Gengið var til forsetakosninga í níunda sinn í 76 ára sögu lýðveldisins laugardaginn 27. júní 2020. Almenna reglan var lengi að ekki væri stofnað til framboðs gegn sitjandi forseta. Þetta breyttist í forsetatíð frú Vigdísar Finnbogadóttur. Nú var í fjórða sinn boðið fram gegn sitjandi forseta og í fyrsta sinn eftir að hann hafði aðeins setið í eitt kjörtímabil.
Árið 1988 bauð Sigríður Þorsteinsdóttir úr Flokki mannsins í Vestmannaeyjum sig fram og fékk 5,3% atkvæða, Vigdís fékk 92,7% en auð og ógild atkvæði voru 2%. Kjörsókn var 72% af tæplega 175.000 á kjörskrá.
Árið 2004 buðu Baldur Ágústsson (9,9% af greiddum atkv.) og Ástþór Magnússon (1,5%) sig fram gegn Ólafi Ragnari Grímssyni (67,5%). Kjörsókn var dræm, aðeins 62,9%, rúmlega 213.000 á kjörskrá.
Árið 2012 voru þrír karlmenn og þrjár konur í framboði: Andrea Jóhanna Ólafsdóttir (1,80% af greiddum atkv.), Ari Trausti Guðmundsson (8,64%), Hannes Bjarnason (0,98%), Herdís Þorgeirsdóttir (2,63%) og Þóra Arnórsdóttir (33,16%) gegn Ólafi Ragnari Grímssyni (52,78%). Kjörsókn var 69,32% af rúmlega 235.000 á kjörskrá.
Árið 2020 Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hlaut 89,4% greiddra atkvæða (92,2% gildra atkvæða) en Guðmundur Franklín Jónsson 7,6%. Kjörsókn var 66,9%, en 168.821 greiddi atkvæði. Þar af voru auð og ógild atkvæði 5.111, eða 4.043 auðir og 1.068 ógildir. Á kjörskrá voru 252.267.
II.
Án þess að farið sé í mannjöfnuð vegna forsetakosninga má fullyrða að fyrst árið 2012 þegar Ólafur Ragnar Grímsson bauð sig fram í fimmta sinn hafi í raun verið tekist á um hvort fella ætti sitjandi forseta.
Ólafur Ragnar talaði um framtíð sína í embættinu í véfréttarstíl í áramótaávarpi 1. janúar 2012 en tók síðan af skarið um framboð 4. mars 2012. Gaf hann til kynna að annars blasti við óbærileg upplausn vegna skorts á framboði einhvers sem hefði burði til að sameina þjóðina að baki sér.
Athyglisvert er að við skýringu á úrslitum kosninganna árin 2004 og 2012 var tekið til við að ræða hve mörg atkvæði frambjóðendur hefðu fengið miðað við fjölda manna á kjörskrá. Þá varð hlutfall Ólafs Ragnars 42,5% árið 2004 og ekki nema 35,68% árið 2012. Með þessu var leitast við að vega að ímynd Ólafs Ragnars sem sameiningartákns.
Skömmu fyrir kosningarnar 2004 beitti hann synjunarvaldi forseta samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar í fyrsta sinn – gegn fjölmiðlalögunum. Lögin voru dregin til baka. Á kjörtímabilinu 2008 til 2012 beitti Ólafur Ragnar þessu valdi tvisvar gegn Icesavelögum og hafnaði þjóðin lögunum í bæði skiptin í atkvæðagreiðslu.
Í kosningabaráttunni 2020 sagði Guðmundur Franklín Jónsson að Ólafur Ragnar væri fyrirmynd sín og talaði um sjálfan sig sem „öryggisventil“ gagnvart ákvörðunum alþingis. Fyrir sér vekti að beita 26. gr. stjskr. til að stöðva framgang mála sem kæmu frá alþingi og vísa þeim til þjóðarinnar hvort sem fleiri eða færri skoruðu á hann að gera það.
Þegar Guðni Th. Jóhannesson ræddi spurningu um 26. gr. heimildina og beitingu hennar brá hann sér í gervi sagnfræðiprófessorsins og vísaði til fordæma úr forsetasögunni. Óráðinn fjölda fólks þyrfti til að hann velti fyrir sér að beita heimildinni í greininni.
Sitjandi forseti gefur höggstað á sér með því yfirleitt að ræða að með undirskriftum sé unnt að knýja hann til að beita 26. gr. stjskr. og synja því að staðfesta lög frá alþingi. Eina vald kjósenda gagnvart húsbóndanum á Bessastöðum er á kjördag. Þar fyrir utan á forseti að sitja á friðarstóli.
III.
Forsetakosningabaráttan var lágsigld á tíma COVID-19-faraldursins. Þá lá fyrir frá upphafi að Guðmundur Franklín Jónsson átti enga sigurvon.
Guðni Th. Jóhannesson kom úr háskólasamfélaginu þegar hann bauð sig fram árið 2016 og áhorfendur ríkissjónvarpsins þekktu hann sem álitsgjafa. Sem forseti hefur Guðni Th. lagt sig fram um að skírskota til þjóðarinnar allrar eins og honum er skylt. Kannanir sýna að honum hefur tekist þetta vel og í viðtali við vinstri-vefsíðuna Stundina í tilefni af kosningunum nú sagði hann:
„Ég hef einsett mér að láta embættið ekki stíga mér til höfuðs.“
Þessi setning endurspeglar lítillætið sem hann sýnir að jafnaði í opinberri framgöngu.
Í sjónvarpsþætti kvöldið fyrir kjördag var minnt á að Vigdís Finnbogadóttir hefði sem forseti lagt áherslu á skógrækt og Ólafur Ragnar Grímsson hefði beitt sér í norðurslóðamálum. Spurt var hvort Guðni Th. hefði ekkert sambærilegt forgangsmál. Hann sagðist hafa notað fyrsta kjörtímabilið til að íhuga hvað það ætti að vera, líklega yrðu það lýðheilsumál. Hann fór daginn eftir á reiðhjóli frá Bessastöðum á kjörstað í Álftanesskóla.
Í tilefni af hjólaferð Guðna sagði Guðjón Jensson á Facebook 27. júní 2020:
„Það er aðdáunarvert hve Guðni sýnir sínar bestu hliðar. Hann er alþýðlegur og vill gjarnan deila gæðum með okkur öllum. Dagur B. Eggertsson sýndi einnig á sér hliðstæða hlið þá hann kom hjólandi á fund varaforseta BNA í Höfða. Öryggisverðir hans vildu ekki trúa því að þarna færi borgarstjórinn í Reykjavík. Auðvitað fer þetta fyrir brjóstið á hægri intelligensíunni en það verður að hafa það. Guðni og Dagur sýna af sér gott fordæmi!“
Óljóst er til hvers höfundur vísar með „hægri intelligensíunni“. Hvergi var þess vart að nokkur vekti máls á einhverju vegna hjólaferðar forsetans eða léti myndir af honum með hjálminn trufla sig. Færslan á Facebook er dæmigerð fyrir margt innantómt sem þar var sagt vegna forsetakosninganna.
Rætt var við Guðmund Franklín í fréttum ríkissjónvarpsins 27. maí 2020 og þar sagði hann helsta eiginleika sinn af fjölmörgum að „tala frá hjartanu“. Hann byði sig fram fyrir þjóðina eingöngu og hefði ekki neina þörf „fyrir bitlinga eða að hitta eitthvert frægt fólk“. Þriðji orkupakkinn hefði verið kveikjan að framboði sínu og ætlun sín væri að standa gegn frekari skrefum á þeirri braut.
Guðmundur Franklín beitti sér á sínum tíma fyrir undirskriftasöfnun gegn staðfestingu laga í tengslum við 3. orkupakkann. Alls mótmæltu 7.643 á netinu og 5. september 2019 afhenti Guðmundur Franklín forseta Íslands mótmælin með ósk um að hann beitti 26. gr. stjórnarskrárinnar til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Guðni Th. gerði það ekki.
Að lokakafli pólitísku furðusögunnar um 3. orkupakkann sé forsetaframboð Guðmundar Franklíns gegn Guðna Th. Jóhannessyni sýnir að ekki þarf alltaf þýðingarmikil mál á stjórnmálavettvangi til að velta þungu hlassi. Orkupakkamálið var blásið út fyrir öll skynsamleg mörk. Útreið Guðmundar Franklíns í forsetakosningunum ætti endanlega að jarða þetta deilumál.
IV.
Undanfarnir mánuðir hafa verið undarlegir vegna COVID-19-faraldursins. Hann hefur sett íslenskt efnahags- og atvinnulíf úr skorðum. Spáð er að samdrátturinn vegna faraldursins nemi 8% í vergri landsframleiðslu á þessu ári og atvinnuleysi fari í 11%. Þetta er meiri samdráttur og meira atvinnuleysi en varð í kjölfar bankahrunsins 2008.
Í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í París frá júní 2020 um efnahagshorfur aðildarríkja er spáð meiri efnahagslegum samdrætti fram til loka næsta árs á Íslandi en í nokkru öðru OECD-ríki.
Ríkislögreglustjórinn og sóttvarnalæknir lýstu 6. mars 2020 neyðarstigi almannavarna vegna COVID-19. Ákvörðunin studdist við lög um almannavarnir og sóttvarnalög.
Við allar aðgerðir í heilbrigðismálum fóru stjórnvöld að ráðum sóttvarnalæknis, Þórólfs Guðnasonar. Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra sá um framkvæmd aðgerða, meðal annars með sérstöku rakningateymi til að finna þá sem áttu samskipti við smitbera. Kom Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn fram fyrir hönd almannavarna. Alma Möller landlæknir tók einnig þátt í daglegu kynningarfundunum fyrir hönd heilbrigðiskerfisins.
Ríkisstjórnin samþykkti 10. mars 2020 aðgerðir vegna beinna áhrifa COVID-19 faraldursins á atvinnulíf og stöðu ríkissjóðs. Minnt var á að geta þjóðarbúsins til að takast á við vandann væri góð, þó væri hagkerfið berskjaldað fyrir ytri áhrifum. Þegar mætti merkja áhrif faraldursins í efnahagslífinu. Í tilkynningu ríkisstjórnarinnar sagði:
„Markviss og traust viðbrögð skipta sköpum við aðstæður sem þessar. Til að verja íslenskt efnahagslíf mun ríkisstjórnin beita sér fyrir eftirfarandi aðgerðum:
- Fyrirtækjum sem lenda í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls verði veitt svigrúm, t.d. með lengri fresti til að standa skil á sköttum og opinberum gjöldum.
- Skoðað verði að fella tímabundið niður tekjuöflun sem er íþyngjandi fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu, t.d. gistináttaskatt sem verður afnuminn tímabundið.
- Markaðsátaki verður hleypt af stokkunum erlendis þegar aðstæður skapast til þess að kynna Ísland sem áfangastað, auk átaks til að hvetja til ferðalaga Íslendinga innanlands.
- Gripið verði til ráðstafana sem örvað geta einkaneyslu og eftirspurn, t.d. með skattaeða stuðningskerfum.
- Aukinn kraftur verði settur í framkvæmdir á vegum opinberra aðila á yfirstandandi ári og þeim næstu.
- Efnt verði til virks samráðs milli stjórnvalda og samtaka fjármálafyrirtækja um viðbrögð þeirra við fyrirsjáanlegum lausafjár- og greiðsluörðugleikum fyrirtækja í ferðaþjónustu.
- Innstæður ÍL-sjóðs í Seðlabankanum verði fluttar á innlánsreikninga í bönkum til að styðja við svigrúm banka og lánardrottna til að veita viðskiptamönnum sínum lánafyrirgreiðslu.
Unnið var markvisst að framkvæmd þessara áforma og tókst að milda höggið vegna veirunnar á afkomu fólks og fyrirtækja og stuðla að því að hjólin gætu farið að snúast að nýju strax og aðstæður breyttust.
Tilkynnt var miðvikudaginn 20. maí að neyðarstiginu yrði aflétt mánudaginn 25. maí, það gilti því í tvo mánuði og 19 daga.
V.
Viðbrögð almennings einkenndust af miklu trausti í garð þeirra sem miðluðu upplýsingum um ráðstafanir til að stemma stigu við útbreiðslu faraldursins.
Þá jókst einnig traust í garð ríkisstjórnarinnar vegna aðgerða hennar og framgöngu einstakra ráðherra.
Í ávarpi sínu á þjóðhátíðardaginn 17. júní 2020 leit Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra til baka og sagði:
„Meðal annars vegna öflugs menntakerfis og heilbrigðiskerfis, öflugra vísindamanna og rannsókna höfum við náð þeim árangri sem náðist í baráttunni gegn veirunni. Fjöldi þeirra sem hafa verið prófaðir hefur gert það að verkum að hið alþjóðlega vísindasamfélag hefur fylgst grannt með Íslandi, sú aðferðafræði að rekja, greina og nýta sóttkví og einangrun auk þess að við öll gættum hreinlætis, hefur sýnt sig vera árangursrík nálgun í baráttunni við skæðan vágest. Þær sóttvarnaráðstafanir sem við tókum öll þátt í voru ekki síst til að vernda þau sem síst máttu við að fá veiruna, aldraða og sjúka, auk allra þeirra sem þurftu að standa vaktina í framlínunni.
Og í þessari viku stigum við varfærið skref til að opna landamærin. Það var mat sérfræðinga að slíkt skref væri ráðlegt að stíga en um leið gerum við okkur fulla grein fyrir þeirri áhættu sem þeirri opnun fylgir. Stjórnvöld munu fylgjast grannt með hvernig til tekst og bregðast hratt við með afgerandi hætti, gerist þess þörf. Við verðum áfram að gæta ítrustu varfærni, enda geisar faraldurinn enn víða um heim og gæti blossað upp aftur hér. Við verðum að hafa augun áfram á boltanum. Okkur gekk vel en ef til vill var þetta aðeins fyrri hálfleikur.
En baráttan gekk vel – vegna þeirrar ákvörðunar að forgangsraða heilbrigðissjónarmiðum og mannslífum. Þeirrar ákvörðunar að fletja út kúrfuna eins og það er kallað, draga eins og unnt er úr álagi á heilbrigðiskerfið og hafa almannahagsmuni að leiðarljósi. Þegar leiðarljósið er skýrt er auðveldara að taka góðar ákvarðanir. Þegar ákvarðanir byggjast á rannsóknum og gögnum þá verða þær betri.
En eitt verkefni kallar á annað. Heimsfaraldurinn olli einu mesta áfalli í heila öld þar sem alvarlegt skarð er hoggið í útflutningstekjur. Þó má telja einstakt að tekist hefur að halda þjóðhagslegum stöðugleika þrátt fyrir þetta áfall, vextir eru lægri en nokkru sinni sem er eitt mikilvægasta lífskjaramál almennings. Þetta er ekki tilviljun. Með samstilltu átaki síðustu ár hafa stjórnvöld, Seðlabanki Íslands og aðilar vinnumarkaðarins náð miklum árangri á þessu sviði. Stóra verkefnið er að vinna bug á atvinnuleysinu – og tryggja að það verði ekki langvinnt með því að skapa störf og tryggja afkomu fólks.
Við þurfum að byggja upp til skemmri og lengri tíma, efla fjárfestingu og fjölga störfum og gleyma því ekki að við viljum kolefnishlutlaust samfélag, nýsköpunarsamfélag, þekkingarsamfélag. Þrátt fyrir alvarleg áföll eigum við nú að horfa til framtíðar og byggja upp fjölbreyttara, grænna og tæknivæddara atvinnulíf. Þar mun almannavaldið hafa mikilvægu hlutverki að gegna enda er það svo að opinber fjárfesting í grunnrannsóknum og nýsköpun hefur skilað sér í mörgu af því sem nú telst sjálfsagt, eins og snjallsímum, rafbílum og líftæknilyfjum. Slík fjárfesting hefur skilað sér margfalt til baka í auknum verðmætum og framförum.“
Líklegt er að oft verði vitnað til þessara orða forsætisráðherra þegar fram líða stundir og menn vilja fá gagnorða lýsingu á afstöðu forráðamanna þjóðarinnar til þess sem gerst hefur undanfarna mánuði í skugga COVID- 19-faraldursins. Enn þorir enginn að slá því föstu að baráttunni sé lokið. Á þessari stundu er því enn spáð að önnur bylgja kunni að ganga yfir heiminn.
VI.
Hér skal sérstaklega staldrað við það sem segir í síðustu efnisgrein hinna tilvitnuðu orða um „að við viljum kolefnishlutlaust samfélag, nýsköpunarsamfélag, þekkingarsamfélag“. Takist ríkisvaldinu með fjármunum sínum að virkja einkaaðila til samstarfs með þetta að markmiði yrði um álíka mikla byltingu á íslensku samfélagi að ræða og varð með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) árið 1994.
Áhrifa aðildarinnar gætti ekki síst á sviði rannsókna og nýsköpunar, þegar unnt var að virkja krafta allra sem höfðu beðið árum saman eftir að fá aukið svigrúm. Fótfestan fyrir stórt átak á þessum sviðum núna er öflugri en fyrir aldarfjórðungi og þess vegna er mikils að vænta verði rétt að málum staðið.
Í grein í Morgunblaðinu sunnudaginn 28. júní 2020 sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra:
„Ríkið getur hugað að vélinni, séð til þess að hún sé í lagi, tryggt henni gott súrefnisflæði. Það ætlum við að gera, ekki síst með því að leggja þunga áherslu á nýsköpun. Það sem mun koma okkur upp úr Covid er hugvit. Við höfum nú þegar stigið stór skref í þeim efnum á grundvelli nýrrar nýsköpunarstefnu. Hið opinbera getur búið til jarðveginn en til að nýta hann þarf hugvitssama og þrautseiga frumkvöðla og athafnafólk. Í viðleitni þeirra til verðmætasköpunar reynir einmitt hvað mest á þrautseigjuna, sem ég nefndi áðan að væri einkenni á okkar samfélagi.
Annað nauðsynlegt verkefni er að hagræða í ríkisrekstrinum. Við þurfum að kasta þeirri ranghugmynd að hagræðing feli alltaf í sér niðurskurð á þjónustu. Því getur einmitt verið öfugt farið. Við höfum einfaldlega ekki efni á því að reka stóru kerfin okkar með óbreyttum hætti. Það var orðið ljóst löngu fyrir Covid, m.a. vegna lýðfræðilegra breytinga. Þarna er verkefni sem við getum ekki einfaldlega velt yfir á komandi kynslóðir. Það væri vond pólitík. Í slíku verkefni felast mikil tækifæri. Tækifæri til að stórauka nýsköpun innan ríkisrekstursins, sem leiða af sér nýjar lausnir, nýja tækni, aukið val og spennandi störf. Það er nefnilega hægt að endurhugsa margt í ríkisrekstri sem bætir þjónustu við borgarana, gerir kerfið skilvirkara og þannig sækjum við fram sem samfélag.“
Þessari afstöðu ráðherrans og ríkisstjórnarinnar hefur víða verið fagnað. Nýjungar í atvinnulífinu eru margar og vonandi ná flestar þeirra að vaxa og dafna. Tryggvi Hjaltason, hugsjóna- og framkvæmdamaður við nýsköpun, segir til dæmis að í fyrsta sinn í Íslandssögunni sé nú „röð af nýjum tölvuleikjafyrirtækjum sem eru með reynslumikið vel tengt fólk við stjórnvölinn komin á þann stað að geta hafið vöxt“. Kallar hann þetta „örlagaglugga“ sem kunni aldrei að opnast hér aftur og því skipti miklu að nýta hann vel næstu tvö árin.
VII.
Á þessu stigi er of snemmt að fullyrða hvernig íslenskt samfélag kemst frá hremmingum heimsfaraldursins. Hægt og varlega er hvert skrefið stigið eftir annað út úr vandanum. Faraldurinn minnti allar þjóðir rækilega á að engin þeirra er ein í heiminum. Þær eiga allar mikið undir því að starfa saman þótt ágreiningur sé um margt.
Í alþjóðlegum samanburði um viðbrögð við veirunni standa Íslendingar vel að vígi. Héðan hafa verið fluttar fréttir sem segja þeim sem huga til ferðalaga eftir heimadvöl að öruggt sé að ferðast til Íslands, sóttvarna sé gætt og heilbrigðiskerfið sé gott. Þetta kann að örva ferðaþjónustu að nýju.
Takmarkanir á ferðalögum hafa minnt Íslendinga sjálfa á hve mikils virði land þeirra og náttúrufegurðin er. Vonandi verður það til að stuðla að meiri umhyggju við landið á þeim stöðum sem vinsælastir eru meðal ferðamanna.
Í byrjun júlí 2020 sagði fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands að eiginfjár- og lausafjárstaða stóru bankanna þriggja væri sterk. Þó að óvissa ríkti um raunvirði útlánasafns fjármálafyrirtækja við núverandi aðstæður benti sviðsmyndagreining Seðlabankans til þess að eiginfjárstaða þeirra stæðist álagið vel. Kröfur til eiginfjárstöðu stóru bankanna eru reistar á reynslu bankahrunsins 2008.
Undir lok júní 2020 sendi fjármála- og efnahagsráðuneytið frá sér tilkynningu um að nær allar mótvægisaðgerðir vegna COVID-19-heimsfaraldursins væru komnar til framkvæmda. Eftir stæði greiðsla launa á uppsagnarfresti, en stefnt væri að því að fyrsti hluti kæmi til greiðslu fyrir 20. júlí, og stuðningslán en lögð væri lokahönd á umsóknargátt vegna lánanna.
Þá kom fram að meirihluti fyrirtækja væri ánægður með aðgerðirnar samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir fjármálaog efnahagsráðuneytið í apríl og maí. Um helmingur fyrirtækja sem þátt tók í könnuninni teldi sig vel í stakk búinn til að takast á við tímabundin áföll á næstu mánuðum, en innan við fjórðungur stæði illa. Hátt hlutfall fyrirtækja sem teldi stöðu sína ágæta virtist endurspeglast í minni eftirspurn eftir viðbótar- og stuðningslánum og frestunum skattgreiðslna en búist hafði verið við í upphafi. Þetta gæti bent til þess að lausafjárvandi fyrirtækja væri ekki jafn alvarlegur og óttast var um tíma, m.a. vegna annarra aðgerða.
Frá 15. júní 2020 var öllum ferðamönnum sem komu til landsins boðið að fara í skimun fyrir COVID-19 við landamærin eða að fara í 14 daga sóttkví. Mánuði síðar höfðu tæplega 49.000 ferðamenn komið til landsins og höfðu samtals 36.738 próf verið tekin. Af þeim greindust 83 sýni jákvæð. Virk smit voru 12 en rúmlega 60 greindust með gömul og óvirk smit.
Þessi krafa um skimun eða sóttkví náði aldrei til ferðamanna frá Færeyjum og Grænlandi og 16. júlí 2020 bættust Danmörk, Noregur, Finnland og Þýskaland í hóp „öruggra“ ríkja.
Þannig opnaðist landið stig af stigi og ferðamenn sáust að nýju á götum Reykjavíkur og annars staðar. Fjarvera þeirra af landinu gaf Íslendingum einstakt tækifæri til að kynnast gífurlegum áhrifum ferðaþjónustunnar og breytinga í hennar þágu á undanförnum 10 árum.