Það vissi í raun enginn hvernig bregðast ætti við þegar nýr faraldur, upprunninn í Kína, kom fram á sjónarsviðið í byrjun síðasta árs. Faraldurinn gerði vart við sig hér á landi um mánaðamótin febrúar-mars og stuttu síðar voru kynntar hinar ýmsu ráðstafanir til að reyna að halda honum í skefjum.
Fjölnir hefur áður fjallað um efnahagsleg áhrif faraldursins en þó er enn of snemmt að segja til um hver þau áhrif verða. Ein ástæða þess er sú að við vitum ekki enn hversu stóru hlutverki ríkisvaldið mun gegna til lengri tíma, með tilheyrandi hömlum á vexti atvinnulífsins, takmörkunum á fjölgun starfa o.s.frv.
Það er alltaf flókið að verðleggja það sem varð ekki. Fyrirtækið sem hætti við áætlanir um stækkun, nýsköpunarhugmyndin sem varð ekki að veruleika, samruninn sem aldrei átti sér stað og þannig mætti áfram telja. Allt er þetta á ábyrgð þeirra sem hætta tíma sínum og fjármagni í atvinnurekstur en það liggur fyrir að því meiri sem umsvif hins opinbera eru, þeim mun minna súrefni er eftir fyrir einkaframtakið.
Pilsfaldakapítalismi
Þegar samdráttur í hagkerfinu á sér stað, jafnvel kreppa, stekkur ríkisvaldið oftast inn og reynir að bjarga því sem bjargað verður. Þannig hefur það verið síðastliðin 100 ár eða svo. Fyrirtæki, stór og smá, eru þá sögð hlaupa undir faldinn á pilsi ríkisins, sem ýmist prentar peninga eða kemur þeim til bjargar með öðrum hætti. Sumir þeirra sem alla jafna tala fyrir frjálsu markaðshagkerfi sætta sig við, eða gera jafnvel kröfu um, að ríkisvaldið grípi inn í þegar eitthvað bjátar á. Þetta er í daglegu máli kallað pilsfaldakapítalismi.
Haustið 2007 skapaðist veruleg lausafjárkreppa á mörkuðum víða um heim. Flest vestræn ríki, ásamt Japan, höfðu í nokkur ár á undan haldið stýrivöxtum sínum lágum og þar með dælt út fjármagni í öll helstu hagkerfi heims, m.a. í fjármögnun húsnæðislána til fólks sem hefði undir öllum kringumstæðum ekki átt að fá slík lán. Þegar millitekjuhópar í Bandaríkjunum lentu í vanskilum með sín lán skapaðist, með skömmum fyrirvara, lausafjárþurrð á mörkuðum sem að lokum leiddi til hruns fjármálastofnana víða um heim haustið 2008. Íslendingar lentu illa í þeirri öldu, en það var ekki af því að stjórnarskráin var úrelt.
Þetta er hægt að rekja í löngu máli, en það sem skiptir máli í því samhengi sem hér er fjallað um er að ríkisstjórnir flestra ríkja komu fjármálastofnunum sínum til bjargar með einum eða öðrum hætti, í flestum tilvikum með peningaprentun. Ólíkt flestum ríkjum leyfðu íslensk stjórnvöld stærstu bönkum sínum að fara í þrot en tóku síðan að sér að endurreisa nýja banka. Því fylgdi auðvitað töluverður kostnaður en efnahagslegu áhrifin voru þó mun minni en samfélagslegu áhrifin sem enn má finna fyrir.
Sá efnahagslegi skaði sem kórónuveirufaraldurinn hefur nú þegar valdið verður að öllum líkindum mun meiri en fjármálakreppan 2008 olli. Það mun taka tíma að endurræsa hagkerfin á ný og sem fyrr segir liggur ekki fyrir hver langtímaáhrifin verða.
Hvað átti ríkið að gera?
Hlutverk þeirra sem sinna sóttvarnaaðgerðum og öryggi almennings er ekki öfundsvert og það er engin leið að leggja heildarmat á það hvort aðgerðir vestrænna ríkisstjórna hafa reynst réttmætar eða ekki. Það liggur þó fyrir að í kjölfar aðgerða liggur eftir sviðin jörð í efnahagslegu tilliti og á sama tíma hefur ekki tekist að stöðva útbreiðslu faraldursins. Það var ákvörðun ríkisins að setja á samkomutakmarkanir og grípa til annarra harðra sóttvarnaraðgerða. Það á ekki bara við hér á landi; í flestum vestrænum ríkjum hafa verið takmarkanir á ferðalögum fólks, veitingastöðum hefur verið lokað eða starfsemi þeirra takmörkuð, lokað hefur verið fyrir hina ýmsu viðburði, lokað á líkamsræktarstöðvum, snyrtistofum, hárskerum og þannig mætti lengi áfram telja. Of lengi.
Þá má spyrja: Átti ríkið að sitja hjá eða átti að koma til móts við þau fyrirtæki sem urðu helst fyrir áhrifum veirunnar og aðgerðum ríkisvaldsins? Ríkið kynnti til sögunnar ýmsar leiðir, s.s. hlutabótaleið og síðar uppsagnastyrki sem og önnur úrræði. Þótt það samrýmist ekki skoðun og stefnu frjálshyggjumanna að ríkisvaldið komi fyrirtækjum til bjargar þarf að hafa í huga að vandamál fyrirtækjanna kom að stórum hluta til vegna aðgerða ríkisins. Vissulega hefðu mörg fyrirtæki lent í vandræðum án hertra sóttvarnaraðgerða og tilskipana um lokun, þá sérstaklega fyrirtæki í ferðaþjónustu. Þau hefðu engu að síður haft færi á því að aðlaga og gera viðeigandi breytingar á rekstri sínum.
Vinstrimenn hafa gagnrýnt bæði hlutabótaleiðina og uppsagnarstyrkina. Þeir halda því fram að þessi úrræði hafi hjálpað fyrirtækjum en ekki fólki og þess á milli skrifa vefmiðlar hliðhollir vinstriflokkunum af miklu yfirlæti með vanþóknun um þau fyrirtæki sem hafa fengið slíka styrki – svona á milli þess sem þeir sjálfir væla um aukna rekstrarstyrki frá ríkinu. Sjálfsagt munu sömu aðilar halda því fram lengi að ríkið hafi komið atvinnulífinu til bjargar, þá sérstaklega þegar hagsmunasamtök atvinnulífsins hefja á ný nauðsynlega umræðu um lækkun skatta og minna ríkisvalds. Fjölnir vill þó minna á að það voru ekki fyrirtækin sem báðu um að þeim yrði lokað og að tekjugrundvelli þeirra yrði kippt úr sambandi.
Það er líka rétt að hafa í huga að á síðustu fimm árum fyrir Covid-19 faraldurinn, á árunum 2015–2019, innheimti ríkið 450 milljarða kr. í tryggingagjald. Frá árinu 2010 hefur ríkið innheimt um 790 milljarða í tryggingagjald. Það er til lítils að innheimta slíkar upphæðir ef ekki á að nýta það fjármagn til að greiða þeim sem lenda í atvinnuleysi – eða gera enn betur og koma í veg fyrir atvinnuleysi. Vissulega er búið að ráðstafa hluta þessa fjármagns í greiðslur vegna atvinnuleysi á tímabilinu, fæðingarorlof og fleira. Þannig að það eru ekki eins og 790 milljarðar króna hafi legið inni á bankabók og beðið þar eftir því að vera notaðir. Það þarf þó að hafa þetta í huga þegar rætt er um stuðning ríkisins við atvinnulífið. Þeir sem hvað harðast gagnrýna þann stuðning sem atvinnulífið hefur nú þegar fengið hljóta allir að krefjast þess að tryggingagjald lækki til muna.
Hvað áttu fyrirtækin að gera?
Um 8.800 manns misstu vinnuna í hópuppsögnum á liðnu ári. Þá er ótalinn sá fjöldi sem missti vinnuna utan hópuppsagna. Enginn ríkisstarfsmaður hefur misst vinnuna vegna faraldursins.
Þegar fyrirtæki lenda í því að missa nær allar tekjur sínar á einu bretti er lítið hægt að gera annað en að segja starfsmönnum þess upp, enda er launakostnaður í flestum tilvikum stærsti útgjaldaliður fyrirtækja. Önnur leið er að setja fyrirtækið beint í þrot – en þá sitja starfsmenn eftir með sárt ennið þar til ábyrgðasjóður launa greiðir þeim mörgum mánuðum síðar.
Hér þarf að hafa í huga að það voru stjórnmálamenn, þá fyrst og fremst forsætisráðherra, fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra, sem hvöttu fyrirtækin til að nýta hlutabótaleiðina í stað þess að segja fólki strax upp störfum. Fyrirtæki á borð við Bláa lónið, N1 og Icelandair hafa greitt margfalt hærri upphæðir í tryggingagjald á liðnum árum en nýttar voru í hlutabótaleiðinni, svo tekin séu dæmi um fyrirtæki sem nýttu sér leiðina til að reyna að halda fólki í vinnu.
Eftir á að hyggja hefði þó verið einfaldara fyrir stjórnendur fyrirtækjanna að segja strax upp fólki, svo sárt sem það er, og losna þannig við skammir og gagnrýni sömu stjórnmálamanna. Næg eru verkefnin þó. Sjálfsagt munu stjórnendur þeirra þó hugsa sig tvisvar um næst þegar stjórnmálamenn hvetja þau til að nýta einhverja úrlausn í boði ríkisins.
Ríkið stækkar og stækkar
Áætluð ríkisútgjöld nema í ár rúmlega 1.100 milljörðum króna og stefnt er að enn hærri útgjöldum næstu tvö ár. Tekjur ríkisins eru áætlaðar um 720 milljarðar, eða rétt rúmlega 60% af útgjöldum. Þar af er áætlað að tekjur ríkisins af tryggingagjaldi verði um 94 milljarðar, þannig að það er eins gott að fólk sé duglegt að vinna á árinu ef þetta á að ganga eftir.
Það gefur þó augaleið að rekstur ríkisins gengur ekki lengi upp á meðan tekjur eru aðeins 60% af útgjöldum. Það stendur ekki til að minnka ríkisútgjöld og stjórnmálamenn segjast, enn sem komið er, ekki ætla að hækka skatta. Fjölnir er þó hóflega bjartsýnn á það.
Það er auðvitað áhyggjuefni ef Sjálfstæðisflokkurinn lítur þannig á að hverri krónu í útgjöldum ríkisins sé svo vel varið að hvergi sé hægt að skera niður – ekki einu sinni í heimsfaraldri. Þeir einu sem fagna þeirri nýju stefnu flokksins eru ört vaxandi fjöldi ríkisstarfsmanna, sem aldrei munu þó kjósa flokkinn.
Fram undan eru kosningar og það eru meiri líkur en minni á því að stjórnmálaflokkarnir reyni að yfirbjóða hver annan í ýmsum loforðum sem skattgreiðendum verður ætlað að fjármagna á næstu árum. Það er jú búið að boða að það skipti engu máli hvort það er hagvöxtur eða kreppa; ríkisútgjöldin halda bara áfram að aukast og ríkisstarfsmönnum fjölgar. Einkageirinn býr ekki við þann munað.
Hvað ætlar ríkið svo að gera?
Það þarf þó að búa til hagsældina áður en henni er úthlutað. Með öðrum orðum geta stjórnmálamenn lofað útgjöldum út í hið óendanlega en einhver þarf að fjármagna þau. Samfylkingin hefur lagt áherslu á að fjölga ríkisstarfsmönnum enn frekar, en ekki fylgir sögunni hvernig eigi að fjármagna laun þeirra.
Það liggja ekki fyrir neinar raunhæfar áætlanir um það hvernig fjármagna á aukin útgjöld ríkisins. Sem fyrr segir gengur það ekki upp til lengdar að tekjur ríkisins séu aðeins 60% af útgjöldum þess. Eitthvað þarf að gera, annað en að skuldsetja ríkið og vona bara að tekjur þess aukist síðar. Sú skuldsetning sem ríkið ræðst nú í mun skerða lífskjör komandi kynslóða og ef ekki verður komið böndum á útgjöld ríkisins munu lífskjör skerðast enn frekar.
Ríkisvaldið getur, með aðstoð einkaaðila (t.d. lífeyrissjóða og erlendra fjárfesta), lagt upp í öfluga innviðauppbyggingu sem mun treysta stoðir hagkerfisins til lengri tíma. Þannig má nefna fjárfestingar í vegasamgöngum, höfnum og fjarskiptum. Það væru skynsamlegar fjárfestingar sem valda ekki háum ríkisútgjöldum strax heldur dreifast yfir lengri tíma og eru til þess fallnar að bæta lífskjör hér á landi.
Í stað þess að horfa til lengri tíma er ríkið að mestu í björgunaraðgerðum. Tímabundnar bætur og fjölgun ríkisstarfsmanna gera þó lítið annað en að setja plástur á blæðandi sár.
Á kosningaári er hæpin von að sárið grói að fullu.
—
Greinin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.