Umrót vegna orkupakka

Allir í forystu Sjálfstæðisflokksins hafa staðið í ströngu vegna gagnrýni á þriðja orkupakkann.

Fundum alþingis, 149. löggjafarþings, var frestað 20. júní 2019. Kemur þingið aftur saman í lok ágúst til að ljúka afgreiðslu þriðja orkupakkans svonefnda. Þingmenn Miðflokksins stofnuðu til málþófs vegna hans. Var alls rætt um hann í 138 klst. á þinginu, lengsti þingfundurinn stóð í 24 klst. og 16 mín.

Umræður um þriðja orkupakkann, ósköp venjulegt EES-mál, eru orðnar lengri á þingi en um EES-samninginn sjálfan á árinu 1992. Þá kom utanríkismálanefnd alþingis saman 82 sinnum til að fara yfir samninginn og ræða við sérfræðinga og gesti. Nú var orkupakkinn ræddur á nokkrum fundum í utanríkismálanefnd þingsins þar sem mikil samstaða var um hann. Miðflokksmenn sýndu störfum nefndarinnar engan áhuga en kusu þess í stað að draga að sér athygli með hóflausu málþófi. Að nokkru snerist það um að breyta ímynd þingflokksins eftir áfallið sem hann varð fyrir vegna uppákomunnar á Klausturbar 20. nóvember 2018.

Til að binda enda á málþófið, knýja fram afgreiðslu brýnna mála og ná samstöðu um hlé á fundum þingsins lagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra til að það kæmi saman að nýju 28. ágúst og stæði til 2. september 2019.

Í samkomulagi sem formenn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Miðflokksins undirrituðu 18. júní 2019 segir að á ofangreindum dögum verði þriðji orkupakkinn tekinn til lokaumræðu og atkvæðagreiðslu. Umræður eiga að fara fram miðvikudag og fimmtudag 28. og 29. ágúst en atkvæðagreiðslur mánudaginn 2. september.

Einnig var samið um að utanríkismálanefnd alþingis kæmi saman til tveggja eða þriggja funda dagana 13. til 23. ágúst. Þar yrði farið yfir athugasemdir sem kynnu að hafa borist auk þess sem nefndarmönnum gæfist kostur á að senda frá sér framhaldsnefndarálit ef þeir kysu.

Óvenjulegt er að gert sé skriflegt samkomulag í þessa veru. Fyrir þeim sem það gerðu hefur vafalaust vakað að koma til móts við þá í hópi þingmanna sem töldu óvarlegt að fresta fundum alþingis. Því réð meðal annars vantraust í garð miðflokksmanna, ótti um að þeir stæðu ekki við orð sín. Að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, skrifaði undir þennan texta þótti tryggja að við hann yrði staðið.

II.

Umræðurnar um þriðja orkupakkann snerust í vaxandi mæli um gagnrýni á forystumenn Sjálfstæðisflokksins. Ef til vill var þetta frá upphafi tilgangur einhverra. Þeir vildu nota þessa meinlausu viðbót við íslenska orkulöggjöf til að koma höggi á þá sem leiða Sjálfstæðisflokkinn.

Það leikbragð heppnaðist. Spámenn í hópi stjórnmálaskýrenda hafa nú gerst sporgöngumenn þeirra. Jakob Bjarnar, blaðamaður vefsíðunnar visir.is, birti föstudaginn 12. júlí fréttaskýringu á vefsíðunni undir fyrirsögninni: Ögurstund í sögu Sjálfstæðisflokksins að renna upp.

Kenning blaðamannsins er sú að innan Sjálfstæðisflokksins hafi verið háværar kröfur um að efnt yrði til flokksráðsfundar fyrir afgreiðslu þriðja orkupakkans 2. september til að taka flokksforystuna á beinið og jafnvel skipta um hana.

Ótti forystumannanna við slíkan fund eða kröfur um hann hafi verið svo miklar að með hraði hafi verið boðað til flokksráðsfundar 14. september 2019 og þar yrði því fagnað að 25. maí 2019 voru 90 ár liðin frá því að Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður.

Jakob Bjarnar lætur eins og í því felist sérstök klókindi flokksforystunnar að boða þennan flokksráðsfund í skyndi á þessum tíma. Þessi skýring hans stenst ekki. Sérstök afmælisnefnd starfaði á vegum flokksins og í tilkynningu frá henni í vor sagði að 7. september væri fyrirhugað að sjálfstæðismenn af landinu öllu fögnuðu 90 ára afmæli flokksins saman með málþingi, formannafundi, flokksráðsfundi og kvöldskemmtun.

Að þessum viðburði sé frestað um viku markar engin pólitísk þáttaskil og er ekki neinn „krókur á móti bragði“ af hálfu flokksforystunnar eins og Jakob Bjarnar segir. Dýpt rannsókna blaðamannsins birtist í þessum orðum:

„Gremjan [innan Sjálfstæðisflokksins] beinist þannig fyrst og fremst að Bjarna og með því að færa áðurnefndan flokksráðsfund aftur fyrir þingumræðuna, og svo með samþykkt orkupakkans sem að er stefnt, þá leggur hann allt undir. Þrýstingur á hann hefur aukist jafnt og þétt og þetta með að tímasetja flokkráðsfund eftir umræðuna á þingi, blanda honum saman við kvöldskemmtun og afmælisfögnuð, er ekki til þess fallið að gera hann óumdeildari.“

Að setja þetta upp á þennan hátt og kalla ögurstund innan Sjálfstæðisflokksins er ekki fréttaskýring heldur dæmi um hve orkupakkinn kallar fram öfgafullan málflutning.

III.

Bolli Kristinsson athafnamaður sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum fyrir nokkru vegna óánægju með afstöðu þingflokksins til þriðja orkupakkans og eitthvað fleira. Bolli er heimildarmaður í greininni eftir Jakob Bjarnar og segir „flokkinn vera að liðast í sundur og forystan sé í tómu tjóni“.

Í fréttaskýringunni segir orðrétt:

„Talið er að það hljóti eitthvað meira að hanga á spýtunni en menn eiga erfitt með að skilja hina miklu gremja sem leiddi til úrsagnar Bolla Kristinssonar, sem er stór fiskur í Sjálfstæðisflokkstjörninni, og fleiri áhrifamikilla manna úr viðskiptalífinu. […] Bolli telur ef ekkert verði að gert muni Sjálfstæðisflokkurinn verða 15 prósenta flokkur. Það svo þýðir fyrirsjáanlega að hann hefur ekki bolmagn til að verja tiltekna hagsmuni og sjónarmið.“

Af þessum orðum má ráða að Jakob Bjarnar líti á þátttöku Bolla í flokknum og aðild að fjármálaráði hans á sínum tíma sem gæslu sérhagsmuna. Vegna þess að flokkurinn minnki verði hann að róa á önnur mið til að gæta þessara hagsmuna sinna.

Fyrra hluta árs 2002 var eins og oft tekist á um framtíð Laugavegarins og í janúar 2002 hótaði Bolli að hætta verslunarrekstri við götuna. Kaupmenn þar mættu sín einskis í samkeppninni. Þegar fáeinar vikur voru til borgarstjórnarkosninga þá um vorið hafði Bolla snúist hugur eftir samráð og samvinnu við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og aðra borgarfulltrúa R-listans.

Undir lok apríl 2002 kynntu Bolli og Árni Þór Sigurðsson (VG), formaður skipulagsnefndar, sameiginlega niðurstöðu starfshóps borgarinnar og kaupmanna við Laugaveginn. Skipulag þar skyldi breytt á þann veg að hús sunnan við götuna yrðu aðeins tvær hæðir og ris til að greiða aðgang sólarljóss. Norðan götunnar yrðu hins vegar hærri hús.

Bolli Kristinsson sagði í Fréttablaðinu 26. apríl 2002 að fengi tillagan brautargengi mætti vænta þess að fjárfestar litu aftur á Laugaveginn sem vænlegan fjárfestingarkost. Laugavegurinn yrði helsta verslunarmiðstöð landsins. Hann gæti keppt við Kringluna og Smáralind og að auki við verslunargötur erlendis.

Þetta var innihaldslítill áróður sem dugði þó R-listanum til að halda völdum í kosningunum. Nú ganga arftakar R-listans í meirihluta borgarstjórnar hart fram við að breyta Laugaveginum í allt aðra götu en boðað var árið 2002. Allir hafa gleymt glamrinu frá þeim árum. Það þykja þó tíðindi að Bolli Kristinsson segi skilið við Sjálfstæðisflokkinn, hann telji hagsmunum sínum betur borgið annars staðar.

IV.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur sætt ýmsum ásökunum í umræðunum um þriðja orkupakkann. Í upphafi var honum hampað af andstæðingum hans vegna túlkunar þeirra á ummælum sem féllu á alþingi eftir landsfund sjálfstæðismanna í mars 2018.

Í ályktun landsfundarins segir: „Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.“

Þessi ályktun snýr ekki að þriðja orkupakkanum þótt andstæðingar hans láti þannig. Í honum felst ekkert valdaframsal.

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, spurði Bjarna Benediktsson á alþingi 22. mars 2018, sama dag og norska stórþingið samþykkti innleiðingu þriðja orkupakkans, hvort Sjálfstæðisflokkurinn styddi upptöku pakkans í EES-samninginn. Með upptöku máls í EES-samninginn skuldbinda EES/EFTAríkin, Ísland, Liechtenstein og Noregur, sig til að innleiða viðkomandi mál í landsrétt sinn, þau verða öll þrjú að gera það með vísan til EES-samningsins. Þriðji orkupakkinn fékk þessa stöðu í maí 2017.

Bjarni svaraði og minnti á að gerður hefði verið sá stjórnskipulegi fyrirvari við upptöku málsins að alþingi yrði að samþykkja innleiðinguna.

Þá sagði hann:

„[H]ér [er] um að ræða í efnisatriðum mjög stórt mál sem á yfirborðinu, hugsanlega, varðar ekki með beinum hætti íslenska raforkumarkaðinn vegna þess að boðvald viðkomandi sameiginlegrar stofnunar [ACER] virkjast ekki fyrr en íslenski markaðurinn tengist þeim evrópska.“

Þarna sló Bjarni strax varnagla vegna sæstrengsins. Athuganir lögfræðinga og álit hafa síðan áréttað þennan grundvallarþátt. Það verði ekkert framsal án sæstrengs og þrátt fyrir strenginn telja sumir ekki um neitt framsal að ræða. Komi ósk um streng vill þingflokkur sjálfstæðismanna að alþingi samþykki heimild til að svara henni og innan þingflokksins fjölgar röddum um að þjóðin greiði atkvæði um hvort heimila beri rafstreng í hafinu milli Íslands og annarra landa.

Þorsteinn Víglundsson spurði enn:

„Styður Sjálfstæðisflokkurinn áframhaldandi gildi EES-samningsins hér á landi? Styður Sjálfstæðisflokkurinn ríkisstjórn sem hann á sæti í sem leggur einmitt mikla áherslu á vandaða framkvæmd EES-samningsins?“

Bjarni Benediktsson svaraði:

„Auðvitað styðjum við EES-samninginn, aðild okkar að honum og betri framkvæmd hans. […] Það sem ég á svo erfitt með að skilja er áhugi hv. þingmanns og sumra hér á þinginu á að komast undir boðvald samevrópskra stofnana. Hvað í ósköpunum liggur mönnum á að komast undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu á okkar einangraða landi með okkar eigið raforkukerfi? Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á því að komast undir boðvald þessara stofnana? (ÞorstV: Við erum þegar undir því.) Ja, vegna þess að við erum þegar undir því? Eru það rök, hæstv. forseti? Eru það rök að þar sem Evrópusambandinu hefur þegar tekist að koma Íslandi undir einhverja samevrópska stofnun sé ástæða til að ganga lengra?“

Frammíkall Þorsteins Víglundssonar er rangt. Ísland sætir engu boðvaldi frá ACER og gerði raunar ekki heldur yrði lagður sæstrengur, sem er enn ólíklegra nú en fyrir áratug eða tveimur. Þorsteinn hafði engin rök fyrir máli sínu, hann gekk erinda flokks síns, Viðreisnar, sem vill Ísland undir ACER með aðild að ESB.

Þetta svar Bjarna Benediktssonar hafa andstæðingar þriðja orkupakkans afflutt. Þeir láta þess jafnan ógetið að hann á þarna orðastað við Þorstein Víglundsson, þingmann Viðreisnar, sem vill fara inn í ESB og undir boðvald stofnana sambandsins. Bjarni spyr hann ítrekað: Hvers vegna í ósköpunum? Svarið sem Þorsteinn gefur er rangt en endurspeglar óskhyggju hans.

V.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hefur sem iðnaðarráðherra brugðist við fullyrðingum þeirra sem óttast að Ísland sé á leið undir forræði fagstofnunar ESB á sviði orkumála, ACER, með því að flytja frumvarp sem reisir þröskuld gagnvart ósk um að ráðast í framkvæmdir vegna sæstrengs. Hún vill að til þess þurfi heimild alþingis og hefur Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kynnt hugmynd um að ákvörðun um sæstreng yrði lögð fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu.

Þetta eru nýmæli vegna sæstrengs en hugmyndir um hann hafa verið til umræðu í að minnsta kosti 40 ár. Til dæmis ræddi frú Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands, um sæstreng við Margaret Thatcher, forsætisráðherra Bretlands, þegar þær hittust í Downing-stræti í London í febrúar 1982.

Ólöf Skaftadóttir, ritstjóri Fréttablaðsins, ræddi við Þórdísi Kolbrúnu iðnaðarráðherra og birtist samtal þeirra í blaðinu laugardaginn 13. júlí. Ráðherrann sagði:

„Það er augljóst að það er deilt um orkupakkann. Ég hef lagt mig fram um að koma upplýsingum á framfæri. Ég hef átt hreinskiptin samtöl við alls konar Sjálfstæðisfólk og aðra um orkupakkann. Við höfum lagt í mikla vinnu, breytt málinu og brugðist við áhyggjum. Það að vera stjórnmálamaður snýst ekki um að hlusta á skoðanakannanir eða beygja sig fyrir þeim eða þegar einhver skrifar um mál með ákveðnum hætti heldur að hlusta á sína sannfæringu og klára mál, þó þau séu erfið. Ég fór ekki í pólitík af því að ég héldi að það væri auðvelt. Þriðji orkupakkinn er hluti af öðru, stærra samhengi. Hluti af því að standa vörð um EES. […]

Málið snýst um réttindi neytenda og upplýsingaskyldu orkufyrirtækja sem eru að mestu opinber. Umræðan hefur að miklu leyti snúist um sæstreng. Alveg óháð þriðja orkupakkanum væri hægt að leggja sæstreng. Það er jafn erfitt að gera það núna og áður. En vegna umræðunnar höfum við girt fyrir það að hægt sé að leggja sæstreng með ákvörðun eins ráðherra einhvern tíma í framtíðinni. Nú er það allt Alþingi sem þarf að samþykkja slíka framkvæmd og opnað hefur verið á þjóðaratkvæðagreiðslu um framkvæmdina ef einhvern tímann kæmi til þess að slík framkvæmd kæmist á dagskrá. Því hún er ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar.[…]

Ég er þeirrar skoðunar að EES-samningurinn sé einn okkar mikilvægasti fjölþjóðasamningur. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem leiddi okkur inn í það samstarf undir forsæti Davíðs Oddssonar. Það var heillaskref.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er þeirrar skoðunar að EES-samningurinn sé mikilvægur. Flokkurinn byggir mjög á alþjóðasamstarfi. Það er svo alveg eðlilegt að ræða stöðu samningsins og stöðu okkar innan hans. Það er ekki bannað að ræða um EES, hvar á að stíga niður fæti og hvernig hann þróast.“

Þarna fer ekkert á milli mála. Að halda því fram að tveir helstu forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafi ekki rökstudda stefnu í málefnum sem varða EES almennt og þriðja orkupakkann sérstaklega er alrangt.

Þegar sótt er að þeim og öðrum vegna þessa þáttar EES-samstarfsins er það gert á fölskum forsendum fullyrðinga um valdaframsal sem er ekki hluti málsins. Það hefur enginn bent á í hverju þetta framsal er fólgið.

Talið um það er einfaldlega hluti upplýsingafölsunar sem gripið er til, líklega mest vegna óvildar í garð ESB og einnig til að grafa undan forystu Sjálfstæðisflokksins og þar með veikja trú á flokknum.

VI.

Rétt er að minna á að önnur mun stærri mál hafa verið á borði ríkisstjórnar og þingmanna undanfarna mánuði en þriðji orkupakkinn. Fyrirferð hans ræðst ekki af þýðingu hans fyrir afkomu eða velgengni þjóðarbúsins heldur af því að unnt er að æsa sig gegn honum í ábyrgðarlausum tilgangi.

Ríkisstjórnin stuðlaði að friði á vinnumarkaði og brást við loðnubresti og gjaldþroti flugfélagsins WOW á fumlausan hátt. Hún hefur staðið undir væntingum stuðningsmanna sinna sem afl sátta og stöðugleika.