Auður eins er ekki skortur annars

Bandaríkjamaðurinn Bill Gates hefur hagnast óheyrilega við þróun og sölu á tölvustýrikerfi, sem bætt hefur líf almennings út um allan heim. Hann hefur ekki skapað auðæfi sín með því að taka þau frá öðrum. (Mynd: Wikimedia).

Bresku samtökin Oxfam hafa á liðnum árum birt skýrslu um meinta misskiptingu auðs í heiminum. Skýrslan hefur vakið athygli bæði stjórnmálamanna og fjölmiðla. Það er í sjálfu sér eðlilegt hvað fjölmiðla varðar, enda er hún full af yfirlýsingum og fullyrðingum (sem hvorugar standast þó alla skoðun).

Hér á landi hampa fulltrúar vinstriflokkanna skýrslunni ár hvert. Þeir telja að skýrslan ýti undir rök þeirra fyrir hærri sköttum og auknum ríkisafskiptum. Það er meðal annars af þessari ástæðu sem vinstrimenn hafa á liðnum árum frekar talað um eignaójöfnuð en tekjuójöfnuð. Allar viðurkenndar hagtölur sýna að tekjuójöfnuður hér á landi er með því minnsta sem þekkist, þá hentar betur að tala um eignaójöfnuð til að benda á mögulegt óréttlæti heimsins.

Þegar skýrslan kom út í byrjun árs 2019 var áhersla Oxfam helst á tvennt; annars vegar að aðeins átta einstaklingar ættu jafnmikið af eignum og allur fátækari helmingur íbúa á jörðinni og hins vegar að ríkasta 1% jarðarbúa ætti meira en hin 99% samanlagt. Þetta eru stórar fullyrðingar sem settar eru fram með nokkuð einföldum hætti. Með enn einfaldari hætti er það síðan matreitt ofan í almenning að svona þurfi þetta ekki að vera. Þessir aðilar halda því fram, leynt og ljóst, að hægt sé að minnka hlut þeirra efnameiri og færa þeim sem minna hafa – þó alltaf í gegnum ríkisvaldið.

Að öllu óbreyttu verða fluttar sambærilegar fréttir í byrjun árs 2020, skrifaðir verða langir leiðarar á miðla sem gera út á málstað vinstriflokkanna og væntanlega munu leiðtogar verkalýðsfélaganna ekki láta sitt eftir liggja í málefnalegri umræðu um eignaójöfnuðinn. Þetta minnir á kvikmyndina Groundhog day.

Að stækka kökuna

Aðferðafræði Oxfam er gagnrýnisverð. Eftir útgáfu síðustu skýrslu benti dálkahöfundurinn Óðinn í Viðskiptablaðinu réttilega á það að ungur námsmaður í Bandaríkjunum er skv. skýrsluhöfundum Oxfam talinn fátækari en kotbóndi í Kína. Það er vegna þess að bandaríski námsmaðurinn skuldar ýmist námslán eða húsnæðislán (jafnvel hvort tveggja) en hefur ekki náð að mynda sér eign á móti. Möguleikar hans til hagsældar eru þó mun meiri en kínverska kotbóndans, það á að vera öllum ljóst.

Óðinn benti líka á að þeir átta einstaklingar sem fjallað var um í skýrslunni hafa allir hagnast á því að bjóða almenningi vöru eða þjónustu sem gerir líf fólks betra. Án þess að fjalla sérstaklega um hvern og einn er hægt að taka undir með Óðni um að velgengni þeirra hefur ekki verið öðrum til trafala.

Skýrsla Oxfam einblínir sem fyrr segir á hreina eignastöðu ákveðinna hópa og meinta misskiptingu auðæfa í því samhengi. Lítið fer fyrir umræðu eða áherslu á það hversu mikið fátækt hefur dregist saman í heiminum, sem þó er staðreynd. Þess í stað er auðæfum lítils hóps jarðarbúa varpað upp sem sérstöku vandamáli sem þurfi að leysa – og lausnir Oxfam fela í stuttu máli í sér að þróuð ríki hverfi frá nútímamarkaðshagkerfi.

Í meginatriðum eru tvær leiðir til að takast á við fátækt í heiminum. Í daglegu tali er gjarnan talað um að stækka kökuna eða tekist er á um það hvernig eigi að skipta henni jafnt. Þeir sem vilja stækka kökuna leggja áherslu á hagvöxt sem er til þess fallinn að bæta hag allra, ríkra og fátækra, burtséð frá áhyggjum af því hvort og þá hversu mikið bil er á milli þeirra.

Síðan eru þeir sem vilja skipta kökunni jafnt niður á alla. Þeir sem aðhyllast þá kenningu telja að auður heimsins sé sá sem hann er í dag og verði ekki aukinn frekar. Á meðan sumir hafi meira á milli handanna hafi aðrir þannig minna, stundum er talað um að hinir ríku verði ríkari en þeir fátæku verði fátækari. Eina lausnin við því sé að færa auðinn frá hinum ríku til hinna fátækari. Það verður auðvitað aðeins gert með valdi en það er vissulega hægt.

Ef áhyggjur Oxfam, sem og þeirra sem hafa dálæti á skýrslu samtakanna, snúast raunverulega um áhyggjur af fátækt í heiminum ættu þessir aðilar að leggja áherslu á aukinn hagvöxt þannig að hægt sé að stækka kökuna eins hratt og eins mikið og mögulegt er. Aðeins þannig verður hagur jarðarbúa bættur. Gallinn er bara sá að áhyggjur Oxfam snúast ekki um fátækt.

200 ára hagsæld að baki

Í stað þess að einblína á leiðir sem auka hagvöxt á heimsvísu virðast skýrsluhöfundar Oxfam haldnir þeirri þráhyggju að frekar þurfi að skipta auðæfum heimsins niður. Kakan stækkar ekki á meðan og eina leiðin til að skipta auðæfum heimsins er sem fyrr segir að gera það með valdi. Sú aðferð hefur hvergi reynst vel í sögunni og leiðir þvert á móti af sér kapphlaup á botninn, þar sem allir eru jafnari á marga vegu – allir yrðu að lokum jafn fátækir, jafn óhamingjusamir og jafn settir gagnvart þeim hagvexti sem aldrei varð. Það er nákvæmlega það sem gerðist í Venesúela.

Hagsæld síðustu 200 ára hefur verið keyrð áfram af frjálsu markaðshagkerfi, kapítalisma. Hið frjálsa markaðshagkerfi hefur ýtt undir frjáls viðskipti, aukin alþjóðatengsl, aukna menntun, jafnrétti, nýsköpun og tækniþróun, framfarir í heilbrigðismálum og þannig mætti áfram telja. Aldrei fyrr í sögunni hefur mannkynið haft það betra en í dag. Þegar iðnbyltingin og fyrsta frjálsa markaðsbyltingin hófust upp úr 1820 voru um 84 prósent íbúa alls heimsins undir nútímalegri skilgreiningu á fátæktarmörkum (að raungildi). Þeir voru, á þeim tíma, dæmdir til að lifa máttlausu, grimmu og stuttu lífi.

Þó svo að þessi jákvæða þróun í mannkynssögunni hafi byrjað fyrir um 200 árum hefur hún aldrei verið hraðari en síðustu 30 ár. Árið 1990 var meira en þriðjungur heimsins enn undir fátæktarmörkum (þénaði minna en 1,9 bandaríkjadali á dag). Í dag er innan við 10% mannkyns undir þeim mörkum og á síðustu 30 árum hafa um 1,2 milljarðar manna brotist úr fátækt. Það vegur vissulega þungt að mestu framfarirnar hafa orðið í Kína og á Indlandi, sem saman telja um þriðjung mannkynsins.

Indland og Kína verða seint talin frjálslynd ríki og hagkerfi þeirra eru ekki frjáls, í það minnsta eins og þau eru skilgreind á Vesturlöndum. Þrátt fyrir það hafa þau stigið stór skref í rétta átt, með góðum árangri í efnahagslegu tilliti; lækkað skatta og tolla, afnumið reglugerðir, hleypt inn erlendri fjárfestingu og einkavætt ríkisfyrirtæki. Frá iðnbyltingunni og síðar með auknum alþjóðaviðskiptum hefur ríkjum þar sem stjórnvöld hafa minnkað hindranir á atvinnulífið, staðið vörð um eignarréttinn og lækkað tolla almennt vegnað vel. Hagvöxtur og velmegun ráðast síðan af því hversu frjáls þau eru.

Það er þó ekki þar með sagt að það sé engin fátækt í heiminum. Hagvöxtur þróaðra ríkja leysir einn og sér ekki þann vanda. Það þarf að brjóta á bak aftur þær viðskiptahindranir sem til staðar eru í heiminum og hvetja ríki heims til að taka upp frjáls markaðshagkerfi. Enn eru þó ýmsar áskoranir og hindranir við frekari framþróun, allt frá spilltum stjórnvöldum víða um heim sem hirða til sín fjármagn úr alþjóðakerfinu og setja í eigin vasa til þeirra tollamúra sem Evrópusambandið hefur reist á liðnum árum.

Hlaðborð hugmynda um skattahækkanir

Hér á landi sjáum við umræðuna þróast í sömu átt. Þess má vænta að Oxfam gefi út nýja skýrslu um mánaðamótin janúar/febrúar 2020 og þá förum við aftur í Groundhog day. Fullir af réttlátri reiði munu fulltrúar vinstriflokkanna hefja upp raust sína um óréttlætið, ekki bara í heiminum heldur hér á Íslandi. Þess verður krafist að hinir ríkari greiði meira til samfélagsins eins og það er gjarnan orðað – sem er snyrtilegt orðalag yfir hærri skatta og stærra ríkisvald.

Sjávarútvegurinn liggur alltaf vel við höggi þegar þessi umræða fer af stað. Einhverjir munu benda á að veiðigjöldin þurfi að vera hærri og þeir sem ganga lengra munu tala um að sjávarútvegsfyrirtækin (og eigendur þeirra) hafi hagnast á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar – með öðrum orðum; grætt á kostnað okkar hinna.

Umræðunni er alla jafna beint í þá átt að ríkið þurfi að taka meira til sín og þannig megi bæta hag þeirra sem minna hafa á milli handanna.

Þá er vert að hafa í huga að síðastliðin tíu ár hafa tekjur ríkisins aukist að meðaltali um 43 milljarða króna á ári (ef undan er skilið stöðugleikaframlagið 2016). Árið 2009 námu tekjur ríkisins um 440 milljörðum króna en árið 2018 námu þær um 828 milljörðum króna. Það stefnir í að tekjur ríkisins verði enn hærri á þessu ári og aftur á því næsta.

Hér er að vísu miðað við krónutölur en ekki hlutfall af vergri landsframleiðslu. Hún hefur, sem betur fer, aukist til muna sem gerir það að verkum að það er enginn skortur á því fjármagni sem ríkið tekur til sín. Það hvort sjávarútvegurinn verði skattlagður um 10-15 milljarða til viðbótar því sem nú er breytir ekki öllu í stóra samhenginu. Hið sama má segja um aðrar frjóar hugmyndir vinstrimanna um auknar tekjur ríkissjóðs. Íslenskir stjórnmálamenn hafa sagt opinberlega að hugmyndir um aukna skattheimtu séu eins og hlaðborð hugmynda; hægt sé að hækka skatta á einstaka greinar og þætti samfélagsins, búa til nýja skatta og þannig mætti áfram telja. Það er í sjálfu sér rétt; þrátt fyrir að skattheimta á Íslandi sé í hærra lagi er ekkert nema skynsemin sem stoppar stjórnmálamenn í að hækka skatta enn frekar.

Sagan kennir okkur þó að það er í raun alveg sama hversu miklar tekjur ríkisins eru; ríkið finnur alltaf jafn vondar leiðir til að eyða þeim peningum. Hér væri meðal annars hægt að skrifa langan texta um það að jafnvel þó svo að fjárframlög til hins íslenska ríkisrekna heilbrigðiskerfis hafi stóraukist með hverju árinu þá er það enn ekki nóg og nær daglega fáum við fréttir um rekstrarvandræði ríkisspítalans. Enginn þorir að spyrja upphátt hvort eitthvað kunni að vera að rekstrinum og kerfinu sjálfu.

Vandamál sem er ekki vandamál

Það er hægt að orða þetta með öðrum hætti. Ef ætlunin er að takmarka auð hinna ríku er það hægt með því að skattleggja þá eða taka eigur þeirra með öðrum hætti. Hluti þeirra mun flytja fjármagn sitt úr landi, flytja sjálfur úr landi eða koma peningum sínum og eignum undan með öðrum hætti. Það er hægt að skattleggja sjávarútveginn, tryggingafyrirtæki, bankana, ferðaþjónustu, framleiðslufyrirtækin o.s.frv. Ekkert af þessu mun þó bæta hag þeirra sem minna hafa á milli handanna. Þótt það hljómi vel í eyrum einhverra að hækka skatta til að setja í ákveðin verkefni á vegum ríkisins þá er það sjaldnast raunin. Það sem mun hins vegar gerast er að fjárfesting mun minnka, fyrirtæki munu segja upp starfsfólki, kaupmáttur mun dragast saman og einkaneysla minnka. En mögulega fengi Ísland sérstakan kafla í skýrslu Oxfam þar sem þessar aðgerðir yrðu bornar lofi.

Þetta er nefnt í samhengi við skýrslu Oxfam og orðræðu þeirra sem sjá hana sem heilagt rit, til að sýna fram á að vandamálið sem Oxfam varpar fram er í raun ekki vandamál. Auður eins er ekki skortur annars. Það að Bill Gates hafi hagnast óheyrilega við þróun og sölu á tölvustýrikerfi þýðir ekki að hann hafi komist yfir auðæfi sem almenningur í Bandaríkjunum (eða þess vegna út um allan heim) hefði annars komist yfir.

Staða jarðarbúa er með öðrum orðum ekki verri – það mætti öllu heldur færa rök fyrir því að hún sé betri því þróun á bæði bæði Windows- og Apple-stýrikerfunum varð til þess að verð á tölvum stórlækkaði og þær má finna á hverju heimili í dag.

Vandamálið snýr frekar að því hvernig hægt er að bæta hag almennings. Það verkefni mun hið frjálsa markaðshagkerfi leysa, fái það að starfa í friði fyrir stjórnvöldum.

Höfundur er ritstjóri Þjóðmála.

Greinin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 4. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.