Skammt frá höfuðborg Úkraínu, Kænugarði, er mikið gil sem nefnist Babí Jar. Það er þekkt úr mannkynssögunni sem vettvangur skelfilegra fjöldamorða nasista í seinni heimsstyrjöldinni, en þýskar sveitir myrtu þar nærri 34 þúsund gyðinga dagana 29. og 30. september 1941. Fjöldamorðin frömdu Þjóðverjar til að hefna sprengjutilræða Sovétmanna í Kænugarði dagana á undan, það er að segja á tímabilinu 20. til 28. september 1941, en þýskar sveitir höfðu hertekið borgina hinn 19. september sama ár. Fjöldamorðin voru vel skipulögð, fólki var ekið á trukkum að gilinu og látið afklæðast áður en það var tekið af lífi með vélbyssum á barmi fjöldagrafa. Líkin voru svo hulin moldu. Áður en Þjóðverjar hörfuðu frá Kænugarði árið 1943 reyndu þeir að hylja verksummerki fjöldamorðanna með því að láta stríðsfanga grafa líkin upp og brenna. En fjöldamorðin gleymdust aldrei, jafnvel þó að gyðingahatur væri landlægt í Sovétríkjunum. Það var þó fyrst eftir dauða Stalíns (1953) sem farið var að vekja máls á þessum óhæfuverkum og eftir „þíðuna“ á valdatíma Níkítas Khrútsjov samdi skáldið Jevgeníj Jevtúshenko ljóðið Babí Jar (1961) til minningar um fjöldamorðin. Ljóðið tónsetti Shostakovítsj í fyrsta kaflanum í þrettándu sinfóníu sinni (1962).
Dimítríj Shostakovítsj fæddist árið 1906 og lést 1975. Hann starfaði alla tíð innan ríkis alræðisins í Sambandsríki sovéskra sovétlýðvelda, eða því sem í daglegu tali er nefnt Sovétríkin. Verk hans „eru merkur vitnisburður um viðsjárverða tíma, í senn aldarspegill og átakasaga“.[1] Shostakovítsj átti alla tíð andstreymt og var meðal annars úthrópaður í Prövdu árið 1936 fyrir óperu sína, Lafði Makbeð frá Mtsensk (1932), sakaður um að misbjóða áhorfendum, meðal annars með ómstríðum hljómum og ópum. Greinin var nafnlaus en talið er víst að Stalín sjálfur hafi að minnsta kosti átt þar hlut að máli. Frægð Shostakovítsj varð þannig að engu á örskotsstundu. Frumflutningi fjórðu sinfóníunnar (1936) var frestað og það var ekki fyrr en með fimmtu sinfóníunni (1937) sem frægðarsól hans reis aftur, enda kallaði tónskáldið hana svar við réttmætri gagnrýni. Margt er þó á huldu um hvort sú glansmynd sem birtist í niðurlagi (coda) verksins sé raunar sönn, það er að segja hvort ekki sé sá lokasigur sem þar er boðaður lævi blandinn.
Shostakovítsj var aftur úthrópaður árið 1948 fyrir að bregða út af stefnu stjórnvalda; sum verk hans voru bönnuð (eins og til að mynda áttunda sinfónían) og hann var hrakinn úr prófessorsstöðum í bæði Moskvu og Leníngrad. Betra tók þó við eftir fráfall Stalíns og á valdatíma Khrútsjovs (1953–1964) gat Shostakovítsj um frjálsara höfuð strokið, þó að vissulega væri nýfengið frelsi innan mjög ákveðinna marka. Í þessu andrúmslofti samdi Jevtúshenko ljóðið Babí Jar.
Shostakovítsj lauk við að semja þrettándu sinfóníuna um mitt ár 1962. Ljóð Jevtúshenkos var þá einungis um ársgamalt en hafði vakið mikla athygli þegar það birtist í Literaturnaia gazeta. Það var þýtt á tugi tungumála (m.a. íslensku) en fékkst þó ekki prentað í ljóðasöfnum skáldsins fyrr en 22 árum eftir að það hafði birst fyrst. Innihald þess þótti viðkvæmt. Fyrir það fyrsta var staða gyðinga í Sovétríkjunum erfið, auk þess sem stjórnvöld vildu að Jevtúshenko minnist einnig rússneskra og úkraínskra fórnarlamba nasista. Úr varð að skáldið gerði breytingar á ljóðinu fyrir frumflutning sinfóníunnar en flestar upptökur sem gerðar hafa verið af verkinu styðjast þó við upphaflega gerð ljóðsins.
Þrettánda sinfónían var frumflutt í Moskvu hinn 18. desember 1962. Mikil spenna ríkti í kringum frumflutninginn. Lögreglan girti af stórt svæði í kringum tónleikasalinn og texti Jevtúshenkos var ekki prentaður í tónleikaskránni, þrátt fyrir þær breytingar sem skáldið hafði gert á ljóðinu sem sungið var í fyrsta þættinum. Upphaflega stóð til að Jevgení Mravinskíj stjórnaði frumflutningnum og Boris Gmyrya syngi einsöng en ráðamenn beittu þá báða þrýstingi um að segja sig frá verkefninu. Á síðustu stundu fékkst Kirill Kondrashin til þess að stjórna og Vitalíj Gromadskíj til þess að syngja einsöng en loftið var lævi blandið þetta desemberkvöld í Moskvu. Pravda gat frumflutningsins einungis í einni setningu daginn eftir og opinber umfjöllun var engin. Stjórnvöld óttuðust mjög að kastljósinu yrði beint að örlögum gyðinga. Þannig var Kondrashin boðaður á fund ráðamanna, sem lögðu hart að honum að stjórna ekki frumflutningnum, en leyfi fékkst fyrir honum eftir breytingar skáldsins á textanum, eins og að ofan greinir.
Þrettánda sinfónían er í fimm þáttum og tekur vanalega um klukkustund í flutningi. Hún er skrifuð fyrir stóra hljómsveit, 40–100 manna karlakór og einsöngvara (bassa eða bass-barítón). Karlakórinn syngur að langmestu leyti einradda (unison) en verkið er dimmt, ómstrítt og áleitið. Því hefur þannig verið lýst sem risavaxinni kantötu eða kórsinfóníu. Aðaltóntegund verksins er b-moll en tónskáldið leikur sér að því að tónflytja (módúlera) milli tóntegunda eða þá að engin sérstök tóntegund er í gangi. Þannig er til að mynda fjórði kafli verksins ekki í fastri tóntegund.
Þrettánda sinfónían dregur nafn sitt af ljóði fyrsta þáttarins, Babí Jar. Ljóðið þýddi Geir Kristjánsson á íslensku og birtist það í Tímariti Máls og menningar árið 1964:[2]
Yfir Babí Jar
eru engir minnisvarðar.
Brött hlíðin einsog stórkarlaleg áletrun.
Ég er hræddur.
Í dag er ég jafn gamall og kynkvíslir Ísraels.
Mér finnst ég sjálfur vera gyðingur á þessari stundu.
Ég, reikandi um Egyptaland.
Ég, krossfestur. Ég, að tortímast.
Jafnvel í dag – förin eftir naglana.
Ég hugsa um Dreyfus líka. Ég er hann.
Filisteinn dómari minn og ákærandi.
Búraður inni og króaður af,
umkringdur, hrækt á, logið á;
æpandi hefðarfrúr með flæmska knipplinga
reka sólhlífar sínar í andlit mér.
Ég er líka drengur í Bélostok.
Rennandi blóðið dreifist um gólfið.
Ölknæpuhetjurnar ganga berserksgang.
Jafn rammlega þefjandi af hvítlauk og sprútti.
Ég er kraftlaus, snarsnýst og fýk undan stígvélasparki,
hrópa gagnslausar bænir sem þeir hlusta ekki á;
hlakkandi: „Lúskrið júðanum og frelsið Rússland!“
stendur kornvörukaupmaðurinn og lemur móður mína.
Mér finnst ég líkt og Anna Frank
vera gagnsær einsog aprílkvistur
og er ástfanginn, ég þarfnast ekki orða,
ég þarfnast að við fáum að horfa hvort á annað.
Hve lítið við þurfum að sjá, finna ilm af,
í einangrun okkar frá laufskrúði og himni,
hve mikið, hve mikið faðma hvort annað
með blíðu inni í dimmu herberginu.
Þeir eru að koma. Vertu ekki hrædd.
Dynurinn og harkið af hlaupunum.
Það færist hingað. Þrýstu þér að mér.
Kysstu mig, fljótt.
Þeir eru að brjóta upp dyrnar. Þrumandi brakandi ís.Yfir Babí Jar
þýtur óræktargrasið.
Trén líta ógnandi út, líta út einsog dómarar.
Og allt er eitt þögult óp.
Þegar ég tek ofan hattinn,
finn ég hár mitt smám saman grána.
Og ég er eitt þögult óp
yfir þeim þúsundmörgu sem hér liggja grafnir;
er sérhver öldungur sem var drepinn hér,
sérhvert barn sem var drepið hér.
Ó, rússneska þjóðin mín, ég þekki þig.
Eðli þitt er alþjóðlegt.
Í saurugar hendur hefur fallið þitt hreina nafn.
Ég þekki hið góða hjartalag lands míns.
Hve hræðilegt er það, þetta yfirlætisfulla tignarnafn
sem gyðingahatararnir hafa rólega gefið sér.
Félagsskapur sannra Rússa.
Engin taug í mér getur nokkrusinni gleymt því.
Þegar síðasti gyðingahatarinn á jörðinni
er að eilífu grafinn,
látum Alþjóðasönginn hljóma.
Í æðum mínum rennur ekki dropi af gyðingablóði,
en sérhver gyðingahatari
hatar mig jafn innilega
og ég væri gyðingur. Fyrir þetta
er ég Rússi.
Í lok þáttarins er hljómsveitin keyrð í botn og það er sigurblær yfir blálokunum, eftir alla dramatíkina sem á undan er gengin.
Næstu tveir þættir fagna lífskraftinum, það er að segja í köflunum Húmor og Í búðinni. Báðir eru samdir við ljóð Jevtúshenkos sem höfðu áður birst og á það einnig við um lokaþáttinn, sem ber yfirskriftina Frami. Ljóðið við fjórða þáttinn, Ótti, samdi Jevtúshenko sértaklega fyrir Shostakovítsj til þess að nota í sinfóníunni. Eftir undirliggjandi dramatík og raunar mikla skelfingu endar verkið svo á undurblíðum dúrhljómum þar sem fiðla og víóla leika einleik. Það er eins og tónskáldið sé að segja okkur að það sé ljós við enda ganganna. Lokin minna okkur þannig á lok áttundu sinfóníu tónskáldsins, sem einmitt boða gott eftir miklar tilfinningasveiflur, ótta og skelfingu.
Þrettánda sinfónían hefur margoft verið hljóðrituð. Kirill Kondrashin, sem stjórnaði frumflutningi verksins, hljóðritaði hana til að mynda þrisvar sinnum og eru þær upptökur nauðsynlegar áheyrnar öllum Shostakovítsj-aðdáendum. Túlkun hans einkennist af hröðu tempói og grófum hendingum þar sem engin tilraun er gerð til þess að draga úr ótta og skelfingu verksins. Hljóðið á upptökunum er enn fremur frekar slakt. Ég er hins vegar hrifnari af hægari og dimmari túlkunum verksins. Þar standa fremstir meðal jafningja annars vegar Bernard Haitink á upptöku frá Amsterdam og hins vegar Riccardo Muti sem stjórnar tónleikaupptöku frá Chicago. Túlkun Mutis er sú allra hægasta sem fáanleg er, um það bil klukkustund og sjö mínútur, en Kondrashin er 54 mínútur með sama verk. Bestur í hlutverki einsöngvarans er hins vegar Sergei Leiferkus á hljóðritun frá New York sem Kurt Masur stjórnar.
Ekki er hægt að fjalla um þrettándu sinfóníu Shostakovítsj án þess að láta þess getið að fjórði kafli hennar, Ótti, með áleitnum túbueinleik, var einmitt notaður í þáttunum Þjóð í hlekkjum hugarfarsins sem vöktu miklar deilur þegar þeir voru sýndir í Ríkissjónvarpinu á sínum tíma.
Höfundur er sagnfræðingur.
—
Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.
[1] Árni Heimir Ingólfsson: Saga tónlistarinnar. Tónlist á Vesturlöndum frá miðöldum til nútímans. Reykjavík 2016, bls. 519.
[2]Jevgeníj Jevtúshenko: „Babí Jar“. Geir Kristjánsson þýddi. Tímarit Máls og menningar 1964 24(4), 356–357.