Nú þegar farið er að síga á seinni hluta kjörtímabilsins má greina ákveðna þreytu í stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks. Í nýjasta hefti Þjóðmála má finna ítarlegt viðtal við Óla Björn Kárason, þingmann Sjálfstæðisflokksins og formann efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Það er Óli Björn meðal annars spurður út í meirihlutasamstarf stjórnarflokkanna.
„Ég myndi segja að samstarfið á milli stjórnarþingmanna hafi að flestu leyti verið gott, í það minnsta í nefndum þingsins,“ svarar Óli Björn að bragði og nefnir sem dæmi að samstarf stjórnarþingmanna gangi vel í efnahags- og viðskiptanefnd hvar hann gegnir forystu.
„Vissulega er þó tekist á, við erum ólík og með ólíkar skoðanir. Það hlýtur að reyna á þingmenn VG að vinna með okkur rétt eins og það reynir oft mjög á taugar okkar og þolinmæði að vinna með VG. Þetta er ekki bara spurning um grunnhugmyndafræði, það er munur á því hvernig við nálgumst viðfangsefni hlutanna almennt. Við fórum inn í þetta meirihlutasamstarf vitandi það að það myndi reyna á okkur og að við yrðum oft að draga andann djúpt. Það hefur þurft. Þetta er auðvitað misjafnlega erfitt fyrir einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins, erfiðara fyrir suma.“
Eins og hverja?
„Ég hef oft þurft að draga andann djúpt og telja upp að tíu,“ segir Óli Björn.
„En sem fyrr segir vissum við þetta þegar við lögðum af stað í þetta samstarf. Við vissum þó líka að það yrðu ekki gerðar róttækar breytingar á mikilvægum þáttum, til dæmis að það yrðu ekki gerðar kerfisbreytingar á skattkerfinu og heilbrigðiskerfinu. Við vissum að takmarkið væri að halda sjó og mynda efnahagslegan stöðugleika, það tókst okkur fram að þeim faraldri sem nú gengur yfir.“
En nú þarf að gera breytingar til hins betra á mörgum sviðum, til dæmis í heilbrigðiskerfinu. Eru sjálfstæðismenn sáttir við þá þróun sem er að eiga sér stað þar undir stjórn VG?
„Ég hef áður gagnrýnt það opinberlega að það hafa verið stigin skref í tíð þessarar ríkisstjórnar sem gera það að verkum að við erum að reka heilbrigðiskerfið með óhagkvæmari hætti en við gætum gert og um leið að veita verri þjónustu en við gætum veitt,“ segir Óli Björn.
„Það er að miklu leyti vegna þess að skipulega, meðvitað eða ekki, hafa verið lagðir steinar í götu einkaframtaksins. Það kemur mér sífellt á óvart, þó að ég ætti að vita betur, hvað vinstrimenn hafa mikla andúð á einkarekstri, t.d. í heilbrigðisþjónustunni, þegar varðstaðan á að vera um hið sameiginlega tryggingarkerfi. Við erum öll sjúkratryggð og eigum kröfur til þess að fá ákveðna heilbrigðisþjónustu þegar við þurfum á að halda, óháð búsetu og efnahag. Það er sú afstaða sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið.“
Óli Björn segir að þá þjónustu eigi að veita með eins hagkvæmum hætti og hægt er.
„Það þýðir að við verðum að nýta þau tækifæri sem til eru, ekki bara innan ríkisrekstursins heldur líka einkaframtaksins,“ segir Óli Björn og bætir við að einnig sé mikilvægt að veita þeim einstaklingum sem hafa menntað sig á þessu sviði fjölbreyttari atvinnumöguleika ef hugur þeirra standi til þess að standa á eigin fótum.
„Enginn tapar á því heldur græða allir, ríkissjóður og skattgreiðendur, því fjármagnið er nýtt með hagkvæmari hætti. Þeir sem þurfa á heilbrigðisþjónustunni að halda græða á því að þjónustan verður betri vegna þeirrar samkeppni sem myndast,“ segir Óli Björn.
„Þetta sáum við gerast þegar Kristján Þór Júlíusson, þá heilbrigðisráðherra, gjörbreytti fjármögnun heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu þannig að fjármagnið fylgdi þeim íbúum sem skráðir eru á hverja heilsugæslustöð. Þá spruttu upp fleiri einkareknar heilsugæslustöðvar og biðlistar hurfu. Þannig að fyrirmyndin er fyrir hendi og við eigum að gera meira af þessu.“
Þetta hljómar allt rétt og skynsamlegt, en mun varla nást í ríkisstjórn með VG, er það?
„Nei, því miður sé ég það ekki gerast,“ segir Óli Björn.
„Við þurfum að horfast í augu við það, bæði þingflokkur Sjálfstæðisflokksins og flokkurinn í heild, að okkur hefur ekki tekist nægilega vel að sannfæra samstarfsflokk okkar né heldur almenning um það hversu mikilvægt það er að vera með öflugt heilbrigðiskerfi, sem miðar ekki bara við kerfið sjálft og þarfir þess, heldur við þarfir hinna sjúkratryggðu. Þegar málið er nálgast út frá hagsmunum sjúkratryggðra fæst annað skipulag en verið hefur. Þetta á að snúast um að tryggja ákveðna þjónustu en ekki hvort einhver opinber stofnun hefur nægilega fjármuni. Krafan um að nýta fjármunina með betri hætti verður þá háværari og kerfið skilvirkara. Við fáum meira fyrir hverja krónu sem við setjum inn í heilbrigðiskerfið ef það er keppt innan þess á grundvelli þess að tryggja hagsmuni hinna sjúkratryggðu.“
Sem fyrr segir er rætt við Óla Björn í ítarlegu viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála. Til viðbótar við meirihlutasamstarfið og mikilvægi þess að efla heilbrigðiskerfið með einkarekstri fjalla Óli Björn um skattaumhverfið hér á landi, uppstokkun á stjórnsýslunni, stöðu fjölmiðla og yfirburði Ríkissjónvarpsins á þeim markaði, mikilvægi þess að Sjálfstæðisflokkinn endurnýi hugmyndafræði sína fyrir næstu kosningar og fleira.
—
Viðtalið birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.