Saklaus þar til sekt sannast

Að undanförnu hafa risið upp háværar umræður um kynferðislega áreitni. Þetta hefur farið sem eldur um sinu um allan hinn vestræna heim. Umræðuefnin hafa snúist um hreina kynferðisglæpi, þar sem misnotkun barna og nauðganir eru alvarlegustu brotin, en einnig um eitthvað sem fremur má kalla dónaskap eða skort á mannasiðum í samskiptum fólks, þegar einn maður áreitir annan án þess að fallið geti undir að teljast refsivert brot.

Ástæða er til að hvetja menn til að rugla ekki refsiverðum brotum saman við háttsemi sem ekki er bönnuð með lögum en má flokka sem ósiðsemi eða jafnvel dónaskap. Það er hins vegar klárlega fagnaðarefni að fólk skuli minnt á að sýna hvert öðru háttvísi og tillitssemi í samskiptum. Ekki virðist veita af. Að því er snertir refsiverð brot gildir hið sama um kynferðisbrot og önnur brot. Við höfum komið okkur upp sérstökum stofnunum til að fást við þá sem brjóta af sér.

Þetta eru löggæslustofnanir svo sem lögregla, saksóknarar og dómstólar. Það er þáttur í þjóðskipulagi okkar að sakfella ekki afbrotamenn nema þeir fái notið réttar til að verja sig fyrir dómi þar sem meginreglur réttarfars í sakamálum eru við stjórnvölinn. Meðal þeirra reglna er sú sem við þekkjum öll um að menn skulu teljast saklausir af broti þar til sekt þeirra hefur verið sönnuð.

Þeir sem segja frá refsiverðum sökum annarra nafngreindra manna ættu að muna þetta. Og þeir sem á slíkar frásagnir hlýða ættu líka að gera það. Það er ekki ásættanlegt að „réttað“ skuli yfir sakbornum mönnum í fjölmiðlum og svonefndum samfélagsmiðlum og þeir síðan sakfelldir á þeim sama vettvangi, án þess að hafa í reynd notið nokkurs réttar til að neita sökum eða verja sig á annan hátt.

Sá sem hér heldur á penna starfaði sem dómari um árabil. Dómarar fara með þjóðfélagslegt vald til að kveða á um réttindi manna og skyldur. Meðal annars til að ákveða hvort dæma eigi sakaða menn til refsingar, svo sem til frelsissviptingar, um skemmri eða lengri tíma. Umræður undanfarinna missera gefa tilefni til að huga nokkuð að þeim verkefnum sem hefðbundið falla í hlut dómstóla í svona málum.

Mannréttindaregla

Þegar fjallað er um sök eða sakleysi í refsimáli er tekist á um afar verðmæta hagsmuni þess sem fyrir sökum er hafður. Maður sem sakaður er um glæp verður oft með vissum hætti einstæðingur. Aðrir vilja þá ekki hafa mikið saman við hann að sælda. Ásökunin ein er talin nóg til þess að álíta manninn varhugaverðan.

„Varla færu þeir að ákæra hann ef ekkert væri til í ásökuninni,“ segja menn og velja síðan þann kostinn að forðast hann. Þetta gildir líka um þá sem eru sakaðir um eitthvað sem þeir eru saklausir af. Þeir sem fyrir þessu verða eiga sér bara eitt skjól, dómstólana. Í okkar réttarskipan eiga þeir að geta treyst því að verða ekki taldir sekir um glæpinn nema þeir hafi notið réttar til að verjast ásökunum um hann og fullgildar sannanir hafi verið færðar fram fyrir dómi um brot þeirra.

Meðal vestrænna þjóða ríkir víðtækt samkomulag um að sakaðir menn skuli teljast saklausir þar til sekt þeirra sannast. Kveðið er á um þetta í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum svo sem mannréttindasáttmála Evrópu (2. mgr. 6. gr.). Regluna er einnig að finna í 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár okkar Íslendinga. Sönnunin þarf að uppfylla þá kröfu að hún verði ekki véfengd með skynsamlegum rökum, eins og það er orðað í 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Hjá enskumælandi þjóðum er sama hugsun orðuð svo að sök þurfi að sannast „beyond a reasonable doubt“. Þessari reglu er gjarnan skipað með mannréttindareglum og er því talin njóta sérstaklega ríkrar verndar. Ástæðan fyrir henni er einkum sú að okkur finnst það skelfileg tilhugsun að maður sé dæmdur og látinn sæta refsingu fyrir glæp sem hann hefur ekki framið. Á meðan umræður um regluna eru óhlutbundnar (akademískar) erum við öll meira og minna sammála. Það er eins og að við getum þá sett okkur í spor þess sem ranglega er hafður fyrir sökum, kannski vegna þess að við gætum sjálf orðið fyrir slíku. Við styðjum því flest regluna þegar rætt er um hana almennt.

Ætlaður brotaþoli nýtur samúðar

En er stuðningurinn við þessa mannréttindareglu jafn eindreginn þegar til þess kemur að beita henni í einstökum málum? Ég hef efasemdir um það. Þegar ákveðinn sakborningur hefur verið borinn sökum um tiltekinn glæp er eins og margir gleymi reglunni, þó að sakborningurinn neiti sök og hún hafi alls ekki sannast eftir þeim mælikvarða sem við segjumst vilja virða í slíkum málum.

Þetta er þó misjafnt eftir brotaflokkum. Í sumum þeirra gætir afstöðu af þessu tagi meira en í öðrum þó að auðvitað standi engin lagarök til þess. Þar eru flestar tegundir kynferðisbrota efstar á blaði, en þetta á einnig við um brot sem falla undir aðra brotaflokka. Mörg dæmi eru um að menn tjái sig opinberlega um sök sakaðra manna og telji þá hafa drýgt glæpinn, þó að þeir sem tala hafi lítt eða ekki fylgst með rekstri dómsmáls þar sem um sönnunina hefur verið fjallað. Stundum er þá kallað hástöfum eftir refsingum. Jafnvel er teflt fram tölulegum upplýsingum um lítinn fjölda sakfellinga í tilteknum brotaflokki miðað við kærð brot og dómstólar hvattir til að standa sig „betur“.

Skýringarinnar á þessari framgöngu manna er líklega einkum að leita í því að nú hefur sá sem brotið hefur verið gegn komið inn í myndina. Hann verðskuldar oft samúð manna, bæði þegar ljóst er að brot hefur verið framið gegn honum en einnig þegar sett er fram ásökun um brot, án þess að fullvíst sé að brot hafi verið framið. Hver tekur ekki frekar málstað brotaþola en ætlaðs brotamanns? Samt er varla mikill ágreiningur um að reglan um sönnun sakar gildir fullum fetum eftir sem áður. Meðferð sakamáls, þar sem fórnarlamb, eða einhver annar, ber mann sökum en hann neitar sök, snýst ekki um „hvorum sé trúað“, eins og margir taka til orða. Þegar sakborningur er sýknaður af ákæru um glæp vegna þess að sök hans hefur ekki sannast er ekki verið að fullyrða að hann hafi ekki framið glæpinn. Í dóminum felst einungis að sök hans hafi ekki sannast á þann hátt að ekki verði véfengt með skynsamlegum rökum, eins og þetta er orðað í lagatextanum. Það er óhjákvæmilegt að beiting reglunnar leiði stundum til þess að sekir menn séu sýknaðir. Það er sá fórnarkostnaður sem samfélagið hefur ákveðið að taka á sig í því skyni að draga úr hættunni á að saklausum sé refsað. Heimurinn sem við lifum í er nefnilega ófullkominn. Reglan um sakleysi þar til sekt sannast felur með vissum hætti í sér viðurkenningu á því.

Veist að dómstólum

Ég get ekki neitað því að ég verð undrandi þegar menn veitast að dómstólum sem sýkna sakborninga á þeim grundvelli að sök þeirra hafi ekki sannast á þann hátt að fullnægi þeim mælikvarða sem um ræðir að framan. Hvernig geta menn farið fram með slíkar ásakanir? Skilja menn ekki forsendurnar fyrir slíkum dómi? Geta þeir sem svona tala ekki sett sjálfa sig í spor þess sem ranglega er sakaður um glæp? Hvernig myndu þeir vilja að farið væri með málið ef þeir sjálfir ættu í hlut? Telja þeir ekki að hið sama eigi að gilda um aðra?

Ef litið er yfir umfjöllun á opinberum vettvangi undanfarin ár um úrlausnir dómstóla í sakamálum þar sem deilt hefur verið um sönnun sakar má finna ýmis dæmi um gagnrýni á sýknudóma. Svo rammt hefur stundum kveðið að slíkri gagnrýni að jaðrað hefur við upphlaup. Ég kann engin dæmi um viðlíka upphlaup í tilefni dóma um sakfellingar á þeirri forsendu að sönnunarfærsla hafi verið veik og ófullnægjandi. Þar ætti þó að vera meiri ástæða fyrir almenning að hafa áhyggjur heldur en þar sem sakborningar eru sýknaðir vegna skorts á sönnun. Í fyrrnefnda tilvikinu eru nefnilega mannréttindi sakbornings í húfi. En það er eins og þeir sem tala láti sig slíkt engu skipta, svo undarlegt sem það er.

Þekkt er dæmið af hinum svonefndu Guðmundar- og Geirfinnsmálum, þar sem fjallað var um tvö manndráp og nokkrir unglingar hafðir fyrir sökum. Dómur var kveðinn upp í Hæstarétti á árinu 1980. Almenningur kallaði þá eftir sakfellingum. Brotin voru fjarri því að geta talist sönnuð. Dómstólar létu hins vegar undan hávaðasömum kröfum í samfélaginu og sakfelldu hina ákærðu.

Hér er um að ræða ekkert minna en ömurlegt dæmi um hvernig fer þegar dómstólar láta undan kröfum sem hafðar eru uppi á götum úti í stað þess að gera skyldu sína. Mörg fleiri dæmi eru til af sama toga af dómaframkvæmd hér á landi, þó að ekki séu mönnum jafnvel kunn og þetta. Er það svona framkvæmd laga og réttar sem almenningur vill að ráði starfi dómstóla? Ég held varla.

Þrýstingur

Fjölmiðlar og þeir sem fjalla um þjóðfélagsmál á opinberum vettvangi verða að skilja mikilvægi þess að dómstólar virði meginregluna um sakleysi þar til sekt sannast. Það er eðlilegt og mannlegt að samúð almennings liggi fremur hjá ætluðu fórnarlambi brots heldur en þeim sem fyrir sökum er hafður og oftast er sekur. Sú samúð má þó ekki verða til þess að þrýstingur sé settur á dómstóla um að sakfella sakborninga án þess að fyrir liggi lögfull sönnun. Við verðum einfaldlega öll að horfast í augu við þá staðreynd að ekkert kerfi dóms og laga ræður við það verkefni að sakfella ávallt þann seka en aldrei þann saklausa.

Þrýstingur er samt fyrir hendi og þeir sem fara með dómsvaldið finna fyrir honum. Þetta ætti að vera skaðlaust ef dómstólarnir láta ekki undan og virða regluna þegar á hana reynir í einstökum málum hvað sem slíkum þrýstingi líður. En ætli þeir geri það? Þeir sem gegna störfum sem dómarar eru auðvitað bara venjulegt fólk, sem lifir og hrærist í því samfélagi sem um það lykur. Þeir verða eins og aðrir fyrir áhrifum af umræðum sem fram fara á opinberum vettvangi. Sú skylda hvílir samt á þeim samkvæmt lögum að „halda haus“ og vinna verk sín án utanaðkomandi áhrifa af því tagi sem hér eru nefnd.

Mér sýnist að dómstólar hafi haft of ríka tilhneigingu til að láta undan þrýstingi úr umhverfinu og fella sök á sakborninga án fullnægjandi sönnunarfærslu. Við þetta hefur aukist hættan á því sem við segjumst vilja forðast, að saklausir menn séu sakfelldir. Ganga má út frá því sem vísu að við þetta hafi röngum sakfellingum fjölgað þó að ekki sé alltaf unnt að benda sérstaklega á þá einstaklinga sem hafa mátt þola slíkt.

Hvers er spurt?

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig dómarar, sem ættu að vita betur, réttlæti fyrir sjálfum sér að sakfella og leggja oft þungar refsingar á meðbræður sína án þess að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að þeir hafi framið það brot sem þeir eru sakaðir um. Við þessu er ekkert einfalt svar. Fyrrnefndur þrýstingur er örugglega áhrifaþáttur í þessu. Svo held ég að margir dómarar spyrji sig rangrar spurningar þegar þeir leysa úr máli. Þeir telja nefnilega margir að þeir þurfi að svara spurningunni: Hvað gerðist?

En er það spurningin sem dómarinn þarf að svara? Ef svo er hefur þung byrði, næstum óbærileg, verið lögð á herðar þeim mönnum sem fara með dómsvaldið. Þeim væri þá ætlað hlutverk sem telja má af guðlegum toga, því oft er alls ekki unnt að svara spurningunni nema menn hafi yfir að ráða yfirnáttúrulegu innsæi og geti skoðað aftur í tímann atburði sem engin vitni voru að nema þá brotamaður og brotaþoli, og stundum jafnvel ekki einu sinni þeir. Ég hefði sagt starfi mínu sem dómari lausu þann dag sem mér hefði verið fengið slíkt verkefni.

En sem betur fer er þetta ekki spurningin sem dómarinn þarf að svara. Spurningin sem svara þarf hljóðar svona: Hvað hefur sannast í dómsmálinu um það sem gerðist, þannig að hafið sé yfir skynsamlegan vafa? Þegar menn hafa áttað sig á þessu verður verkefnið miklu einfaldara. Það þarf nefnilega ekki lengur guðlegt innsæi til að leysa úr því. Það þarf bara lögfræðiþekkingu og þjálfun í að meta sönnunarfærslu málsaðila.

Þess er að vænta að dómarar hafi yfir hvoru tveggja að ráða. Dómari sem áttar sig á þessu er ekki líklegur til að sakfella mann sem sakaður er um að hafa framið glæp ef sök hefur ekki sannast með fullnægjandi hætti. Hann veit að skylda hans bannar honum það. Þetta á líka við í tilvikum þar sem dómarinn sjálfur telur í hjarta sínu líklegt að sakborningur sé sekur þó að sökin hafi ekki sannast. Slík tilfinningasemi má ekki og getur ekki ráðið neinu um dómsúrlausnir.

Tökum okkur á

Þessari hugleiðingu má ljúka með brýningu til alls almennings. Munið að reglan um sakleysi þar til sök sannast er þýðingarmikil grunnregla sem gildir ekki bara við meðferð mála fyrir dómi, heldur einnig um samskipti okkar á milli í daglegu lífi. Enginn ætti að „sakfella“ annan mann fyrir ámælisverða hegðun nema hafa fengið fullnægjandi vitneskju um „sökina“. Það felst í því siðferðisbrestur að lýsa sök á hendur einhverjum sem enginn veit í raun og veru hvort brotið hefur af sér. Þetta er samt oft gert og þá ekki síst á þeim vettvangi sem við köllum samfélagsmiðla, þar sem við öll getum látið skoðanir okkar í ljósi. Dæmi eru um að einstaklingar hafi misst vinnu sína eða stöðu vegna slíkra ósannaðra ásakana og skiptir þá ekki máli þó að þeir neiti þeim ávirðingum sem á þá eru bornar. Það getur oft verið þungbærara fyrir einstaklinga að verða sakfelldir á þessum almenna vettvangi heldur en við dómstólana.

Við ættum öll að muna þetta og strengja þess sameiginlega heit að veitast ekki að öðru fólki nema hafa fengið fullnægjandi sannanir um saknæma eða ámælisverða hegðun þess.

Höfundur er lögmaður.

______________________________

Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2018.

Hægt er að kaupa áskrift að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is