Í samræmi við 7. gr. laga um tóbaksvarnir (6/2002) er rétt að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra tegunda sem hér er fjallað um. Samkvæmt íslenskum lögum má fjalla um einstakar áfengistegundir en ekki um einstakar vindlategundir, nema þá sérstaklega til að vara við skaðsemi þeirra.
Red Auerbach er nafn sem flestir aðdáendur NBA körfuboltans þekkja vel. Auerbach var þjálfari í 26 ár, lengst af hjá Boston Celtics (16 ár), vann deildina níu sinnum og gerðist síðar framkvæmdastjóri og stjórnarformaður liðsins. Alla tíð lét hann mikið fyrir sér fara og þá sérstaklega í kringum nýliðaval ár hvert. Hann var goðsögn síns tíma, kóngurinn í körfunni.
Auerbach gerði vindilinn að táknmynd og hafði það fyrir venju að kveikja sér í vindli þegar hann sá fram á að sigur væri í höfn. Sjálfsagt hefur það verið sálfræðistríð og þá sérstaklega ef hann fíraði upp í fyrri hálfleik eða jafnvel fyrir leik. Vindillinn var tákn um sigur en þetta er þó ekki eina dæmið
þar sem vindillinn er notaður sem sigurtákn.
Það er ekki óalgengt að sjá íþróttamenn vestanhafs fagna sigrum með því að kveikja sér í vindli. Og réttilega svo, því vindlar eru munaðarvara – verðlaun fyrir stritið. Vindillinn fullkomnar sigurvímuna óháð því hvaða áfanga maður hefur náð. Margir kannast við það úr kvikmyndum hvernig menn fagna áfangasigrum eða tímamótum með vindli, til dæmis því þegar barn fæðist, í giftingum, við útskriftir, stórafmælum, stöðuhækkun o.s.frv. Það að kveikja sér í vindli til að fagna sigri eða áfanga þekkist þó ekki bara í kvikmyndum heldur er þetta alþekkt leið til að fagna sigri í raunheimi.
Andstaða Viktoríu
Enginn veit fyrir víst hvernig vindillinn varð að sigurtákni í sögunni. Við vitum að Majar reyktu tóbak fyrr á öldum en Evrópubúar kynntust ekki tóbaki fyrr en eftir að Kristófer Kólumbus flutti það með sér frá Vesturheimi. Í tungumáli Maja er sögnin sikar notuð um að reykja, sem síðar varð spænska orðið cigarro. Þaðan kemur enska orðið cigar (vindill).
Majar reyktu tóbak bæði til að fagna hernaðarsigrum og til að slaka á. Þegar Evrópubúar uppgötvuðu nýja heiminn vestra voru tóbaksreykingar algengar meðal íbúa í Mið- og Suður-Ameríku og í þeim tilvikum þar sem vinsamleg samskipti fóru fram við aðkomumennina frá Evrópu var þeim boðið upp á tóbak sem tákn um gestrisni. Tóbakið var þó að mestu reykt í pípum en nokkrir úr leiðangri Kólumbusar kynntust þó einhvers konar vindlum þegar þeir komu til Kúbu.
Sem fyrr segir flutti Kristófer Kólumbus tóbak með sér til Spánar, og þótti það strax mikil lúxusvara enda sjaldgæft. Notkun vindla (þ.e. stærri vindla, ekki smávindla) varð þó ekki algeng utan Spánar fyrr en í byrjun 19. aldar og þá helst meðal efri stétta. Aðrir reyktu sígarettur og smávindla að staðaldri fram að því en vindlarnir urðu að munaðarvöru, sem þeir eru enn í dag. Það sem hefur þó breyst er að vindlar eru ekki aðeins fyrir hina ríku og frægu heldur munaðarvara sem flestir geta leyft sér.
Við lok spænska erfðastríðsins árið 1812, þegar Frakkar voru með aðstoð Breta hraktir frá Spáni, gáfu spænskir herforingjar breskum kollegum sínum innpakkaða vindla í þakklætisskyni. Bresku herforingjarnir áttu, þrátt fyrir mikla andstöðu Viktoríu drottningar, sem bannaði reykingar í öllum húsakynnum krúnunnar, eftir að gera vindlareykingar að tískufyrirbæri meðal efri stétta þar í landi. Nokkrum árum síðar, upp úr 1820, hófst framleiðsla á vindlum í Bretlandi til að anna eftirspurn. Tóbak var flutt inn frá Mið-Ameríku og vindlarnir vafðir í Bretlandi.
Um svipað leyti hættu Spánverjar þó að mestu að framleiða vindla (þeir höfðu fram að því flutt tóbak frá Mið-Ameríku en framleitt vindlana sjálfa á Spáni) og fóru þess í stað að flytja inn fullbúna vindla frá Kúbu. Þannig varð goðsögnin um kúbversku vindlana til, þó að á þeim tíma hafi verið hafin framleiðsla í öðrum ríkjum Mið-Ameríku.
Upplýsingaöldin ýtti undir ímyndina
Svo við víkjum aftur að sigurtákninu kannast eflaust margir við atriði í kvikmyndum þar sem nýbakaðir feður kveikja sér í vindli. Engum dettur í hug að kveikja sér í vindli í kringum nýbakaða móður og ungbarn í dag en það var heldur ekki það sem þessi góða hefð var gerð fyrir. Hefðin nær til 19. Aldar, þegar verðandi feður fengu sér vindil til að róa taugarnar á meðan beðið var eftir fæðingu. Í sögulegu samhengi er stutt síðan feður fóru að vera viðstaddir fæðingar. Sumir telja að þangað megi þó rekja þá hefð að fagna áfangasigri með vindli. Það er þó væntanlega bara ein af skýringunum, því vindlar hafa í rúm 200 ár verið tákn um árangur, góð samskipti, vinskap, þakklæti og ekki síður fyrir slökun og ánægju.
Vindlar urðu að stöðutákni í Bandaríkjunum um svipað leyti, þ.e. um miðja 19. öld. Menn reyktu vindlinga og sígarettur að staðaldri en talið er að rekja megi vindlareykingar í fagnaðskyni til þess þegar menn náðu samningum um lagningu járnbrautar út frá austurströnd Bandaríkjanna og fögnuðu með því að bjóða upp á vindil við undirskrift samninga.
Sem fyrr segir er ekki vitað hvenær og hvernig vindlar urðu táknmynd sigurs. Þó er vitað að aukið upplýsingaflæði (fyrst prentmiðlar, síðar ljósmyndir og loks kvikmyndir) ýtti undir þessa jákvæðu ímynd sem lifir enn þann dag í dag. Við höfum áður fjallað um vindlareykingar frægra stjórnmálamanna hér á síðum Þjóðmála en þær eru í flestum tilvikum raktar til afslöppunar og munaðar. Í heimi viðskipta má helst rekja vindlareykingar til mikilvægra funda, samskipta við nána samstarfsaðila og ekki síst til undirritunar samninga.
Sama hvað kvikmyndum eða sögunni líður þarf ekki áfangasigur í sjálfu sér til að kveikja sér í góðum vindli. Í gegnum tíðina hafa menn litið á það sem góða afslöppun að kveikja sér í vindli, hvort sem er í einrúmi eða í félagsskap góðra vina. Það er rétt viðhorf.
Höfundur er ráðgjafi og ritstjóri Þjóðmála.
—
Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.