Kalda hagkerfið borgar ekki lengi fyrir rekstur ríkisins

Ríkisstarfsmenn eru enn í skjóli fyrir áhrifum veirunnar, og verða að öllu óbreyttu áfram. Þeim sem borga launin þeirra fer þó hratt fækkandi (Mynd: VB/HAG).

Ríkisstjórnin er ekki í öfundsverðri stöðu þegar kemur að því að eiga við heimsfaraldurinn sem nú geisar. Eitt helsta hlutverk ríkisins er að tryggja öryggi borgaranna og þegar að steðjar vágestur, hvort sem það er her eða faraldur, ber því að gera það sem hægt er til að tryggja það öryggi.

Það er þó ekki þar með sagt að ríkisvaldið hafi alveg frjálsar hendur í þeim tilgangi að tryggja öryggi. Við þurfum ekki að fara nema tæp 20 ár aftur í tímann til að sjá hvernig ríkisvaldið fer fram úr sér í nafni öryggis. Eftir hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum í september 2001 gekk bandaríska ríkið mjög langt í því að „tryggja öryggi“ borgaranna.

Það sama gerðu ríkisstjórnir í Evrópu. Öryggi á flugvöllum var hert til muna, af eðlilegum ástæðum, og flestar af þeim ráðstöfunum sem þá var gripið til eru enn í gildi. Það er að mestu skiljanlegt; fólk vill vera öruggt þegar það flýgur og fullvisst um að ekki sé hægt að smygla vopnum eða sprengiefnum um borð í flugvélar.

Öryggi á flugvöllum var þó bara ein af mörgum ráðstöfunum. Næstu ár á eftir hófu ríkisstjórnir Vesturlanda gífurlega upplýsingaöflun um almenning, símar voru hleraðir, fylgst var með rafrænum samskiptum, fjármagnsflutningum og þannig mætti lengi áfram telja. Allt í nafni þess að tryggja öryggi almennings. Sá sem hreyfir mótmælum við þessari þróun þarf jafnvel að sitja undir ásökunum um að vera sama um öryggi fólks.

***

Að mörgu leyti eru uppi svipaðar aðstæður nú. Sóttvarnayfirvöld, sem eru sjálf að læra eitthvað nýtt um faraldurinn á hverjum degi, koma með tillögu um það hvernig bregðast skuli við. Yfirleitt fela þær tillögur í sér skerðingu á frelsi almennings. Stjórnmálamenn, sem ekki eru farsóttafræðingar, þurfa að taka ákvörðun um næstu skref og þá alltaf vitandi að líf fólks er að veði. Það ætlar enginn heilbrigðisráðherra að vera ábyrgur fyrir dauða fólks. Með einföldum hætti er hægt að segja að einfaldasta leiðin til að stoppa útbreiðslu faraldursins sé að loka alla inni um ákveðinn tíma og loka um leið landinu alveg.

Ríkisstjórnin hefur tekið erfiðar ákvarðanir, sem flestallar hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir hagkerfið. Þetta er nokkurs konar draumastaða sósíalistanna, að geta heft viðskipti og stöðvað eðlilegan framgang hagkerfisins. Það má þó ekki horfa framhjá því að það hefur líka afleiðingar. Það má búast við því að heimilisbókhaldið hjá öðrum en ríkisstarfsmönnum taki á sig skell þegar líða fer á veturinn og væntanlega verða jólin erfið hjá mörgum. Allt í nafni öryggis.

Það er búið að grípa til allra þessara aðgerða – án þess þó að ná tökum á faraldrinum. Síðan er eftir að mæla áhrifin á sálarlíf þjóðarinnar, mögulega fjölgun sjálfsvíga og aukið heimilisofbeldi og félagslega einangrun. Sá sem vogar sér að spyrja hvort þetta sé þess virði þarf að vera tilbúinn að taka við fúkyrðunum sem því fylgja – og auðvitað því að gert sé grín að viðkomandi í sjónvarpi ríkisins þegar frægir flissa saman á föstudagskvöldum.

***

Það er þó annað sem á eftir að koma betur í ljós þegar fram líða stundir. Það er sú gjá sem myndast á milli einkageirans og ríkisvaldsins. Ríkissjóður er vissulega að taka á sig mikið högg í núverandi ástandi, en í efnahagslegu tilliti höfðu ráðamenn lítið annað val en að dæla peningum út í hagkerfið (sem er reyndar í samræmi við kenningar Miltons Friedman). Atvinnuleysið hér á landi nálgast nú 10% en væri umtalsvert hærra ef ekki væri fyrir efnahagsaðgerðir ríkisins. Það hefði líka kostað ríkissjóð umtalsvert fjármagn, í ljósi færri skattgreiðenda, minni umsvifa í einkaneyslu o.s.frv.

Ríkisstarfsmenn eru þó enn í skjóli fyrir áhrifum veirunnar, og verða að öllu óbreyttu áfram. Það er enginn ríkisforstjóri sem liggur andvaka fyrir mánaðamót með áhyggjur af því hvort hann eigi fyrir launum og launatengdum gjöldum. Ríkið lætur eins og ekkert hafi í skorist. Neytendastofa heldur áfram að sekta bakarí fyrir að verðmerkja snúðana ekki nógu vel, Samkeppniseftirlitið svarar erindum seint og illa, allt er nokkurn veginn eins og það á að vera.

Þrátt fyrir að borgarfulltrúi Samfylkingarinnar hafi í upphafi faraldursins fagnað kólnandi hagkerfi er staðreyndin sú að kalda hagkerfið getur ekki haldið hinu opinbera kerfi uppi í óbreyttri mynd, þar með talið laununum hennar í borgarstjórn. Lokaðar hárgreiðslustofur og veitingastaðir sem selja ekki mat greiða engan virðisaukaskatt til ríkisins, engan staðgreiðsluskatt af launum og ekkert tryggingargjald. Fólk sem fær lítil eða engin laun verslar minna og minnkandi einkaneysla hefur sömu áhrif á allar verslanir landsins. Þetta er hringrás, kalda hagkerfið í raun, sem enginn ætti að fagna.

***

Í stuttu máli erum við búin að keyra hagkerfið niður en erum samt ekki að ná tökum á faraldrinum. Það verður að teljast ólíklegt að rýmkað verði á takmörkunum á næstunni; með hverju nýju smiti aukast líkurnar á því að gripið verði til harðari aðgerða í dag en í gær, sama hvað það kostar hagkerfið. Hagkerfið er þó ekkert annað en fólkið og fyrirtækin í landinu – sem enda á því að bera kostnaðinn, bæði fjárhagslega og félagslega. Einhver kynni að halda því fram að lækningin sé verri en sjúkdómurinn, en það má víst ekki segja það upphátt.

Rétt eins og fólk fékk nóg af viðbrögðum ríkisvaldsins í kjölfar hryðjuverkaárása fyrir 19 árum mun fólk fá nóg af aðgerðum ríkisins nú. Munurinn er samt sá að þráðurinn er mun styttri nú en hann var þá.

Á komandi kosningavetri mun enginn krefja embættismenn um svör við því hvernig hægt er að bæta heimilisbókhaldið heldur verður fókusinn á stjórnmálamenn. Þá þurfa þeir að hafa einhver svör önnur en þau að búa til fleiri opinbera starfsmenn.

Höfundur er ráðgjafi og ritstjóri Þjóðmála.

Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.