Hugtakið slaufunarmenning (e. cancel culture) hefur á liðnum árum markað ný spor í óhuggulegri þróun menningarsögunnar. Þegar einhverjum er slaufað (e. canceled) er ráðist að viðkomandi, lífs eða liðnum, fyrir ýmist raunveruleg eða ímynduð „brot“ gegn framsæknum rétttrúnaði, þó eftir því hver rétttrúnaðurinn er hverju sinni. Yfirleitt þarf ekki nema lítinn en háværan hóp sem krefst þess að einstaklingur verði með einhverjum hætti fjarlægður, ýmist af sviði sögunnar eða úr því hlutverki sem hann gegnir nú. Þannig má sem dæmi nefna fólk sem gegnir stöðum innan háskóla, pólitískum embættum, hlutverki í afþreyingariðnaði, starfi hjá fjölmiðlum eða er þekkt fyrir annað, svo sem rithöfunda eða aðra listamenn.
Bandaríski dálkahöfundinn Barton Swaim fjallaði um slaufunarmenningu í áhugaverðum pistli í Wall Street Journal fyrr í sumar. Hann nefnir, réttilega, að þau sem verða fyrir barðinu á þessari þróun, er slaufað, eru yfirleitt ekki góð í því að verja sig – eða jafnvel átta sig ekki á því í hvers konar stormi þau eru stödd. Árásirnar komi í flestum tilvikum frá vinstrisinnuðum hópum og fyrstu viðbrögð skotmarkanna séu gjarnan þau að biðjast afsökunar án þess að hafa gert nokkuð rangt, sem þó dugar sjaldnast til.
Swaim nefnir þó einn einstakling sem ekki hefur tekist að slaufa þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, kanadíska sálfræðinginn, rithöfundinn og háskólaprófessorinn Jordan Peterson. Lesendur Þjóðmála ættu að þekkja vel til Petersons, enda hefur nokkuð verið um hann fjallað hér í ritinu. Hann kom til Íslands í byrjun júní 2018 og hélt fyrirlestra fyrir fullum sal í Hörpu tvö kvöld í röð.
Í pistli sínum segir Swaim að alla jafna væri lítið tilefni fyrir almenning til að hafa yfirleitt áhuga á Peterson, hvað þá að gera hann að skotmarki fyrir samfélagslega reiði. Peterson nýti flókinn texta úr flóknum sálfræðikenningum, hebresku biblíunni og Nýja testamentinu, kenningum Friedrichs Nietzsche, Sørens Kierkegaard og margt fleira – til að móta grunnkennslu eða „reglur“ um hvernig menn gæti sigrast á náttúrulegri tilhneigingu þeirra til [félagslegs] lasleika og villimennsku. Þá feli bækur hans, hlaðvarpsþættir og fyrirlestrar í sér áhrifamiklar rökræður, innsæi og leiðir til þess að búa sér til reglur um skynsamlegt líf.
Swaim tekur fram að hann deili ekki öllu heimspekilegum forsendum Petersons og að oft sé hann honum ósammála. Aftur á móti sé framlags Petersons mikilvægt og heiðarlegt og að fyrir um tuttugu árum hefðu eflaust fáir talið hann vera það skrímsli sem margir telja hann vera í dag.
En af hverju er hann svona fyrirlitinn af vinstrimönnum? spyr Swaim í grein sinni og svarar síðan spurningunni að hluta til sjálfur eftir samtal við Peterson.
Meginþorri þeirra sem hlusta á og meðtaka boðskap Petersons er ungir, hvítir karlmenn sem töldu sig vanta festu og aga í líf sitt en hafa, eftir að hafa hlustað á Peterson, komið lífi sínu á hreint. Swaim hefur eftir Peterson að jafnvel þó svo að þetta sé hópurinn, sem hann efast um að sé sá eini, sem taki hvað mest mark á skilaboðum sínum eigi sá hópur ekki síður skilið en aðrir að einhver veiti honum athygli. Peterson hefur iðulega verið, ranglega að mati Swaims, skilgreindur sem öfgahægrimaður þó að réttara væri að skilgreina hann sem einstaklingshyggjumann. Loks hefur Peterson verið harðlega gagnrýndur fyrir afstöðu sína gegn því sem kalla má sjálfsmyndarpólitík (e. identity politics), áherslu sína á fjölskylduna og áherslu á karlmennsku. Jafnframt vakti hann athygli í heimalandi sínu fyrir að neita að nota kynlaus fornöfn eins og þá nýsamþykkt lög um kynrænt hlutleysi sögðu til um. Af þessum ástæðum og fleiri til hefur Peterson verið kallaður rasisti og fasisti, og að hafa sýnt kvenfyrirlitningu og fordóma í garð transfólks. Honum hefur verið mótmælt opinberlega, til dæmis á skólalóð Háskólans í Toronto hvar hann kennir, auk þess sem andstæðingar hans hafa keypt miða á fyrirlestra hans með það að markmiði að trufla fyrirlestrana. Þegar bókaútgefandinn Penguin Random tilkynnti að félagið myndi gefa út aðra bók Petersons mótmælti hópur starfsmanna því harðlega og jafnvel var greint frá því að starfsmenn útgáfunnar hefðu tárast á starfsmannafundi vegna þess.
Peterson hefur einnig bent á að stærstur hluti menntamanna hafi lítið uppbyggilegt að segja og ummæli þeirra séu yfirleitt til þess fallin að kasta rýrð á samfélagið og það hvernig við lifum lífinu. „Það eru ekki margir hvetjandi fræðimenn,“ hefur Swaim eftir Peterson. Aftur á móti hefur hann kosið að gagnrýna ekki aðra fræðimenn með beinum hætti heldur leggja áherslu á hvatningu og jákvæð skilaboð. Swaim rifjar upp ummæli Petersons um að best viðhorfið gagnvart ungu fólki sé að veita því hvatningu.
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur gagnrýnendum Petersons ekki tekist að fá honum slaufað. Hann heldur stöðu sinni við Háskólann í Toronto þó svo að þess hafi verið krafist að honum yrði vikið úr starfi. YouTube-rás hans fær mikið áhorf þrátt fyrir að hvatt hafi verið til þess að henni yrði lokað og að málsmetandi aðilar í þjóðfélagsumræðu beggja megin Atlantshafsins hafi hvatt fólk til að horfa ekki á hana og það sama gildir um hlaðvarpsþætti hans. Loks hefur bókaútgefandi Petersons staðið í lappirnar og á síðasta ári kom út ný bók, Út fyrir rammann – Tólf lífsreglur, sem fylgir eftir fyrri bók hans, Tólf lífsreglur – mótefni við glundroða. Með markvissum hætti var reynt að koma í veg fyrir útgáfu bókarinnar, meðal annars af starfsmönnum útgáfunnar, sem sumir hverjir felldu tár en aðrir fóru í veikindaleyfi eftir að tilkynnt var um útgáfu hennar.
Swaim tiltekur tvær ástæður þess að ekki hafi tekist að slaufa Peterson. Annars vegar hafi Peterson lagt það á sig að reyna að skilja meinta andstæðinga sína og mætt þeim í rökræðum. Hann, ólíkt flestum, komi vel fram við gagnrýnendur sína – jafnvel þá sem hafi látið ógeðfelld orð falla í hans garð og nýtt stöðu sína, t.d. á vettvangi stórra fjölmiðla, til að reyna að koma á hann höggi.
Hin ástæðan kemur í framhaldi af þeirri fyrri; hann hefur ekki beðið nokkurn mann afsökunar á málflutningi sínum og orðræðu. Enda er það ein af þeim reglum sem hann tiltekur í nýrri bók sinni, Ekki biðjast afsökunar ef þú hefur ekki sagt neitt rangt.