Dýri kunnáttumaðurinn og réttarkerfi tilfinninganna

Sumir halda að íslensk stórfyrirtæki hafi mikil völd. Í raun er það þó þannig að fyrirtækin og stjórnendur þeirra mega sín lítils þegar ríkisvaldið er nálægt. Spyrjið bara þá sem hafa þurft að eiga við Samkeppniseftirlitið á undanförnum árum.

Við kaup olíufélagsins N1 á verslunarkeðjunni Festi gerðu stjórnendur félagsins sátt við Samkeppniseftirlitið, í þeim tilgangi að klára viðskiptin. Til að fylgjast með því að ­skilyrðum í þeirri sátt yrði fylgt eftir var ­skipaður sérstakur kunnáttumaður til verksins.

Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins, greindi frá því í mars á þessu ári að kostnaður af störfum þessa sérstaks kunnáttumanns hefði numið um 33 milljónum króna á síðasta ári en um 40 milljónum króna frá því að hann var skipaður. Það gera tæplega þrjár milljónir króna á mánuði að meðaltali. Um svipað leyti var upplýst að sérstakur kunnáttumaður, sem skipaður var um svipað leyti til að hafa eftirlit með sátt Haga við Samkeppniseftirlitið vegna samruna við Olís, hefði einungis innheimt um fimm milljónir króna fyrir sína vinnu. Kunnáttu­maður Festar reynist, samkvæmt þessu, átta sinnum dýrari.

Það þarf að selja mikið af rúðupissi og pylsum til að ná upp í þennan kostnað. Það væri þó ósanngjarnt að halda því fram að hinn sérstaki kunnáttumaður hefði ekki unnið fyrir honum. Hann hefur meðal annars komið að sölu verslana Kjarvals á Hellu og Krónunnar á Hvolsvelli eins og Markaðurinn benti á. Líf og hagur íbúa í Rangárvallasýslu hlýtur að gjörbreytast til hins betra þegar Krónan lokar á Hvolsvelli.

Eins og dálkahöfundurinn Óðinn benti á í Viðskiptablaðinu nokkrum dögum síðar er þetta dálítið eins og að hafa tvo forstjóra á launum. Sá pistill Óðins hefur þó haft þau eftirmál að kunnáttumaðurinn, sem er þjóð­þekktur lögmaður og fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, hefur stefnt ritstjóra Viðskiptablaðsins fyrir meiðyrði vegna skrifanna. Eitt af því sem Óðinn nefndi í pistli sínum var að kunnáttumaðurinn og aðstoðarforstjóri Samkeppniseftirlitsins væru góðir vinir. Það hafði Markaðurinn einnig gert.

***

Málið er eitt af mörgum sem vekur fólk til umhugsunar um það hvernig stjórnendur Samkeppniseftirlitsins hegða sér í nálgun sinni gagnvart atvinnulífinu. Sem dæmi má nefna að rannsókn á meintum samkeppnisbrotum skipafélaga hefur nú tekið meira en áratug. Nýlega sektaði eftirlitið Coca-Cola á Íslandi og Ölgerðina vegna máls frá árinu 2011 um uppröðun vara í verslunum. Sú kvörtun kom frá gosverksmiðju sem nú er löngu hætt starfsemi, eðlilega.

Samkeppniseftirlitið getur ekki borið fyrir sig skort á fjármagni eða mannafla. Það er ­eitthvað annað sem býr að baki sem erfitt er að útskýra. Á sama tíma er það staðreynd að stjórnendur í atvinnulífinu veigra sér við því að leita til eftirlitsins eftir leiðbeiningum og reyna eftir fremsta megni að eiga engin önnur samskipti við starfsmenn stofnunarinnar en þau sem teljast óhjákvæmileg.

***

Til að toppa þetta stundar Samkeppnis­eftirlitið það að kaupa auglýsingar á Facebook til að koma á framfæri skoðunum starfsmanna hennar. Þeirra á meðal var andstaða þeirra við frumvarp iðnaðarráðherra um breytingar á samkeppnislögum og samhliða breytingum á Samkeppniseftirlitinu. Sú vinna og sá tími sem starfsmenn stofnunarinnar vörðu, eða eyddu, í baráttu sinni gegn frumvarpinu var ekki til eftirbreytni. Það hlýtur að vekja furðu þegar stjórnendur ríkisstofnunar birta efni sem inniheldur aðeins þeirra eigin skoðanir og ríkar tilfinningar til þess ofurvalds sem stofnunin færir þeim. Undir þessu sitja stjórnmálamenn. Ráðherra leggur fram frumvarp og starfsmenn eftirlitsstofnunarinnar fara í opinbert stríð við hann í kjölfarið.

***

Þetta er þó ekki alveg svona einfalt því það er einnig pólitískur þrýstingur á að gera þessar valdamiklu stofnanir enn valdameiri. Það sást meðal annars í umræðum á Alþingi nú í vor þegar þingmenn Samfylkingarinnar mótmæltu harðlega öllum breytingum á samkeppnislögum. Nálgun þeirra er hvort í senn einföld og barnaleg, þar sem gengið er út frá þeirri forsendu að stjórnendur í atvinnulífinu séu alla jafna óheiðarlegir og því þurfi öflugar eftirlitsstofnanir til að beisla þá niður. Það vill svo vel til að það er einmitt það sem stjórnendur Samkeppniseftirlitsins kunna svo vel, að beisla menn niður með valdi.

***

Það fer ekki vel á því þegar stjórnmálamenn kalla eftir því að ríkið beiti sér gegn atvinnu­lífinu. Við sáum gott dæmi um það á nýliðnum vetri þegar Helga Vala Helgadóttir, löglærður þingmaður Samfylkingarinnar, kallaði eftir því að eignir Samherja yrðu frystar. Það gerði hún eftir að hafa horft á fréttaþátt um meint brot félagsins erlendis. Allt í því máli á eftir að skýrast betur en það má öllum vera ljóst hversu miklum skaða slík aðgerð sem frysting eigna felur í sér hefði valdið. Um níu mánuðum eftir að umræddur þáttur var sýndur hefur enn ekkert komið út úr rannsókn yfirvalda sem gæti mögulega réttlætt slíka aðgerð.

***

Sem betur fer er það sjaldnast þannig að stjórnmálamenn hafi nokkuð um það að segja hverjir eru rannsakaðir og hverjir ekki. Við erum þó að sjá spurningar og færslur á samfélagsmiðlum og dálkum vinstrimiðlanna þar kallað er eftir því að hið opinbera, í nær öllum tilvikum eftirlits- eða löggæslustofnanir, beiti einhvers konar valdi vegna meintra brota einstakra fyrirtækja eða stjórnenda þeirra. Það er alltaf hætt við því að farið sé eftir kröfum þeirra sem fyrstir rífa fram heygafflana án þess að fyrir því séu nokkur haldbær rök.

***

Við getum tekið nærtækt dæmi frá Noregi þar sem Kristin Halvorsen, fv. formaður Sósíalíska vinstriflokksins, hafði óeðlileg afskipti af rannsókn norsku efnahagsbrotadeildarinnar (Økokrim) á meintum brotum borfyrirtækisins Transocean (sem sérhæfir sig í olíuleit). Rannsóknin beindist að meintum skattalagabrotum og til að gera langa sögu stutta endaði hún með því að stjórnendur Transocean og þrír ráðgjafar félagsins voru árið 2011 ákærðir fyrir að hafa skotið undan 11 milljónum norskra króna. Þeir voru allir sýknaðir þremur árum síðar. Ákæruvaldið áfrýjaði en dró þá áfrýjun til baka áður en málið fór á æðra dómstig. Þeir sem sættu ákæru hafa nú höfðað skaðabótamál gegn norska ríkinu.

Það sem Norðmenn gerðu, og við mættum taka okkur til fyrirmyndar, var að þeir létu gera úttekt á rannsókninni sjálfri. Sú úttekt leiddi í ljós margt vafasamt varðandi starfs­hætti Økokrim. Þá kom einnig í ljós að Halvorsen hafði sem fjármálaráðherra ráðstafað fjármagni ríkisins sem eyrnamerkt var sérstaklega rannsókninni á Transocean. Því til viðbótar greiddi ráðuneyti hennar reikninga lögmanna sem unnu að málinu.

Rannsóknarnefnd sú sem gerði úttekt á Transocean-málinu telur að draga megi hlutleysi ákæruvaldsins í efa þegar rannsókn þess er sérstaklega fjármögnuð af fjármála­ráðuneytinu. Frændur okkar í Noregi líta þetta mjög alvarlegum augum og það ríkir þverpólitísk samstaða um að svona lagað eigi ekki að gerast aftur.

***

Það er kannski ágætt að hafa þetta í huga næst þegar fluttar verða fréttir af meintum brotum einhvers aðila sem ekki fellur í kramið hjá vinstrisinnuðu miðlunum og kaffihúsaspekingum landsins. Það er ekki nóg að fjölmiðlamenn eða stjórnmálamenn hafi hátt á samfélagsmiðlum og kalli eftir rannsóknum, frystingu eigna eða öðrum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins gegn einstaklingum eða fyrirtækjum. Réttarríkið er dýrmætara en svo að látið sé undan slíkum kröfum, sem iðulega byggjast á tilfinningu en ekki rökum.

***

Þetta er því þunn lína. Stjórnmálamenn þurfa að setja skýr lög og tryggja um leið að stjórnendur eftirlitsstofnana starfi eftir þeim – og þeim eingöngu. Þeir geta lítið annað gert við dólgslegum vinnubrögðum þeirra sem stjórna eftirlitsstofnunum en að setja þeim skýr mörk. Það felast fagleg vinnubrögð í því að setja eftirlitsstofnunum skorður, jafnvel þó það sé ekki vinsælt til skemmri tíma.

Á sama tíma geta stjórnmálamenn ekki beitt sér fyrir rannsóknum á einstaka fyrirtækjum, alveg sama hversu mikill hávaðinn verður. Ef alþingismaður, sem einn daginn gæti vel orðið ráðherra dómsmála, þarf ekki nema einn sjónvarpsþátt til að frysta eignir fyrirtækja getum við allt eins lagt réttarríkið niður.

Höfundur er ráðgjafi og ritstjóri Þjóðmála.

Ritstjórnarpistillinn birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.