Lilja um fjölmiðlafrumvarpið: Ég ætla mér að koma þessu í gegn

Lilja D. Alfreðsdóttir. (Mynd: HAG)

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti síðastliðinn vetur drög að frumvarpi sem felur í sér opinberan stuðning við einkarekna fjölmiðla. Frumvarpið er enn í vinnslu enda er ágreiningur um það meðal stjórnarliða – og þá sérstaklega meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

Um þetta er meðal annars fjallað í ítarlegu viðtali við Lilju í nýjasta hefti Þjóðmála og verður sá kafli birtur hér. Rétt er að taka fram að forveri Lilju í starfi, Illugi Gunnarsson, skipaði nefnd sem ætlað var að skila tillögum um bætt rekstrarumhverfi fjölmiðla í lok árs 2016 og sú nefnd skilaði tillögum sínum í lok janúar 2018. Þá hafði Lilja tekið við embætti ráðherra.

„Í þessu ferli hefur verið horft til Norðurlandanna og sérstaklega til Danmerkur. Þar er stuðningur við einkarekna fjölmiðla sem er sambærilegur þeim stuðningi sem ég hef verið að boða,“ segir Lilja.

„Við sjáum líka að þar er danska ríkisútvarpið ekki á auglýsingamarkaði. Ég hef stutt þá stefnu og lagt til að Ríkisútvarpið verði tekið af auglýsingamarkaði en það hefur ekki verið pólitískur stuðningur við það fram til þessa. Ég ætla hins vegar að kanna það til hlítar í haust. Það er þó ljóst að við förum ekki þá leið nema gætt verði að tekjum Ríkisútvarpsins og mismunurinn brúaður.“

Ríkisútvarpið fær rúma fjóra milljarða árlega með þvinguðu útvarpsgjaldi og aðra tvo í auglýsingatekjur. Er ekki hægt að reka öflugt fjölmiðlafyrirtæki fyrir fjóra milljarða á ári?

„Ég mun ekki styðja þá stefnu að Ríkisútvarpið veikist, fari svo að ákveðið verði að það af auglýsingamarkaði. Ríkisútvarpið hefur stutt vel við íslenska menningu og tungu. Traust til RÚV er mikið og hlustun á Rás 1 hefur vaxið,“ segir Lilja.

„Eins og ég hef áður sagt erum við stödd í upplýsinga-, samskipta- og tæknibyltingu. Samhliða því erum við að horfa upp á allt aðra tekjuafkomu fjölmiðla en áður var. Frakkar hafa til dæmis ákveðið að skattleggja Facebook, Google og fleiri aðila sem taka til sín auglýsingatekjur. Tekjuafkoma fjölmiðla, ekki bara á Íslandi heldur úti um allan heim, er gjörbreytt samhliða því hvernig við neytum þeirra. Efnið er sniðið að okkur sjálfum og áhugamálum okkar og það heyrir til undantekninga að neyta fjölmiðlaefnis í línulegri dagskrá. Auglýsingar taka mið af þessu, við þurfum ekki annað en að opna símann okkar til að sjá íslenskar auglýsingar á Google. Það skiptir einnig máli í þessu samhengi að við viljum standa vörð um íslenskuna og RÚV er mikilvægur aðili hvað það varðar.“

En Stöð 2, Hringbraut, Síminn og aðrir miðlar framleiða ekki minna af íslensku efni. Er þá ástæða til að halda sérstaklega upp á ríkisfjölmiðilinn?

„Sumir þessara aðila sem þú nefnir selja áskriftir og allir hafa, og munu áfram hafa, aðgang að auglýsingamarkaði. Við sjáum að auglýsendur eru helst að leitast eftir því að auglýsa í kringum íslenskt efni enda er það gjarnan vinsælt,“ segir Lilja.

Hún ítrekar að á Norðurlöndum séu einkareknir fjölmiðlar styrktir með fjölbreyttum hætti og að hægt sé að sækja mörg fordæmi þaðan. Helsta málið sé að koma sér saman um hvernig best sé að standa að því.

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið duglegur að gagnrýna frumvarpið, en það tekur þó mið af því stuðningskerfi sem fjármála- og efnahagsráðherra hefur verið að innleiða á síðustu árum. Það er dálítil þversögn í þessu,“ segir Lilja og brosir.

„Það var ekki vilji til þess að fara í aðgerðir á borð við það að afnema virðisaukaskatt, því sú aðgerð nær ekki yfir fríblöð og annað slíkt og gagnast því ekki öllum. Við vitum þó að þær aðgerðir sem hafa verið boðaðar og það frumvarp sem liggur fyrir skiptir héraðsmiðlana mjög miklu máli. Þeir eru ekki minna mikilvægir en miðlar á höfuðborgarsvæðinu. Mikilvægast er þó að Íslendingar hafi aðgang að íslensku efni, íslenskri umfjöllun um málefni líðandi stundar og svo framvegis, og þess vegna er mikilvægt að styðja einkarekna miðla. Þá er um leið mikilvægt að eignarhald á fjölmiðlum sé gagnsætt. Þannig að það er að mörgu að huga í þessu, en ég ætla mér að koma þessu í gegn.“

Í hvaða mynd?

„Sjálfstæðisflokkurinn og VG hafa einnig komið að þessu frumvarpi. Þegar ég mæli fyrir frumvarpinu á þingi geri ég ráð fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn standi með sínum eigin tillögum en annars á þetta eftir að koma í ljós,“ segir Lilja.

Telur þú að Sjálfstæðisflokkurinn hafi vilja til þess að taka RÚV af auglýsingamarkaði?

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur stýrt þessu ráðuneyti lengi og ekki lagt upp í þá vegferð fram til þessa. Ég held að það myndi hjálpa til í stóra samhenginu og við verðum að taka mið af þeirri upplýsinga- og samskiptabyltingu sem við erum stödd í,“ segir Lilja.

Nánar er rætt við Lilju í nýjasta hefti Þjóðmála. Þar er meðal annars fjallað um ríkisstjórnarsamstarfið, þann árangur sem náðst hefur í efnahagsmálum á undanförnum árum, evruna og stöðu Íslands í Evrópusamstarfinu og fleira.

Viðtalið birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.