Hver ætlar að taka slaginn?

Alla virka daga ársins starfa einstaklingar á launaskrá hjá hinu opinbera sem eru haldnir þeim misskilningi að þeim sé falið það hlutverk hér á jörðinni að taka ákvarðanir um líf okkar hinna. Í þeirra huga er ekki til það vandamál sem ekki má leysa með lögum og reglugerðum. Þessi þróun mun drepa alla framþróun og að lokum atvinnulíf. Þess vegna þarf atvinnulífið að axla ábyrgð á því að koma réttum upplýsingum á framfæri og tryggja að baráttunni fyrir frelsinu sé sinnt.

Það er vinsæll frasi um að leiðin til heljar sé vörðuð góðum ásetningi. Frasinn lýsir því hvernig einstaklingar, með góðum ásetningi, taka ákvarðanir eða framkvæma eitthvað án þess að vita eða sjá fyrir hvaða afleiðingar það hefur til lengri tíma. Mannkynssagan geymir mörg dæmi um þetta.

Einstaklingar taka ákvarðanir sem byggja á þeirri þekkingu sem þeir búa yfir. Enn hefur ekki komið fram sá einstaklingur sem getur séð framtíðina fyrir, þó alltaf sé nóg til að svokölluðum eftiráspekingum. En sú þekking sem menn búa yfir hverju sinni er mikilvæg. Það er ekki síður mikilvægt að hún byggi á réttum upplýsingum og staðreyndum – en ekki tilfinningum eða öðrum hvötum.

***

Það væri hægt að tala mikið og lengi um það hver sé ábyrgur fyrir því að koma réttum upplýsingum á framfæri. En við skulum halda okkur við stjórnmálin, því þar eru, því miður, stærstu ákvarðanirnar teknar. Stjórnmálamenn eru, að mestum hluta, eins og annað fólk. Þeir taka ákvarðanir sem oftast byggja á þeirri þekkingu sem þeir ýmist búa yfir eða þekkingu sem er mötuð ofan í þá af embættismönnum. Alla virka daga ársins starfa einstaklingar á launaskrá hjá hinu opinbera sem eru haldnir þeim misskilningi að þeim sé falið það hlutverk hér á jörðinni að taka ákvarðanir um líf okkar hinna. Í þeirra huga er ekki til það vandamál sem ekki má leysa með lögum og reglugerðum. Það gengur stundum svo langt að það er óljóst hvort kemur á undan, reglurnar eða vandamálin, líkt og með eggið og hænuna.

***

Þessi ofurtrú á hið opinbera vald er allsráðandi. Of margir stjórnmálamenn, hvar sem þeir standa á hinu pólitíska litrófi, halda hægt sé að bæta heiminn með nýjum reglugerðum, stærra ríkisvaldi, auknum afskiptum af hagkerfinu og síðast en ekki síst opinberu fjármagni.

***

En það er þetta með upplýsingarnar og þekkingu. Á þessum síðum hefur áður verið vikið að svonefndri baráttu stéttarfélaganna um þessar mundir. Sú barátta fer fram á grundvelli hugmyndafræði sósíalismans, svo einkennilegt sem það kann að hljóma í lok árs 2018 þegar vitað er að um 100 milljónir manna hafa fallið í valinn vegna þessarar sömu hugmyndafræði. Hér stendur ekki til rekja þær kröfur sem forystumenn stéttarfélaganna hafa lagt fram, bæði gagnvart atvinnulífinu og stjórnvöldum.

Þess í stað má velta upp þeirri ábyrgð sem atvinnulífið ber á því að koma réttum upplýsingum á framfæri – og svo að það sé sagt hreint út, að berjast fyrir kapítalismanum.

Í viðtali Þjóðmála við Dr. Eamonn Butler, framkvæmdastjóra Adam Smith-stofnunarinnar í London, sem birt var í sumarhefti ritsins, var hann meðal annars spurður að því hvort að einstaklingar í atvinnulífinu væru of ragir við að tala um kapítalismann og frjálsa markaði. Dr. Butler benti réttilega á að hlutverk stjórnenda í atvinnulífinu væri að reka fyrirtæki, þeir væru ekki stjórnmálamenn og þyrftu í raun ekki að reka pólitísk erindi. „Þeir eru heldur ekki stjórnmálaheimspekingar en þurfa þess í stað að ráða gott fólk til starfa fyrir hagsmunasamtök atvinnulífsins. Fyrir utan það að gæta hagsmuna atvinnulífsins og fyrirtækja í praktískum atriðum er það jafnframt hlutverk þeirra að huga að hugmyndafræðinni um frjálsa markaði, lægri skatta o.s.frv.,“ bætti Dr. Butler við.

***

Allt er þetta satt og rétt. Stjórnendur í atvinnulífinu hafa í nógu að snúast við rekstur fyrirtækja og takmarkaðan tíma til að sinna stjórnmálum eða hugmyndabaráttu. Þá er hins vegar vert að spyrja, er nóg að hagsmunasamtök atvinnulífsins sinni þessari baráttu?

Hér landi starfa sem betur fer öflug samtök sem gæta hagsmuna atvinnulífsins og það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með störfum þeirra síðustu ár. Flestir þeirra aðila, bæði karlar og konur, sem stýra helstu hagsmunasamtökum atvinnulífsins virðast átta sig á mikilvægi þess að glíma ekki bara við praktísk málefni dagsins heldur nýta þau tækifæri sem gefast til að tala fyrir auknu frelsi, lægri sköttum, minni afskiptum hins opinbera o.s.frv. Allt er það mikilvægt.

En það þarf meira til. Það þurfa fleiri óháðir aðilar að láta til sín taka í baráttunni. Innan anga atvinnulífsins leynast mismunandi hagsmunir sem ekki fara alltaf saman og eftir tilvikum litast starf hagsmunasamtakanna af því. Þetta er ekki sagt til að gera lítið úr starfi þeirra, heldur til að ítreka þörfina á því að fleiri láta til sín taka í hugmyndabaráttunni. Allt atvinnulífið hefur hagsmuni af því að minnka ríkisvaldið, lækka skatta, fækka reglugerðum og draga úr opinberu eftirliti.

***

Góð stefnumótum byggir á góðum upplýsingum og atvinnulífið ber að hluta til ábyrgð á því að koma þeim upplýsingum á framfæri. Auðvelda lausnin er alltaf að stækka ríkisvaldið. Það verður sárt fyrir stjórnendur atvinnulífsins, sem nenntu hvorki að leggja fjármagn né tíma í hugmyndabaráttuna, að vakna einn daginn upp við sósíalisma. Halda menn að íslenskir sósíalistar séu á einhvern hátt mildari en útlenskir?

***

En að öðru. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifaði áhugaverða grein í Morgunblaðið þann 13. desember sl. Í greininni fjallar Áslaug Arna um þá staðreynd að ríkissjóður sé nú með um 300 milljarða króna bundna í íslensku bankakerfi, sé eigandi tveggja viðskiptabanka auk þess að reka Íbúðalánasjóð og Byggðastofnun.

Þá segir Áslaug Arna að á meðal margra stjórnmálamanna ríki „skrýtið, jafnvel fordómafullt, viðhorf í garð fjármálafyrirtækja,“ eins og hún komst að orði. Hún bendir réttilega á að tíu árum eftir hrun séu margir þeirrar skoðunar að það eigi að refsa bönkunum sérstaklega, leggja á þá hærri skatta en önnur fyrirtæki (líkt og gert er á Íslandi) en að á sama tíma sé ætlast til þess að þeir lækki vexti og gjöld og veiti góða þjónustu.

„Þeir sem benda á öfugmælin við þessa þróun eru sakaðir um að vera málsvarar fjármálaafla og þeim gerðar upp annarlegar hvatir. […] Þetta er ekkert annað en ódýr popúlismi og það sjá allir skynsamir einstaklingar,“ segir Áslaug Arna í grein sinni.

Það er bæði rétt og mikilvægt að hrósa Áslaugu Örnu fyrir að hafa kjark og þor til að segja hlutina eins og þeir eru. Það er ekki draumur stjórnmálamanna að vera sakaðir um að vera málsvarar hinna illu fjármálaafla.

Umsvif ríkisins á fjármálamarkaði eru hættulega mikil. Bankar eru samt ekkert öðruvísi en önnur fyrirtæki. Þetta eru þjónustufyrirtæki sem nú horfa fram á miklar áskoranir í ljósi þeirrar tækniþróunar sem er að eiga sér stað. Hlutverk þeirra er að breytast – og jafnvel minnka frá því sem áður var. Fólk getur fengið kreditkort hjá öðrum en bönkum, greiðslumiðlun fer fram í fjölbreyttara formi en áður og það eru fleiri aðilar farnir að veita lán, svo talin séu upp nokkur atriði í þessari þróun. Það gefur því augaleið að ríkið á ekkert erindi inn í þessa starfsemi og eina hlutverk eða aðkoma ríkisins að rekstri fjármálafyrirtækja á að vera sú að skapa þeim skýrar en einfaldar reglur og koma því skýrt áleiðis að þeim verði ekki bjargað á kostnað skattgreiðenda ef illa fer – ekki frekar en öðrum fyrirtækjum. Það er síðan hlutverk fjármálafyrirtækjanna að auka traust og ásýnd sína meðal almennings.

***

Til að tvinna þetta saman við fyrri umræðu um hugmyndabaráttuna, þá liggur fyrir að hlutverk atvinnulífsins er að sýna fram á að hagsmunir þess fari saman við hagsmuni launþega og almennings – sem þeir vissulega gera. Hvorugur getur án hins verið. Það er ekki alltaf auðvelt og sérstaklega ekki þegar helstu stéttarfélögunum er stjórnað af æsingarfólki – en þessari baráttu þarf að sinna af heilum hug. Æsingamenn koma og fara en kapítalisminn og frelsið er vonandi komið til að vera.

Höfundur er ritstjóri Þjóðmála.

Greinin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 4. tbl. 2018. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.