Bandaríski hljómsveitarstjórinn Lorin Varencove Maazel fæddist í Neuilly-sur-Seine í Frakklandi árið 1930 og lést í Virginíuríki í Bandaríkjunum árið 2014; hafði hann þá fjögur ár um áttrætt. Hann var af rússnesk-úkraínskum ættum en ólst að mestu leyti upp í Pittsburgh í Bandaríkjunum. Hann var undrabarn í tónlist og stjórnaði í fyrsta skipti hljómsveit átta ára gamall. Samhliða námi í hljómsveitarstjórn nam hann fiðluleik en snemma varð ljóst að honum myndi mikil frægð búin sem hljómsveitarstjóri. Arturo Toscanini bauð honum, ellefu ára gömlum, að stjórna NBC-sinfóníuhljómsveitinni og á aldrinum 9 til 15 ára stjórnaði hann öllum helstu hljómsveitum í Bandaríkjunum.
Maazel hélt snemma til Evrópu og varð árið 1960 fyrstur Bandaríkjamanna til þess að stjórna í Bayreuth, þá þrítugur að aldri. Eftir það starfaði hann meðal annars sem aðalstjórnandi Útvarpshljómsveitarinnar í Berlín (1964–75) og Þýsku óperunnar í Berlín (1965–75). Árið 1972 tók hann svo við Cleveland-hljómsveitinni af George Szell og starfaði þar allt til ársins 1982. Maazel og hljómsveitin áttu hins vegar ekki skap saman. Szell hafði gert Cleveland-hljómsveitina að einni bestu hljómsveit veraldar og var jafnan rætt um að hún hljómaði eins og stór strengjakvartett, slík væri nákvæmnin. Maazel fór aðrar leiðir og einkenndust túlkanir hans (þótt nákvæmar væru) af rómantík og miklum tilfinningaþunga. Þrátt fyrir samstarfsörðugleikana hljóðritaði Maazel mikið með hljómsveitinni (m.a. fyrir Decca, Telarc og CBS) og eru þær upptökur í hópi þeirra bestu sem Maazel gerði nokkru sinni (þ. á m. feiknagóðar upptökur af sinfóníum Brahms og Beethovens).
Árið 1977 tók Maazel við Þjóðarhljómsveitinni í Frakklandi og var það staða sem hann hélt allt til ársins 1991. Hann starfaði svo í stuttan tíma (1982–84) sem listrænn stjórnandi og aðalhljómsveitarstjóri Vínaróperunnar og stjórnaði Vínarfílharmóníunni ótal sinnum, meðal annars fimm sinnum á nýárstónleikum (1986, 1994, 1996, 1989 og 2005). Frá 1988–96 var Maazel listrænn stjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í Pittsburgh og 1993–2002 var hann aðalstjórnandi Útvarpshljómsveitarinnar í Bæjaralandi. Þá var hann aðalstjórnandi Fílharmóníusveitar New York-borgar 2002–09 og aðalstjórnandi Fílharmóníusveitarinnar í München 2012–14. Og er hér þó ekki allt upp talið (hann starfaði líka m.a. í Valencia og á fleiri stöðum). Síðustu árin einbeitti Maazel sér að tónlistarhátíð á búgarði sínum í Castleton í Virginíuríki í Bandaríkjunum, þar sem hann lést úr lungnabólgu í júlí 2014.
Maazel stjórnaði yfir 5.000 tónleikum og óperusýningum á ferlinum. Hann kom fram með yfir 150 hljómsveitum ásamt því að semja hljómsveitarverk og óperu (1984 við sögu Orwells) og útsetja útdrátt úr Niflungahring Wagners fyrir hljómsveit (Hringur án orða). Maazel talaði sjö tungumál reiprennandi (þ. á m. rússnesku) og var bæði með fullkomið tóneyra og sjónminni (stjórnaði nánast alltaf nótnalaust). Hann gerði yfir 300 hljóðritanir á ferlinum.
Maazel hóf að stjórna Mahler frekar seint á ferlinum. Hann stjórnaði að vísu fyrsta þætti Annarrar sinfóníunnar sem nemandi í Tanglewood en það var ekki fyrr en að komið var fram á sjöunda áratug síðustu aldar að hann hóf að stjórna Mahler reglulega. Maazel vann hins vegar það afrek á ferlinum að hljóðrita allar sinfóníur tónskáldsins fjórum sinnum, í Vín (komu út 1983), München (2002, óútgefnar hljóðritanir), New York (komu út 2009) og London (komu út 2013–17). Það er gaman að bera þessar upptökur saman og sjá hvað hefur breyst í túlkuninni. Stutta svarið er hins vegar að það hefur ekki mikið breyst.
Mahler-túlkanir Maazels einkennast af hægu tempói og tilfinningaþrungnum tónhendingum. Þær eru sem sagt ekki mínímalískar. Það er auðvitað hætta í Mahler að ofgera öllu. Mahler var síðrómantískt tónskáld á mörkum módernisma og í verkum hans er allt stórt í sniðum. Hljómsveitin er risavaxin (nema einna helst í Fjórðu sinfóníunni), kaflar eru langir og styrkleikamörk tónlistarinnar eru á ystu jöðrum í báðar áttir, mjög veikt upp í afar sterkt. Uppi er sá skóli að leyfa tónlistinni bara að tala fyrir sig sjálf, þ.e.a.s. án þess að ýkja það sem Mahler skrifaði. Þetta má kalla klínískar túlkanir (nýjasta dæmið um slíkar túlkanir er Fischer-bræðurnir, Ádám og Iván). Frægasti Mahler-stjórnandi allra tíma, Leonard Bernstein, fór hins vegar aðrar leiðir. Hann gerði sem mest úr tilfinningasveiflum í tónlistinni, teygði og togaði í hægu tempói. Kannski skiptir máli hverju maður vandist fyrst, þ.e.a.s. hvað maður byrjaði að hlusta á. Ég ánetjaðist Bernstein (seinni hringnum sem Deutsche Grammophon gaf út) og er því ekki mikið fyrir klíníska skólann (á því eru þó veigamiklar undantekningar). Svo skiptir auðvitað máli á hvaða Mahler-verk maður er að hlusta. Það er óravegur frá sönglögunum yfir í maxímalisma Áttundu sinfóníunnar.
Ég fór seint að hlusta á Maazel í Mahler og það tók mig dálítinn tíma að venjast honum. Tempóið er (oft) hægara en hjá Bernstein en öfgarnar eru ekki eins miklar. Það er eins og hann lítist meira um í raddskránni, maður heyrir óvænta hluti, og ég er alltaf að heyra eitthvað nýtt. Sama hversu oft ég hlusta. Helstu gagnrýnendur Maazels (og það á eiginlega við um allt sem hann stjórnaði) bentu ítrekað á að hann léti aldrei neitt í friði. Hann stjórnaði ekki einum takti án þess að „fikta“ í honum að einhverju leyti. Það er óumdeilt að Maazel hafði öruggt slag og var tæknilega „fullkominn“ stjórnandi. En tækni er ekki allt. Maazel þorði að vera öðruvísi en aðrir og upptökurnar sem hann gerði eru því eins langt frá því að vera klínískar eins og hugsast getur. Það heyrir maður æ sjaldnar í túlkunum hljómsveitarstjóra í dag, þegar allt er farið að hljóma eins (með veigamiklum en fáum undantekningum).
Maazel hefur sem sagt alltaf verið hægur í Mahler. Það einkennilega er þó að það er mjög misjafnt eftir því hvaða verki hann stjórnaði hvernig tempóin þróuðust yfir árin. Fyrsta og Önnur sinfónían eru meira og minna í sama tempói hjá honum á öllum fjórum hljóðritunum en Þriðja sinfónían hefur orðið hraðari með árunum. Á upptökunni frá Vín er lokakaflinn í því verki sá hægasti sem hefur verið hljóðritaður (tæplega 30 mínútur; Fischer-bræður eru í kringum 22 mínútur með sama kafla svo dæmi sé tekið). Fádæma fallegur flutningur en auðvitað má deila um hvort mómentumið í tónlistinni fari fyrir ofan garð og neðan í svo hægum flutningi.
Hins vegar eru dæmi um að Maazel hafi hægt á sér yfir árin. Hvergi er það meira áberandi en í Sjöundu sinfóníunni. Hún er hæg í Vín en ekkert í líkingu við það sem átti eftir að heyrast í München, New York og loks London. Ómstríður fyrsti kaflinn stundum við það að leysast í frumeindir sínar (þótt vissulega sé Klemperer enn hægari) en það er eitthvað við þessa túlkun sem gerir verkið átakanlegra en í klínískum flutningi (Maazel er tæpar 27 mínútur með fyrsta kaflann en Fischer-bræður eru innan við 21 mínútu). Þá verður ekki vikist undan því að benda á að fyrsti kaflinn í Níundu sinfóníunni er tæpar 36 mínútur hjá Maazel í London, 10 mínútum hægari en hjá Ádám Fischer. Það er hins vegar ekki allt hægt hjá Maazel í Mahler. Þar sem Mahler minnir helst á Schubert (t.a.m. í öðrum þáttum bæði Annarrar og Þriðju sinfóníunnar) er Maazel á pari við flesta aðra.
Sjálfsagt má deila endalaust um túlkun á Mahler. Sjálfur sagði hann að sinfónían ætti að vera eins og heimurinn, hún „ætti að innihalda allt“. Ég hef hins vegar orðið hrifnari og hrifnari af túlkunum Maazels eftir því sem árin líða og ég hlusta meira og meira. Raunar á það við um flest af því sem Maazel gerði.
Ég var svo heppinn að ná að sjá hann stjórna tónleikum einu sinni, þ.e.a.s. Sjöundu sinfóníu Mahlers í London, skömmu áður en hann lést. Tónleikarnir voru hljóðritaðir og síðar gefnir út í London-Mahler-hring Maazels. Á tónleikunum sjálfum kom Maazel fram og hneigði sig eins og lög gera ráð fyrir. Svo varð töluverð bið. Eftir nokkrar mínútur opnuðust sviðsdyrnar til vinstri og inn kom sviðsmaður með nótnastatíf fyrir Maazel (hann stjórnaði eins og fyrr segir nánast alltaf nótnalaust). Svo leið og beið. Aftur opnuðust svo sömu sviðsdyr og inn kom maður hlaupandi með partitúr (raddskrá) fyrir Maazel. Þá sneri hann sér að áhorfendum og sagði: „Hey! Nobody‘s perfect!“ Eftir það hljómaði Sjöunda sinfónían dásamlega.
Höfundur er sagnfræðingur.
—
Greinin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.