfum dóms- og framkvæmdarvalds. Stjórnskipun Íslands reisir því háar skorður gegn því að dómstólar eða embættismenn seilist inn á svið Alþingis með viðleitni í þá átt að marka stjórnarstefnu eða taka stjórn ríkisins í sínar hendur. Aukin áhersla á meginreglur réttarríkisins hefur óhjákvæmilega gert að verkum að dómstólar gegna nú stærra hlutverki við mótun réttarins en áður. Megindrættir stjórnskipunar okkar um verksvið og valdmörk handhafa ríkisvalds standa þó enn óhaggaðir og má í því samhengi árétta að öfugt við margar nágrannaþjóðir okkar hafa íslenskir kjósendur aldrei formlega samþykkt fullveldisskerðingu samhliða þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Í hinu lýðræðislega samhengi má ekki gera lítið úr þessu atriði og frammi fyrir áhrifum erlends réttar á íslenskan rétt og réttarframkvæmd getur engin bannhelgi hvílt yfir því að rætt sé með opinskáum hætti um þann þrýsting sem íslensk lagasetning og lagaframkvæmd sætir nú erlendis frá á fyrrgreindum grunni.

Dómarar njóta málfrelsis á almennum vettvangi eins og aðrir borgarar, en undirritaður sætti þó umtalsverðri gagnrýni fyrir tjáningu sína um innleiðingu þriðja orkupakka ESB í íslenskan rétt. Í því samhengi skal áréttað að tjáning undirritaðs var sett fram á almennu samhengi sem persónubundið innlegg í málefnalega umræðu um fullveldi Íslands og stjórnskipulegt hlutverk Alþingis. Þetta er nefnt hér til að undirstrika að mikilvægur greinarmunur er á frjálsri tjáningu dómara sem einstaklinga annars vegar og hins vegar því að dómarar noti dómsvald sitt í því skyni að svipta lögmæta handhafa ríkisvalds stöðu og áhrifum en setji dómstólinn í þeirra stað sem leiðandi og stefnumarkandi í pólitískum efnum. Verður nú nánar að þessu vikið út frá umhugsunarverðu verklagi undirréttar Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í máli Guðmundar Ástráðssonar gegn íslenska ríkinu, en þegar þetta er ritað hefur málið verið flutt að nýju og dómtekið hjá yfirrétti MDE.

Af nálægðarreglu íslensks (og evrópsks) réttar leiðir að jafnvel þótt yfirréttur MDE telji sýnt að dómsmálaráðherra hafi brotið lög í aðdraganda umræddrar skipunar jafngildir það ekki sjálfkrafa því að embættisskipunin sem slík hafi verið ógild, enda hefur það löngum verið viðurkennd meginregla íslensks réttar að ólögmæti leiði ekki sjálfkrafa til ógildis, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 24. maí 2018 í máli nr. 10/2018, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að annmarkar á málsmeðferð dómsmálaráðherra í aðdraganda skipunar dómara við Landsrétt gætu í heildarsamhenginu ekki valdið því að skipunin teldist fara í bága við lög, þannig að Guðmundur Ástráðsson teldist ekki hafa notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli, sbr. ákvæði 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 1. málslið 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hæstiréttur taldi að ótímabundin skipun allra dómaranna fimmtán við Landsrétt hefði orðið að veruleika við undirritun skipunarbréfa þeirra 8. júní 2017. Þau hefðu öll fullnægt skilyrðum 2. mgr. 21. gr. laga nr. 50/2016 til að hljóta skipun í embætti og hefðu frá þeim tíma notið þeirrar stöðu samkvæmt 61. gr. stjórnarskrárinnar að þeim yrði ekki vikið úr embætti nema með dómi.

Frá því skipun þeirra hefði tekið gildi hefðu þau samkvæmt sama ákvæði stjórnarskrárinnar, sbr. og 1 mgr. 43. gr. laga nr. 50/2016, jafnframt borið þá höfuðskyldu að fara í embættisverkum sínum einungis eftir lögum. Þeim hefði einnig verið áskilið með síðastnefndu lagaákvæði sjálfstæði í dómstörfum en jafnframt lagt þar á herðar að leysa þau á eigin ábyrgð og lúta í þeim efnum aldrei boðvaldi annarra. Að þessu virtu taldi Hæstiréttur að ekki væri næg ástæða til að draga á réttmætan hátt í efa að Guðmundur hefði fengið notið í Landsrétti réttlátrar meðferðar máls síns fyrir óháðum og óhlutdrægum dómendum. Kröfum Guðmundar um ómerkingu dóms Landréttar og varakröfu hans um sýknu var því hafnað og staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu Landsréttar um sakfellingu Guðmundar og ákvörðun refsingar hans, en fyrir lá „skýlaus“ játning Guðmundar um efni ákærunnar, þ.e. að hann hefði ekið bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Allir sem komnir eru til vits og ára hljóta að gera sér grein fyrir mannlegum ófullkomleika. Jafnvel einföldustu verk þarf að vinna oftar en einu sinni til að ná viðunandi árangri. Vitur maður sagði að ekkert í heiminum væri auðveldara en að gagnrýna aðra. Dómarar eru vissulega í starfi sem beinlínis krefst þess að þeir yfirfari og endurskoði verk annarra. Með eftiráspeki að vopni getur margur dómarinn talið sér trú um að dómgreind hans sé betri en þeirra sem unnu að lausn mála á vettvangi, jafnvel undir alls kyns pressu. Þótt auðvelt sé að vera vitur eftir á er sú aðferð ekki tiltæk leiðtogum, frumkvöðlum eða öðrum sem veljast til forystu og þurfa að taka skjótar ákvarðanir. Slíkir menn eru sérhverju þjóðfélagi mikilvægir og þeim þarf að veita svigrúm bæði til að vinna að markmiðum sínum og leita lausna, en einnig til að gera heiðarleg mistök – og læra af þeim. Öðru máli gegnir auðvitað ef menn gerast sekir um óheiðarleika, fals, undirferli, misneytingu valds o.þ.h. Í slíkum tilvikum hlýtur það þó að teljast lágmarkskrafa að sýnt sé fram á að viðkomandi hafi verið í vondri trú, sbr. klassísk viðmið réttarfarsreglna um sönnun og sönnunarbyrði. Markmið dómsmeðferðar og dómsúrlausnar er ekki að kveða upp siðferðisdóma yfir mönnum, heldur leggja lagalegt mat á orð og athafnir málsaðila, enda er það augljóslega ekki hlutverk dómara að rannsaka hjörtu málsaðila. Samsæriskenningar uppfylla ekki kröfur gildrar rökfærslu og jafngilda ekki sönnun.

Síðastnefnt atriði er nefnt í tilefni af málflutningi lögmanns Guðmundar Ástráðssonar fyrir MDE um ætlaðan ásetning fyrrverandi dómsmálaráðherra í aðdraganda skipunar 15 dómara í Landsrétt vorið 2017. Spurningar dómenda og svör lögmanns málshefjanda fyrir yfirrétti MDE, þar sem fram kom að Guðmundur hyggist ekki leita eftir endurupptöku málsins ef fallist verður á kröfur hans fyrir MDE, sýndu að hagsmunir málshefjanda af niðurstöðunni eru óljósir, ef nokkrir.

Frammi fyrir framangreindum staðreyndum málsins og hinu víðara samhengi sem hér hefur verið til umræðu er lesandinn hvattur til að sjálfstæðrar íhugunar um það hvort réttlæta megi íhlutun MDE í skipan dómara á Íslandi eins og hér stendur á. Við það mat verður ekki fram hjá því horft að um skipan dómsvalds hérlendis fer samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár, sem útfærð eru með almennum lögum og framkvæmd af réttkjörnum fulltrúum íslenskra kjósenda samkvæmt pólitísku umboði og pólitískri ábyrgð, sem byggir ekki síst á fyrrnefndri 1. gr. stjórnarskrár lýðveldisins nr. 33/1944.

Fróðlegt verður að sjá hvort og þá hvernig yfirréttur MDE telur sig geta fyllt í eyður málsins og staðfest niðurstöðu undirréttar MDE án þess að þá teljist sjálfkrafa komið að „stund sannleikans“ í þeim skilningi að viðurkenna verði grímulaust að upp sé runnið skeið nýrrar tegundar stjórnarfars, þar sem stjórn yfirþjóðlegra stofnana hefur leyst grundvallarstofnanir íslenska lýðveldisins af hólmi.

Framsal fullveldis hefur aldrei verið borið undir íslenska kjósendur

Erfitt er að sjá gild rök fyrir því að íslensk þjóð undirgangist umyrða- og umræðulaust nýja skipan mála, þar sem dómarar eða umboðslausir sérfræðingar taka sér vald til að grípa inn í, endurskoða og lýsa ógildar ákvarðanir kjörinna fulltrúa um málefni íslenska ríkisins. Jafnvel þótt menn séu hlynntir slíkri niðurstöðu í því einstaka máli sem áður var nefnt er fyllsta ástæða til að vara við slíku verklagi, þar sem með því er verið að opna fyrir þann möguleika til framtíðar að mannleg mistök, venjuleg glámskyggni, athugunarleysi og yfirsjónir verði með eftiráspeki tortryggðar og nýttar sem réttlæting þess að setja starfsemi grunnþátta ríkisins í uppnám og óvissu. Slíkt hefði augljóslega lamandi áhrif með því að grafið væri undan réttaröryggi, stöðugleika laga og fyrirsjáanleika í daglegu lífi almennra borgara. Af þessum ástæðum er ólýðræðislegt að dómstólar séu gerðir að pólitískum stofnunum í þeim skilningi að dómarar semji dómsniðurstöður sínar til að setja mikilvægustu þætti þjóðmála og stjórnmála út af sporinu eða beiti dómsvaldinu til að brjóta niður aðra þætti ríkisvalds. Slíkir starfshættir dómstóla færu þvert á allt það sem fyrr segir um hinn lýðræðislega grunn sem stjórnskipun Íslands er byggð á. Varla eru Íslendingar tilbúnir að fórna þeim kjarna fyrir hismi innihaldslausra lýsingarorða um mikilvægi þess að vera „nútímalegur“ eða „framsækinn“.

Spurningar til íhugunar

Í tilefni af öllu framanrituðu vakna upp alvarleg álitaefni: Hvernig fer fyrir þjóð sem stendur frammi fyrir því að hún fær litlu eða engu ráðið um hvernig málum hennar er stjórnað? Hvers vegna ætti slík þjóð að sýna stjórnmálum og lýðræði nokkurn áhuga? Hvernig getur þjóð, sem ekki stjórnar eigin málum, tryggt það að valdhafar svari til ábyrgðar gagnvart henni? Og hvernig getur þjóð í þeirri stöðu tryggt að lögin taki jafnt til allra og að menn séu ekki sviptir mannréttindum ef þau réttindi eru talin ógna hagsmunum ráðandi afla? Hvernig getur valdalaus þjóð varið hagsmuni sína, tilveru og réttindi?

Samantekt og lokaorð

Sagan sýnir að mönnum hefur reynst auðveldara að afsala sér frelsi sínu en að öðlast frelsi og að það er auðveldara að glata lýðræðinu en að koma því á fót. Lýðræðið er vissulega ekki skilvirkasta stjórnarfyrirkomulag sem völ er á og dæmin sanna að enginn skortur er á „vitringum“ sem telja sig þess umkomna að „hafa vit fyrir“ almenningi. Hættur einræðis og alræðis eru ætíð skammt undan. Til að halda aftur af þeim sem ásælast völd valdanna vegna eru augljósir almannahagsmunir tengdir því að sem flestir borgarar taki þátt í lýðræðinu með hugsun sinni, tjáningu, orðavali og framkomu. Afsali menn sér ábyrgð að þessu leyti er þess skammt að bíða að lýðræðið hrynji til grunna. Erum við Íslendingar svo illa staddir í vitsmunalegu tilliti að við getum ekki axlað ábyrgð á lýðræðislegum skyldum okkar og þar með sjálf stjórnað eigin málum? Lýðræðið tryggir ekki farsæla lausn í öllum tilvikum. Það útilokar ekki að kjörnir fulltrúar taki ranga stefnu eða að þeim mistakist. En það gefur tækifæri endurskoðunar og leiðréttingar.

Í stjórnmálum og lagasetningu, rétt eins og í daglegu lífi er aðhald og málefnaleg gagnrýni nauðsynleg forsenda framfara og farsældar. Það leysir því engan vanda að afsala sér sjálfsforsjá og sjálfsábyrgð. Þeir sem kasta vilja frá sér þeirri ábyrgð vísa sumir til þess að við þurfum engar áhyggjur að hafa meðan stjórnað sé með lögum. Í því samhengi má minna á að ein skilvirkasta leiðin til að afnema réttarríkið er að gera það með lögum og lagaframkvæmd, þannig að ekkert standi eftir af ríki réttarins annað en skelin – og ásýndin – ein. Saga alræðisríkja á 20. öld sýnir að slíkur veruleiki er ekki fjarlægur eða óraunverulegur. Í Sovétríkjum Stalíns og Þýskalandi Hitlers geymdu stjórnarskrár fögur fyrirheit sem allir máttu vita að ekkert var að marka. Slíkt réttarumhverfi býður heim því sem á vondri íslensku má kenna við distópíu, þar sem allt er eins slæmt og það getur orðið.

Mannleg reynsla bendir til þess að hringja beri öllum viðvörunarbjöllum þegar fyrirmyndarríkið (útópían / staðleysan) er sagt vera handan við hornið, því í kjölfar slíks málflutnings fylgir iðulega krafa um að valtað sé yfir menn – og þjóðir – með vísan til háleitra hugsjóna, sem sagðar eru svo göfugar að þær gangi framar orðum á blaði, þ.m.t. landsrétti, þjóðarétti og jafnvel stjórnarskrám.

Frammi fyrir þessu hefur lýðræðislegt aðhald enn hlutverki að gegna – og þar með hver einasti maður sem vettlingi getur valdið. Sú grein sem hér birtist er aðeins lítið innlegg í þá umræðu.

Höfundur er héraðsdómari.

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2020. Heimildarskrá er að finna í prentútgáfu blaðsins.
Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson
.