Það hillir undir að hægt verði að fjalla um eitthvað annað en kórónuveirufaraldurinn, afleiðingar hans og áhrif, þegar rætt er um stjórnmál og önnur þjóðfélagsmál. Þrátt fyrir klúðrið við að útvega bóluefni í tæka tíð – sem heilbrigðisráðherra ber ábyrgð á en axlar enga ábyrgð á – verður meginþorri þjóðarinnar að öllu óbreyttu bólusettur um mitt sumar. Þá kemur í ljós hvort ríkisstjórnin stendur við fyrirheit sín um afléttingu þeirra takmarkana sem hafa verið settar, bæði á landamærunum og innanlands.
Faraldurinn hefur kallað fram ýmsar skrýtnar hliðar í mannlegri hegðun. Hverjum hefði dottið í hug að árið 2021 værum við að upplifa tíma þar sem það þykir dyggð að klaga nágranna sinn fyrir að halda of stórt barnaafmæli, ausa fúkyrðum yfir þá sem voga sér að fara í „erindislausa“ ferð til útlanda eða skammast í þeim sem ekki vilja kyngja og hlýða öllum fyrirmælum ókjörinna embættismanna ríkisins? Fólk hefur skipað sér í dómarasæti yfir næsta manni og þungir dómar falla daglega. Það er hættulegt.
***
Það væri hægt að fjalla mikið og lengi um ýmsar hliðar faraldursins. Það er til lítils að deila nú um einstaka ákvarðanir sem teknar hafa verið, hvort, hvenær og hversu miklar samkomutakmarkanir áttu að vera, hvort fyrirkomulagið á landamærunum hefði átt að vera svona eða hinsegin, hvort það hafi verið þörf á því að banna íþróttaiðkun og þannig mætti áfram telja. Allt er það búið og gert, við getum pirrað okkur á sumum ákvörðunum – eða pirrað okkur á þeim sem pirra sig á því eins og margir virðast gera. Að einhverju leyti getur fólk sagt hug sinn á þessu öllu saman í kjörklefanum í september.
Þó er eitt atriði sem vert er að skoða nánar. Það er sú ofurtrú sem fólk hefur á ríkisvaldinu og þá sérstaklega embættismönnum. Um leið er rétt að hafa í huga að embættismenn munu aldrei axla neina ábyrgð á því sem miður fer eða þeim ákvörðunum sem teknar eru. Einn alvarlegasti misbresturinn sem orðið hefur í faraldrinum átti sér stað á Landakoti án þess að nokkur hafi þurft að axla ábyrgð á því.
Það sama gildir um ólöglega reglugerð heilbrigðisráðherra um að allir þeir sem kæmu til landsins á ákveðnum tímapunkti yrðu settir í stofufangelsi, sem kallað var sóttvarnarhús. Ekkert er gefið upp um það hvernig reglugerðin varð til, sem skiptir þó töluverðu máli. Ef enginn lögfræðingur ráðuneytisins flaggaði um hugsanlegt lögbrot er það vandamál en ef einhver þeirra gerði það og ráðherrann hunsaði þær ábendingar er það ábyrgðarhluti af hennar hálfu. Ef meginþorri stjórnarandstöðunnar væri ekki svona æstur í að fara í ríkisstjórn með Vinstri grænum hefðu þingmenn hennar hamast meira í málinu.
***
Það gengur ekki upp að ókjörnir embættismenn segi stjórnmálamönnum fyrir verkum, hvort sem það er á bak við tjöldin eða í gegnum fjölmiðla. Til að taka nærtækt dæmi er sóttvarnalæknir (hversu vandaður sem hann kann að vera) ekki lýðræðislega kjörinn og honum ber að nýta þau völd sem hann hefur af hógværð. Það er engan veginn ásættanlegt að hann skuli vera ríkisstjórninni til ráðgjafar en fari síðan í fjölmiðla og fari þar nákvæmlega yfir það hvaða ráðleggingum ríkisstjórnin tók og hverjum ekki. Annaðhvort stýrir ríkisstjórnin landinu eða sóttvarnalæknir. Hann er ekki óskeikull, ekki frekar en stjórnmálamenn – en stjórnmálamennirnir þurfa að svara fyrir verk sín í kosningum. Hann situr enn þegar næsta ríkisstjórn tekur við, alveg burtséð frá því hvort og þá hvaða árangri við höfum náð í því að fletja út kúrfuna, stöðva bylgjuna, tryggja veirulaust samfélag eða öðrum síbreytilegum markmiðum.
***
Þessi ofurtrú á ríkisvaldinu – eða öllu heldur embættismönnum ríkisins – er þó ekki alveg ný af nálinni. Okkur hættir til að halda að menn verði betri, heiðarlegri og ærlegri við það að fá launaseðil frá ríkinu. Það ætti að nægja mönnum að fylgjast með forstjóra og aðstoðarforstjóra Samkeppniseftirlitsins til að vita að svo er ekki eða lesa sér til um gjaldeyriseftirlit Seðlabankans og starfsmenn þess.
Þetta er þó nokkurs konar hringrás. Stjórnmálamenn allra flokka hafa búið til það skrímsli sem hið opinbera er og gefið embættismönnum þau völd sem þeir ýmist hafa eða telja sig hafa. Umræðan fer iðulega fram á þeim nótum að stjórnendur og starfsmenn hins opinbera séu almennt betri einstaklingar en þeir sem stýra eða starfa hjá einkafyrirtækjum.
Embættismenn ríkisins eru ófeimnir við að gagnrýna stefnu kjörinna fulltrúa. Þegar boðaðar voru nauðsynlegar breytingar á Samkeppniseftirlitinu fóru stjórnendur eftirlitsins í herferð gegn ráðherranum, meðal annars á samfélagsmiðlum. Þegar dómsmálaráðherra boðar saklausar breytingar á áfengislöggjöf malda stjórnendur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins í móinn með bölsýnisspám sem enginn skynsamur maður telur trúverðugar.
***
Vissulega hafa stjórnendur þessara stofnana málfrelsi og í sjálfu sér er eðlilegt að þeir sendi inn umsagnir við fyrirhugaðar breytingar á starfsemi þeirra. Menn ættu þó alltaf að taka þeim umsögnum með þeim fyrirvara að þeir stjórnendur eru að verja sína eigin hagsmuni, ekki hagsmuni almennings. Það skiptir í raun ekki máli hversu margar greinar forstjóri Samkeppniseftirlitsins skrifar í vefmiðla sem hafa og munu aldrei gagnrýna stofnunina eða hversu mikið eftirlitið fjallar um eigið ágæti í kostuðum færslum á Facebook. Við þurfum alltaf að muna að hann er að verja sína eigin hagsmuni og sinn eigin málstað, jafnvel þegar málstaðurinn er vondur eins og í tilfellinu þar sem fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar og náinn vinur aðstoðarforstjóra Samkeppniseftirlitsins fær greidda tugi milljóna fyrir að fylgja eftir sameiningu tveggja fyrirtækja. Nokkuð hefur verið fjallað um þetta mál í einstaka fjölmiðlum en þá hafa aðrir fjölmiðlamenn risið upp til varnar og fjallað um árásir á Samkeppniseftirlitið. Þar greina menn ekki kjarnann frá hisminu.
***
Báknið hefur vaxið með hverju árinu og ekkert bendir til þess að það sé að fara að minnka á næstu árum. Rúmlega þriðjungur allra vinnandi manna starfa í dag hjá hinu opinbera, ýmist hjá ríkinu eða sveitarfélögum. Allir þessir opinberu starfsmenn eru líka kjósendur og nær allir flokkar keppast um atkvæði þeirra.
Enginn virðist þora að spyrja þeirrar einföldu spurningar hvort við þurfum í raun þetta bákn í svo litlu samfélagi sem Ísland er. Þurfum við samkeppniseftirlit sem lítur á það sem hlutverk sitt að stýra atvinnulífinu? Þarf samkeppniseftirlit, eftirlit með málefnum neytenda, eftirlit með fjölmiðlum og eftirlit með póst- og fjarskiptamálum í fjórum ólíkum stofnunum? Þurfum við bæði útlendingastofnun og þjóðskrá? Þurfum við bæði Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun?
***
Þeir starfsmenn þessara ríkisstofnana sem kunna að lesa þennan pistil hrista eflaust hausinn og flytja í höfði sér æfðu ræðuna um hversu mikilvæg stofnunin þeirra er. Síðan kíkja þeir í heimabankann gleðjast yfir því að laun hjá ríkinu hafi hækkað um 13,7% á síðasta ári á meðan laun á almennu markaði hækkuðu um 8,5%. Það eru samt fáir sem geta svarað því af hverju 360 þúsund manna samfélag þarf allt þetta opinbera batterí. Enn færri vilja svara því hver það er sem á að greiða fyrir allan þennan opinbera rekstur.
***
Í nær 50 ár höfum við heyrt slagorðið Báknið burt. Það var fyrst kynnt til leiks af Sambandi ungra sjálfstæðismanna upp úr 1973. Síðan þá hefur báknið bara stækkað og það gerðist að miklu leyti á vakt Sjálfstæðisflokksins. Miðflokkurinn fékk slagorðið lánað um mitt það kjörtímabil sem nú er að enda en nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn gert tilraun til að endurheimta það rétt fyrir kosningar.
Það er í sjálfu sér hið besta mál ef þessir tveir flokkar ætla sér í raun að keppa að því að skera niður báknið. Vinstrimenn, þar á meðal Viðreisn, hafa gert grín að Sjálfstæðisflokknum fyrir að nota slagorðið sem innihaldslausan frasa enda sé flokkurinn ábyrgur fyrir bákninu sjálfu. Það er í sjálfu sér rétt og brandarinn er fyndinn, þangað til maður kemst að því að Viðreisn er ekki heldur með neinar hugmyndir um að minnka ríkisvaldið.
***
Stjórnmálamenn koma og fara en embættismennirnir verða eftir. Forstjóri Samkeppniseftirlitsins, svo dæmi sé tekið, þarf lítið annað að gera en að halda uppi áróðri, vingast við vinveitta fjölmiðlamenn og bíða svo ráðherrann af sér til að tryggja stöðu sína. Báknið er orðið að skrímsli sem segir stjórnmálamönnum fyrir verkum en ekki öfugt. Það er vond þróun – og kostnaðarsöm fyrir þá sem á hverjum degi vakna á morgnana til að búa til verðmæti undir vökulum augum ríkisins.
Höfundur er ráðgjafi og ritstjóri Þjóðmála.
—
Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.