Heiðrún Lind Marteinsdóttir hefur starfað sem framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) í rúm fjögur ár. Í viðtali við Þjóðmál fer Heiðrún Lind yfir stöðu sjávarútvegsins hér á landi, samkeppnishæfni hans erlendis, orðræðu stjórnmálamanna um greinina, umræðu um afkomu hennar og áherslu á umhverfismál og nýsköpun. Þá ræðir hún einnig Samkeppniseftirlitið, en í fyrra starfi sínu hélt hún uppi málefnalegri gagnrýni á eftirlitið. Viðtalið hér birtist í hausthefti Þjóðmála og er hér birt í heild sinni.
—
Sjávarútvegsfyrirtæki hafa eins og önnur fyrirtæki orðið fyrir áhrifum vegna kórónuveirufaraldursins. Á öllum helstu sölumörkuðum íslenskra sjávarafurða hefur vinnustöðum, veitingastöðum og hótelum verið lokað og því hefur verið erfiðara um vik að selja ferskar sjávarafurðir.
„Helsta áhersla íslensks sjávarútvegs á liðnum árum hefur verið á ferskfisk sem selst á hæst borgandi markaði. Þegar svona ástand kemur upp hefur það sérstaklega áhrif á þennan markað,“ segir Heiðrún Lind.
„Íslenskur sjávarútvegur hefur nokkurn sveigjanleika, þannig að sumir geta með skömmum fyrirvara breytt yfir í aðrar afurðir. Það gerðist strax í mars, en þá jókst sala á frystum afurðum í stórmörkuðum af því að fólk var að elda meira heima. Við gátum brugðist mjög fljótt við því og komið sterk inn á þann markað. Mörg fyrirtæki hafa þó nánast einskorðað sig við framleiðslu á ferskum afurðum. Þeir aðilar eiga ekki eins hægt um vik að skipta yfir, hafa ekki frystigetuna, eru ef til vill ekki með viðskiptasamböndin og annað þess háttar. Það geta því ekki allir skipt á milli afurða með svo auðveldum hætti, svo til á einni nóttu. Það leiðir til þess að menn draga úr veiðum og þeir sem hafa möguleika á að frysta gera það. Það er því til meira af birgðum en áður. Sveigjanleikinn hefur þó verið einn af lykilþáttum þess að við gátum lagað okkur að þessu breytta og ófyrirséða ástandi sem faraldurinn skapaði.“
Heiðrún Lind segir þó að heilt yfir sé staðan í sjávarútvegi góð.
„Blessunarlega voru búin að vera góð ár; frá hruni hefur almennt gengið vel þó að erfið ár hafi komið inn á milli. Sveiflur í gengi krónunnar eru augljós þáttur, verkfall í 11 vikur veturinn 2016-17, loðnubrestur, viðskiptabann í Rússlandi, efnahagsþrengingar í Nígeríu og aðrir þættir hafa haft neikvæð áhrif,“ segir Heiðrún Lind.
„Sjávarútvegurinn var of skuldsettur í hruninu en tíminn síðan þá hefur verið nýttur til að greiða niður skuldir og fjárfesta, sem var nauðsynlegt. Flotinn var orðinn of gamall og vinnslur þurftu að tæknivæðast. Nú þegar sverfir að, verð fer lækkandi, viðskiptavinir hverfa og markaðir lokast, erum við samt með atvinnugrein sem mun standa af sér storminn. Það má þó ekki gleyma því að það eru mjög margir aðilar í sjávarútvegi á Íslandi. Það eru um 130 fyrirtæki í SFS og um 1.000 aðilar sem greiða veiðigjald hér á landi. Þeir eru jafn misjafnlega staddir og þeir eru margir. Þannig að þrátt fyrir að sjávarútvegurinn heilt yfir standi vel er staðan misjöfn á milli fyrirtækja; það mun ekki öllum reiða vel af í gegnum þetta tímabil.“
Þú talaðir um sveigjanleika hér í upphafi. Hvernig verður sá sveigjanleiki til í sjávarútvegi?
„Hann verður meðal annars til með samþættingu veiða og vinnslu. Þannig er það markaðurinn sem ræður því hvað við erum að sækja í sjó nánast á hverjum einasta degi,“ segir Heiðrún Lind.
„Við getum hægt á veiðunum og í raun geymt botnfiskinn í sjónum þar til betur árar. Öll þessi lína þarf að spila saman. Til samanburðar má nefna að í Noregi er virðiskeðja veiða og vinnslu slitin. Þá fer sjómaðurinn út og veiðir af því að hann setur allan fisk, óháð markaðsaðstæðum, á fiskmarkað. Hann er ekki að hugsa um hvað neytandinn er að biðja um. Fiskur safnast þá upp í vinnslum og frystigeymslum og þannig getur orðið til ákveðið ójafnvægi og um leið verðmætatap.“
Að hámarka virði auðlindarinnar
Sjávarútvegur er í eðli sínu áhættusamur rekstur. Augljósasti áhættuþátturinn er ástand fiskistofna og fiskgengd, hér hefur verið minnst á gengissveiflur og telja mætti til fleiri þætti. Einn af þeim áhættuþáttum sem sjálfsagt er að telja til er pólitísk óvissa og það er óhætt að fullyrða að deilt sé um fiskveiðistjórnunarkerfið og gjaldtöku á sjávarútveg fyrir hverjar einustu kosningar hér á landi og eins á milli kosninga. Hér á sér stað umræða um sjávarútveginn nær daglega og það er því ekki úr vegi að spyrja Heiðrúnu Lind hvort hún sjái fyrir sér að einhvern tímann skapist sátt um það kerfi sem við búum við.
„Nýting náttúruauðlinda er í eðli sínu pólitískt mál. Það er því eðlilegt að um hana sé tekist, hvernig við nýtum hana og hvaða verðmæti við erum að skapa með nýtingu hennar,“ svarar hún að bragði.
„Við eigum ekki að láta okkur dreyma um það að við komumst að einhverri endanlegri sátt um það hvernig sjávarútvegur eigi að vera og hvaða verðmæti hann getur skapað. Þá tel ég fyrst að við séum komin í óefni, við eigum að skiptast á skoðunum og leita sífellt lausna til að gera enn meiri verðmæti úr þessari auðlind.“
Heiðrún Lind minnir á að oft sé talað um að ná þurfi sátt í sjávarútvegi. Hún segist geta tekið undir það og að það væri óskandi að hér ríkti sameiginlegur skilningur á því sem mestu máli skiptir, hvernig við hámörkum virði auðlindarinnar. Hún minnir á að ólíkt flestum öðrum þjóðum hafi Íslendingum tekist að búa til veruleg verðmæti úr sjávarauðlindinni.
„Það má vafalaust hafa mismunandi skoðanir á því hvað felst í verðmætum. Einhver gæti talið mestu verðmætin felast í því að vera með sem flest störf, annar gæti talið mestu verðmætin felast í því að tryggja að útgerðarfélög séu í hverjum einasta kaupstað á Íslandi og enn annar mælir verðmæti fyrst og síðast í skatttekjum. Allt eru þetta markmið í sjálfu sér,“ segir hún.
„Því má hins vegar ekki gleyma að sjálfbærni hefur verið lykilhugtak í sjávarútvegi og skýrt markmið frá því að lög um stjórn fiskveiða voru sett. Sjálfbærni krefst jafnvægis á milli þriggja þátta; umhverfis, hagkvæmni og samfélags. Of rík áhersla á einn þessara þátta umfram annan leiðir til þess að við stefnum þessari sjálfbærni í hættu. Stjórnmálin eiga það því miður til að einfalda hluti um of og einblína jafnvel of mikið á einn afmarkaðan þátt í sjálfbærni. Sjávarútvegur er viðkvæm og áhættusöm atvinnugrein. Einfaldar lausnir eru því sjaldnast til. Það væri því óskandi ef við gætum sammælst um að treysta enn frekar sjálfbærni sjávarútvegs. Þá væri úrlausnarefnið að finna bestu leiðir að því markmiði.“
Hún segir það ekki bara gilda um fyrirtækin heldur samfélagið í heild sinni.
„Þegar öllum ágreiningi er hins vegar vikið til hliðar er staðreyndin raunar sú að við erum með fiskveiðistjórnunarkerfi sem skapar verulegan samfélagslegan ábata, ekki bara í formi auðlindagjalds, heldur í formi vísindalegrar nálgunar á veiðar, öruggra starfa, afleiddra starfa, nýsköpunar og mikilla skatttekna, svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Heiðrún Lind.
„Sjávarútvegur er grunnatvinnuvegur. Það eru margföldunaráhrif í samfélaginu af sjávarútvegi. Þegar sjávarútvegur býr til einn milljarð í tekjur er talað um að þjóðfélagið eða aðrar atvinnugreinar búi til 2,5–3 milljarða. Augljósustu dæmin eru fyrirtæki á borð við Marel, Völku, Skagann 3X, Kerecis og Genis. Það sama á við um flugfélögin og skipafélögin sem flytja út afurðirnar. Allir þessir aðilar reiða sig á að við drögum hér fisk úr sjó, búum til verðmæti úr honum og seljum á erlendum mörkuðum. Það er þetta sem íslenska kerfið hefur sem fá önnur, ef einhver, kerfi annars staðar í heiminum hafa. Norðmönnum, sem eru stór þjóð í fiskveiðum og selja mun meira af fisk en við, hefur ekki tekist að búa til þessi miklu margföldunaráhrif.“
Fordæmi frá Færeyjum
Flestir eru væntanlega sammála um að sjávarútvegurinn þurfi að skapa verðmæti á fjölbreyttan hátt, til dæmis í formi fjármagns og starfa. Eins og við ræddum hér er sjávarútvegurinn þó eina greinin sem þarf að sitja undir stanslausri gagnrýni af hálfu stjórnmálamanna, ásökunum um að greiða ekki nóg til samfélagsins og hótunum um að innkalla aflaheimildir og skipta þeim upp á nýtt. Er það staða sem hægt er að búa við lengi?
„Ég hef verið í þessu starfi í rúm fjögur ár og stefnir í þriðju alþingiskosningarnar. Þar er alltaf rætt um þessa grundvallarþætti í kerfinu og hugmyndir um að brjóta kerfið upp. Það leiðir til þess að það er erfiðara um vik að horfa langt fram í tímann í sjávarútvegi og það er miður,“ segir Heiðrún Lind.
„Við höfum þó mjög nærtæk og nýleg fordæmi fyrir neikvæðum áhrif umbyltinga í fiskveiðistjórnunarkerfi. Árið 2007 gáfu Færeyingar það út að þeir ætluðu að innkalla allar aflaheimildir árið 2017 og bjóða þær út. Á þessu tíu ára tímabili í færeyskum sjávarútvegi kom ekki eitt nýtt skip inn í flotann. Það var engin fjárfesting í atvinnugreininni því að menn vissu ekki hvað myndi gerast árið 2017. Það ár fóru Færeyingar í uppboð en í dag hafa þeir horfið frá því. Þeim tókst ekki að skapa sáttina með uppboðunum. Uppboðin skiluðu í einhverjum tilvikum auknum tekjum til ríkissjóðs. Niðurstaðan var þó sú að stóru aðilarnir keyptu mest og það var engin nýliðun, sem var nú ein af meginástæðum þess að fara þessa uppboðsleið. Það hafa einnig verið rök þeirra sem hafa talað fyrir uppboðum hér á landi. Uppboð munu auka enn hraðar á samþjöppun og þeir stærstu verða stærri. Það er eiginlega augljóst. Sá hefur alltaf forskot sem hefur þekkingu og reynslu, tækin sem til þarf, markaðsaðganginn og fjármagnið umfram þann sem ætlar að koma nýr inn í greinina og fara að keppa á uppboðum. Væntingar um að nýir aðilar inn komi í atvinnugrein á forsendum uppboða eru tálsýn.“
Þá segir Heiðrún Lind að uppboðin í Færeyjum hafi einnig valdið vonbrigðum meðal sjómanna, sem fengu lægri laun þar sem aukið fjármagn fór í að greiða fyrir aflaheimildir á uppboðum.
„Ef menn vilja hafa svona kerfi verða þeir líka að gera sér grein fyrir því að það verður aukin samþjöppun. Það verða þeir öflugu sem geta keypt svona aflaheimildir og þeir sem eru veikari fyrir lifa það ekki af. Það mun einnig leiða til minni fjárfestinga, með tilheyrandi áhrifum á samkeppnishæfni,“ segir hún.
„Ef við viljum fara að innkalla allar aflaheimildir og úthluta þeim aftur á einhverjum 10-20 árum gætum við setið uppi með 6-10 stóra aðila í sjávarútvegi eftir áratug eða svo. Það verða í öllu falli ekki 130 félagsmenn í SFS – kannski verða þetta varla mikið fleiri aðilar en í byrjunarliði í fótbolta. Ég væri ekki hrifin af þeirri þróun og ég teldi hana síst af öllu styðja við samfélagslega þáttinn í sjálfbærninni. Þá finnst mér líka heiðarlegt að þeir sem tala fyrir uppboðsleið stígi fram og viðurkenni að þeir vilji sjá aukna samþjöppun í sjávarútvegi, með tilheyrandi röskun í byggðum landsins.“
Heiðrún Lind minnir þó á að auðvitað séu það stjórnvöld, sem vörsluaðili þessarar sameiginlegu auðlindar þjóðarinnar, sem ákveði það hvers konar fiskveiðistjórnunarkerfi við búum við. Lykilspurningin ætti í grunninn alltaf að vera hvernig við getum hámarkað virði auðlindarinnar.
„Flestir átta sig á því að fiskveiðistjórnunarkerfið er að virka vel og það er ekki deilt jafn mikið um það og áður. Deilurnar nú snúa frekar að því hvað er greitt fyrir aðganginn að auðlindinni og hvaða aðferð er heppilegust í þeirri skattlagningu,“ segir hún.
„Kerfið og gjaldtakan eru þó ekki alfarið sjálfstæðir þættir. Þegar fólk segir að fiskveiðistjórnunarkerfið sé gott en að við ættum samt að innkalla allar aflaheimildir er í raun verið að vega að grundvallarþáttum í kerfinu. Varanleiki og öryggi aflahlutdeilda og frjálst framsal aflaheimilda eru einmitt lykilþættir í þeirri verðmætasköpun sem hefur orðið. Með innköllun aflaheimilda er þá vegið að þessari verðmætasköpun. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga og það verður að huga vel að mögulegum áhrifum einstakra breytinga sem lagðar eru til. Sjávarafurðir eru 40-50% af öllum vöruútflutningi okkar Íslendinga. Það er ekki skynsamlegt að ráðast í afdrifaríkar breytingar í tilraunaskyni. Öll skref þarf að ígrunda vel.“
Fjármagnið leitar ekki í sjávarútveg
Nú eru tæp 40 ár frá því að fiskveiðistjórnunarkerfið var tekið upp og tæp 30 ár frá því að aflaheimildir urðu framseljanlegar. Það er að koma upp önnur kynslóð sem hefur þá hugmynd að hið opinbera sé að verða af miklum tekjum sem eigendur útgerðanna setji í eigin vasa. Þetta sást greinilega í umræðum um nýja stjórnarskrá þar sem því var ítrekað haldið fram að „þjóðin“ gæti fengið meira í sinn hlut fyrir auðlindina. Hvernig ætla sjávarútvegsfyrirtækin að bregðast við þessum rangfærslum?
„Rökræðan er stundum mjög grunn og við höfum reynt að bæta það sem við getum bætt með því að veita upplýsingar um það sem er að gerast í greininni,“ segir Heiðrún Lind.
„Við settum til dæmis upp vefsíðuna radarinn.is, þar sem hægt er að nálgast tölur frá Hagstofunni, tölur af útflutningi og rekstrarreikningum, tölur sem eru óháðar okkur og tala sínu máli. Umræðan er oft á þann veg að það drjúpi smjör af hverju strái í sjávarútvegi, ofsagróði, milljarða arðgreiðslur, óeðlilegur vöxtur á eigið fé og þannig mætti áfram telja. Þetta er umræða sem við þurfum að taka og ég er alveg tilbúin til þess. Ef maður skoðar bara arðgreiðslurnar, til dæmis frá hruni til dagsins í dag, þá eru þær lægri úr sjávarútvegi en úr viðskiptahagkerfinu almennt sem hlutfall af hagnaði. Þær voru að meðaltali um 27% úr sjávarútvegi en 39% úr viðskiptahagkerfinu á tímabilinu 2010-2018. Vöxtur eigin fjár hefur verið meiri í viðskiptahagkerfinu en í sjávarútvegi á tímabilinu 2002-2018 og arðsemi eiginfjár í sjávarútvegi var 23% á tímabilinu 2012-2018. Á tímabilinu 2016-2018 var arðsemi eiginfjár í sjávarútvegi aðeins 14%. Í áhættusömum atvinnurekstri, eins og sjávarútvegi, er ljóst að 14% arðsemi eigin fjár er beinlínis óviðunandi og raunar er 23% arðsemi eigin fjár ekki til að lyfta brún yfir. Fjármagnsfrek og áhættusöm atvinnugrein þarf að hafa sterkan eiginfjárgrunn. Aðeins þannig getur hún staðið af sér öldudalina sem alltaf koma við og við.“
Það hefði þá ekki borgað sig að fjárfesta í sjávarútvegi í samanburði við aðrar greinar?
„Í raun ekki. Einhver kynni þó að segja að þetta væri í lagi því að þeir sem væru að nýta auðlindir þjóðarinnar ættu ekki að hagnast meira en aðrir í viðskiptalífinu. Það er sjónarmið en það verður þá að fylgja sögunni að þeir hinir sömu greiða sérstakt gjald fyrir aðganginn og auðlindagjald greiða engir aðrir á Íslandi,“ segir Heiðrún Lind.
„Svo verður líka að hugsa þetta út frá þeim forsendum að sjávarútvegurinn mun þurfa á fjármagni að halda eins og aðrir í viðskiptalífinu. Ef það er samkeppni um fjármagn og sjávarútvegur skilar minni arðsemi en aðrir munum við ekki fá fjármagn inn í sjávarútveginn. Það má taka Brim sem dæmi, sem er eina útgerðarfélagið sem er skráð á markað. Ef arðsemin í því fyrirtæki er alltaf lægri en arðsemi annarra fyrirtækja sem eru skráð á markað mun fjármagnið að líkindum leita annað. Hugsanlega er ég að stíga hér inn á hættusvæði, en það þarf að ræða allar hliðar máls, þar með talið fjármagnshliðina, og satt að segja hef ég ekki orðið vör við að íslenskir fagfjárfestar, til dæmis lífeyrissjóðir, hafi verið sérstaklega spenntir fyrir því að setja fjármagn inn í sjávarútveg.“
Er sú þróun byggð á viðskiptalegum forsendum?
„Ég ætla að leyfa fagfjárfestunum sjálfum að svara því. En ég held að þessi mikla áhætta sem er falin í sjávarútvegi, pólitísk átök um kerfið og minni arðsemi leiði fagfjárfesta hugsanlega að þeirri niðurstöðu að það sé heppilegra að setja fjármagn inn í fyrirtæki í öðrum starfsgreinum,“ segir Heiðrún Lind.
„Yfir 20 sjávarútvegsfyrirtæki voru skráð á markað í kringum aldamótin. Í einhverjum tilvikum fækkaði þeim vegna samruna, en aðrir þættir komu líka að því fyrirtækin voru afskráð. Meðal annars voru viðskipti með hlutabréfin lítil og áhugaleysi fjárfesta var augljóst.“
Þessu til stuðnings vísar Heiðrún Lind í greiningu Stefáns B. Gunnlaugssonar frá árinu 2004 þar sem nokkrar ástæður voru nefndar fyrir þessari þróun; arðsemin var lítil, verðmyndun var óskilvirk, félögin höfðu takmarkaða vaxtarmöguleika, arðgreiðslur voru lágar, stöðug óvissa var í lagaumhverfi og meira spennandi fjárfestingartækifæri voru í öðrum skráðum félögum.
„Þetta er mjög áhugavert og þarna eru sannanlega þættir sem við ættum að huga betur að þegar við hugum að því hvernig við ætlum að hámarka verðmæti auðlindarinnar,“ segir Heiðrún Lind.
„Það er ólíklegt að fjárfestar nái að margfalda fjárfestingu í sjávarútvegi til skamms tíma. Sjávarútvegur er ekki eins og að spila í lottói. Við erum að veiða í samræmi við vísindalega ráðgjöf og það er ólíklegt að það verði einhver sprenging í því magni sem leyfilegt verður að veiða. Tekjur munu því ekki margfaldast í einu vetfangi. Fagfjárfestar vita því að sjávarútvegsfyrirtæki verður ólíklega trompið í eignasafninu til skemmri tíma. Þess vegna þurfum við, eins og ég nefndi áður, að einblína á það hvernig við sköpum meiri verðmæti úr auðlindinni til lengri tíma. Þar ætti umræðan að vera og þar ættum við öll að vera í sama liði, sjávarútvegurinn, stjórnvöld og almenningur.“
Stærsta framlagið til loftslagsmála
Íslenskur sjávarútvegur er í fararbroddi þegar kemur að umhverfismálum. Spurð um þetta segir Heiðrún Lind að fiskveiðistjórnunarkerfið sé eitt stærsta framlag Íslendinga til loftslagsmála.
„Þegar því var komið á, í frumstæðri mynd, stóðum við frammi fyrir tvíþættu vandamáli; annars vegar ofveiði og hins vegar óhagkvæmni. Það þurfti að grípa til sársaukafullra aðgerða og hagræða,“ segir hún.
„Of stór fiskiskipafloti eyðir of mikilli olíu og er með of lítil aflaverðmæti á hvert skip. Og stór, hungraður floti mun þrýsta á aukna veiði. Með hagræðingu og samþjöppun hefur okkur því bæði tekist að stöðva kapphlaupið um fiskinn og minnka neikvæð áhrif okkar á umhverfið verulega. Við megum vera stolt af þessu mikilvæga framlagi okkar. Það að vera með varanlegan og framseljanlegan afnotarétt hefur leitt til verulegs hagræðis og það hvetur til fjárfestinga þegar greinin sjálf hefur langtímahugsun að leiðarljósi. Löggjafinn sá það eflaust ekki fyrir í upphafi, þegar hann kom á fiskveiðistjórnunarkerfi með varanlegum og framseljanlegum afnotarétti, að þetta yrði eitt stærsta framlag Íslands til loftslagsmála. Við erum raunar hvergi nærri hætt, en árið 2019 var minnsta notkun á olíu í sjávarútvegi frá upphafi mælinga. Við eigum að einbeita okkur að þessari vegferð.“
Nú gera neytendur auknar kröfur til uppruna matvæla og þess hvernig þau eru framleidd. Stöndum við vel að vígi hvað það varðar?
„Já, það er þessi sjálfbærnihugsun sem fiskveiðistjórnunarkerfið grundvallast á,“ segir Heiðrún Lind.
„Að við séum að veiða í samræmi við vísindalega ráðgjöf, að við séum með vel rekin fyrirtæki sem sýna samfélagslega ábyrgð, að við séum að skapa góð og örugg störf og greiða til samfélagsins. Allt eru þetta lykilþættir í þessari sjálfbærni. Það eru mjög fá lönd sem ná að tikka í þessi box og geta sagt með sannfærandi hætti að þau séu sjálfbær þegar kemur að sjávarútvegi.“
Mikilvægt að treysta samkeppnishæfni
Annar þáttur í sjávarútvegi er nýsköpun. Hér hafa verið nefnd fyrirtæki á borð við Marel, Völku, Skagann 3X, Kerecis og Genis sem öll urðu til vegna samlegðaráhrifa eða tengsla við sjávarútveginn. Spurð um þennan þátt segir Heiðrún Lind að nýsköpun í sjávarútvegi hafi verið nokkur en gæti verið meiri.
„Mér þykir mjög vænt um það að horfa á Íslandskortið og sjá að það eru 3-4 öflug og stór sjávarútvegsfyrirtæki í hverjum landshluta, auk annarra smærri. Og mér þykir ekki síður vænt um að sjá að í túnfætinum hjá þessum öflugu sjávarútvegsfyrirtækjum séu nýsköpunarfyrirtæki tengd sjávarútvegi. Þarna hefur auðlind vaxið af auðlind. Með þessum nýju fyrirtækjum koma nýir íbúar með sérhæfða menntun, sveitarfélögin fá auknar tekjur, fasteignaverð hækkar og lífið í bænum blómgast. Þarna verða þessi jákvæðu margföldunaráhrif frá sjávarútvegi svo auðsjáanleg,“ segir Heiðrún Lind.
„Það má taka fyrirtækið Völku sem dæmi. Valka var stofnuð 2003 en Frumtak og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins seldu sig út úr Völku árið 2018. Þetta er fimmtán ára ferli og fyrirtækið er í raun enn að slíta barnaskónum. Það tekur ekki bara 2-3 ár að setja á fót nýsköpunarfyrirtæki sem ætlað er að vaxa og dafna. Sjávarútvegurinn þarf að leggja fram þekkingu, vinnu og fjármagn í nýsköpun en það gerist ekki ef menn hafa ekki lengra skyggni en fram að næstu kosningum. Þegar greinin situr stöðugt undir orðræðu þess efnis að það standi til að innkalla aflaheimildir er ekki hægt að ætlast til þess að hún setji fókusinn á fjárfestingar til áratuga, til dæmis í nýsköpun.“
Við höfum rætt um verðmætasköpun, umhverfismál og nýsköpun. Hver eru helstu verkefni greinarinnar næstu 5–10 árin?
„Það er að treysta samkeppnishæfni atvinnugreinarinnar,“ svarar Heiðrún Lind að bragði.
„Margir líta á það sem tískuorð en við erum að keppa á stórum erlendum mörkuðum þar sem 98% af íslenskum afla fara. Þar erum að keppa við þjóðir sem veiða meiri fisk en við, eru með stærri fyrirtæki, eru með önnur kerfi, í flestum tilvikum með ríkisstyrktan sjávarútveg og með launahlutfall sem við sjáum aldrei hér og viljum ekki sjá hér. Þannig má sem dæmi nefna að pólsk fiskvinnsla er líklega með um þriðjung af launahlutfalli íslenskrar fiskvinnslu. Við þetta er íslenskur sjávarútvegur að keppa. Stóra myndin felst því í því að skapa rekstrarumhverfi hér heima, sem styður við aukna verðmætasköpun og þannig aukið framlag greinarinnar til hagvaxtar.“
Erum við á einhverju sviði með forskot á aðrar þjóðir?
„Við höfum skarað fram úr í hátækni. Við erum að búa til og þróa tæknina og erum í forystuhlutverki í því að auka gæði, bæta nýtingu, auka afköst í vinnslu og auka framleiðni. Í þessu kapphlaupi hefur íslenskur sjávarútvegur treyst samkeppnishæfni. Sem dæmi felst samkeppnishæfni kínverskrar fiskvinnslu í því að vera með gnægð vinnuafls á lágum launum. Ísland mun hvorki né vill keppa á þeim grundvelli. Við keppum með tæknina í forgrunni, þannig ætlum við að hlaupa hraðar en keppinautar okkar,“ segir Heiðrún Lind.
Miðlun upplýsinga felur ekki í sér sérhagsmunagæslu
Heiðrún Lind tók fyrir nokkrum árum virkan þátt í ungliðastarfi Sjálfstæðisflokksins en þegar þeirri spurningu er velt upp hvort hún hafi hug á því að taka frekari þátt í stjórnmálum er svarið stutt og hnitmiðað; „Nei!“ Hún bætir því þó við að hún hafi meiri áhuga á að sinna hugðarefnum sínum, sem eru lögfræði og rekstur fyrirtækja.
„Mér fannst gaman í lögmennsku og hafði svo sem ekki séð fyrir mér að hætta í henni þegar þetta starf datt upp í hendurnar á mér,“ segir Heiðrún Lind.
„Síðan þá hefur áhugi minn á fjármálum og rekstri aukist. Mér hefur þótt ótrúlega gaman, gefandi og lærdómsríkt að fara fyrir því teymi sem starfar hér á skrifstofu SFS, auk þess að vinna með öllum þessum rótgrónu fyrirtækjum víðs vegar um landið. Ég á enn margt ólært í sjávarútvegi, þannig að ég er ekkert að þreytast. Mér fannst reyndar mjög gaman að taka þátt í ungliðapólitík á sínum tíma og hef vissulega áhuga á því samfélagi sem við búum í og hvernig við getum gert það betra. En þátttaka í pólitík er ekki á dagskránni.“
Spurð hvernig henni finnist samskiptin ganga við stjórnmálin segir hún að heilt yfir gangi þau vel og hún eigi gott samtal bæði við þingmenn og ráðherra sem og aðila innan stjórnsýslunnar.
„Hins vegar finnst mér áberandi, og ég hef áhyggjur af því, það viðhorf sem segir að stjórnvöld megi ekki tala við þá sem eiga hagsmuna að gæta í atvinnugreinum. Að allt sem við segjum sé flokkað sem sérhagsmunagæsla. Það finnst mér ósanngjarnt og ég nánast tek það persónulega,“ segir Heiðrún Lind.
„Ég hefði aldrei tekið þetta starf að mér nema ég væri sannfærð um að við höfum eitthvað fram að færa gagnvart þeim sem taka ákvarðanir. Við höfum lagt áherslu á að vera málefnaleg og rökföst og setja upplýsingar fram með skiljanlegum hætti, að tala á mannamáli. Ef það er sérhagsmunagæsla að setja upplýsingar fram og stuðla að upplýstum umræðum, þá er sú orðanotkun villandi. Ég lít þannig á að hlutverk mitt sé að miðla upplýsingum og eiga samtal við stjórnmálin um það hvernig við getum gert hlutina betur, hvað er að gerast í greininni, hvernig við skynjum samkeppnina, rekstrarumhverfið og svo framvegis. Við erum að miðla þessum upplýsingum til þeirra sem taka ákvarðanir. Ef hægt væri að herma það upp á mig að ég væri vísvitandi að setja rangar upplýsingar fram væri ég fyrsti einstaklingurinn til að viðurkenna það því þá væri ég ekki starfi mínu vaxin. Sjávarútvegur er flókin atvinnugrein, þótt ýmsum þyki annað. Því verður umræðan oft tilviljanakennd og þar gætir misskilnings á eðli hennar. Það eru ekki alltaf einföld svör við flóknum úrlausnarefnum. En samtalið skerpir skilning manna og ég tek með ánægju þátt í því. Því það skiptir verulegu máli fyrir efnahagslega afkomu þjóðarinnar að hér sé samkeppnishæf atvinnugrein á alþjóðamarkaði. Grein sem hefur staðið ýmislegt af sér hingað til og mun gera áfram.“
Samkeppniseftirlitið hafi færst of mikið í fang
En að allt öðru. Hér á síðum Þjóðmála hefur verið haldið uppi öflugri gagnrýni á Samkeppniseftirlitið og ekki síst nálgun stjórnenda þess gagnvart atvinnulífinu. Enda full ástæða til. Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa, eins og önnur fyrirtæki í atvinnulífinu, þurft að sitja undir aðgerðum og aðfinnslum eftirlitsins á síðustu árum þrátt fyrir að nær allur afli sem veiddur er hérlendis sé seldur á mörkuðum erlendis.
Áður en Heiðrún Lind tók við starfi framkvæmdastjóra SFS starfaði hún sem lögmaður. Hún var þá nokkuð áberandi í gagnrýni sinni á Samkeppniseftirlitið og kom ósjaldan fyrir í fjölmiðlum og á fundum þar sem fjallað var um málefni eftirlitsins. Það er því ekki hjá því komist að spyrja Heiðrúnu Lind frekar út í samkeppnislögin og Samkeppniseftirlitið.
„Samkeppnislögin voru sett hér árið 1993 og byggjast að mestu leyti á sambærilegum reglum og annars staðar í Evrópu og eru ekki að fara neitt,“ segir Heiðrún Lind.
„Það er í sjálfu sér ekki deilt um meginatriði samkeppnislaga, til dæmis 10. og 11. grein laganna sem leggja bann við samráði fyrirtækja og er ætlað að koma í veg fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Þetta er í grunninn eðlilegt þó að þetta sé allt matskennt og stundum erfitt fyrir fyrirtæki að starfa í þessu umhverfi því þau vita ekki alltaf hver staða þeirra er, til dæmis hvað varðar markaðsráðandi stöðu því þau hafa oft ekki aðgang að þeim upplýsingum.“
Heiðrún Lind segir að þrátt fyrir þessa grunnþætti í starfsemi Samkeppniseftirlitsins hafi aðrir þættir orðið til þess að flækja umsvif þess og gera atvinnulífinu erfitt um vik, til dæmis þegar kemur að samrunaeftirliti. Reglurnar hér á landi séu í stórum dráttum sambærilegar reglum í Evrópu en aftur á móti séu aðstæður hér á landi allt aðrar.
„Það er umhugsunarefni og við þurfum að ræða þetta, þó að ég telji mig vita að Samkeppniseftirlitið sé ósammála mér. Við búum í rúmlega 350 þúsund manna samfélagi. Ef við ætlum alltaf að beita sömu samrunastuðlum og stuðst er við erlendis, svokölluðum HHI-stuðli, við að meta samþjöppun og líkur á því að samkeppni raskist við það að tvö fyrirtæki renni saman, er nánast hægt að segja án undantekninga að samþjöppunarstuðullinn gefi eftirlitinu tilefni til íhlutunar. Við erum aftur á móti með fá fyrirtæki í flestum atvinnugreinum hér á landi og erum lítil þjóð. Við þurfum því hugsanlega að meta þessa þætti á annan hátt en að horfa bara til evrópskra staðla sem taka alltaf mið af mun stærri markaði og fleiri fyrirtækjum en eru til staðar hér.“
Þá segir Heiðrún Lind að það sé heldur ekki gott fyrir lítið samfélag á borð við Ísland að vera með of mörg fyrirtæki sem eigi erfitt með að standa undir sér rekstrarlega, það hljóti að leiða til hærra verðs til neytenda. Það sé eitt af því sem þurfi að ræða án þess að fara í skotgrafir.
Atvinnulífið hefur kvartað mikið undan því hversu óskilvirkt Samkeppniseftirlitið er og hversu lengi það tekur að úrskurða eða rannsaka mál. Er það ekki líka áhyggjuefni?
„Því fleiri verkefni sem Samkeppniseftirlitinu eru falin, þeim mun fyrr mun fjara undan þeim grundvallarþáttum sem eftirlitið á fyrst og fremst að sinna, eins og eftirliti á grundvelli 10. og 11. gr. samkeppnislaga,“ segir Heiðrún Lind.
„Skilvirknin minnkar þegar eftirlitið er farið að kafa djúpt ofan í öll samrunamál og því til viðbótar hefur eftirlitið fengið heimild til markaðsrannsókna og íhlutunar án þess að nokkur brot hafi átt sér stað. Þessi síðargreinda viðbót var mjög misráðin. Mannauður og tími fólks er takmarkaður og ég held að Samkeppniseftirlitið hafi færst of mikið í fang, þannig að málsmeðferð tekur allt of langan tíma og nauðsynleg skilvirkni hverfur.“
En liggur vandamálið í samkeppnislögunum eða hjá Samkeppniseftirlitinu?
„Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, hefur haldið því fram að það sé merkilegt að stór fyrirtæki skilji ekki samkeppnislögin en að minni fyrirtæki geri það,“ segir Heiðrún Lind.
„Ég hef gagnrýnt þennan málflutning því að Samkeppniseftirlitið hefur ekki verið óskeikult í ákvörðunum sínum og þær hafa verið ógiltar af hálfu áfrýjunarnefndar samkeppnismála og af dómstólum. Það má því með rökum segja að Samkeppniseftirlitið sé á sama báti og þessi stóru fyrirtæki; það skilur ekki alltaf hvernig lögin eiga að virka.“
Heiðrún Lind bætir því við að samkeppnislögin séu matskennd og staða fyrirtækja sé ekki fyrir fram augljós í mörgum tilvikum. Af þeim sökum megi líka vafalaust gera meiri kröfur til stjórnvaldsins um að veita frekari leiðsögn í störfum sínum.
„Þessi fyrir fram óljósa réttarstaða fyrirtækja sýnir sig í raun í ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins,“ segir Heiðrún Lind.
„Þegar við erum með hundraða blaðsíðna ákvarðanir þar sem tugum blaðsíðna er varið í að útskýra á hvaða markaði fyrirtæki starfa hlýtur að mega hafa ákveðinn skilning á því að fyrirtækin sjálf gátu ekki áttað sig á þessari stöðu fyrir fram. Þessi mál eru einfaldlega flókin og því þarf að ríkja skilningur á báða bóga. Stundum geta fyrirtækin líka gert betur, ég horfi ekkert framhjá því. En svona til að draga þessa hugsun mína saman tel ég vandann að mörgu leyti heimatilbúinn. Við höfum bætt við ýmsum óþarfa í íslensku samkeppnislögin. Við þurfum að kjarna okkur aftur, ef svo má segja.“
—
Viðtalið birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.