Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, fjallar í ítarlegu viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála um það mikla fjármagn sem bundið er í hinum ýmsu verkefnum sem ekki þjóni hagsmunum almennings, svo sem tveimur bönkum og flugstöð. Óli Björn nefnir í framhaldinu að eitt af þessum fyrirtækjum í eigu ríkisins sé sjálft Ríkisútvarpið.
„Menn geta haft ýmsar skoðanir á tilveru þess en ég mun sennilega ekki lifa þann dag að ríkið hætti fjölmiðlarekstri,“ segir Óli Björn í viðtalinu.
„Við tökum í dag fimm milljarða af skattgreiðendum á hverju ári til að setja í þennan ríkisrekstur. En ef maður spyr spurninga og veltir því fyrir sér hvernig þeim fjármunum er ráðstafað, til viðbótar við þær tekjur sem ríkisfjölmiðill hefur af auglýsingamarkaði, er litið á það sem einhverja árás á fjölmiðlafrelsi. Það færi betur á því að nýta þessa fimm milljarða til þess að gefa listamönnum og dagskrárgerðarmönnum úti um allt land kost á því að fá styrki til að vinna dagskrárgerð um listir, menningu, sögu, stjórnmál og afþreyingu. Tæknin er orðin þannig að hver sem er getur unnið vandað fjölmiðlaefni heima hjá sér. Það væri betra að dreifa þessum fjármunum til þúsunda einstaklinga úti um allt land en að leggja þetta allt inn í Efstaleiti í Reykjavík.“
Þá er Óli Björn spurður að því hvort að stjórnmálamenn væru almennt feimnir við að gagnrýna Ríkisútvarpið eða spyrja spurningar um rekstur þess.
„Þú getur sett þig í spor stjórnmálamannsins, sem veit það að Ríkisútvarpið hefur yfirburðastöðu þegar kemur að áhrifamætti fréttaflutnings og þjóðmálaumræðunnar,“ segir Óli Björn.
„Það getur skipt töluverðu máli hvort Ríkisútvarpið segir frá því sem þú ert að segja eða gera hér á þingi, hvort þú hefur náð fyrir augum þessarar stofnunar til að komast í helstu umræðuþætti og svo framvegis. Hvort heldur þú að það sé líklegra að þú talir máli þessarar stofnunar eða stígir fram og gagnrýnir hana? Menn hljóta að sjá hættuna sem er fólgin í þessu yfirburðavaldi Ríkisútvarpsins.“
Hann segir að horfast verði í augu við að ekki hafi tekist að tryggja heilbrigðan farveg fyrir sjálfstæða fjölmiðla hér á landi. Ein af ástæðum þess sé að ekki hafi tekist að koma böndum á rekstur Ríkisútvarpsins, sem fyrir utan þær gífurlegu upphæðir sem það fær frá skattgreiðendum er grimmur þátttakandi á auglýsingamarkaði og tekur þar til sín rúma tvo milljarða á ári.
„Nú er talið að lausnin við þessu sé að taka upp styrktarkerfi fyrir sjálfstæða fjölmiðla,“ segir Óli Björn.
„Það skýtur skökku við að taka upp styrktarkerfi fyrir sjálfstæða fjölmiðla þegar til eru aðrar mun betri leiðir. Sjálfstæðir fjölmiðlar eru mikilvægir og það skiptir máli að hér sé fjölbreytt flóra fjölmiðla. Það er þó ekki líklegt að þeir veiti framkvæmda- og löggjafarvaldinu aðhald eða eflist í gagnrýni sinni á fjárveitingarvaldið sem skammtar þeim úr hnefa.“
Gildir þá ekki það sama um Fjölmiðlanefnd, sem hefur það hlutverk að útdeila styrkjunum?
„Jú, svo er nú annað mál að það er eitthvað bogið við það að við séum komin á þá braut að hér starfi sérstök eftirlitsstofnun sem hefur það hlutverk að fylgjast með starfsemi fjölmiðla,“ segir Óli Björn.
Hann segir eðlilegt að stuðla að rannsóknum innan akademíunnar þegar kemur að fjölmiðlum en allt annað að starfrækja sérstaka stofnun sem sinnir eftirlitshlutverki og í raun stjórnsýsluhlutverki sem gefur henni vald til að leggja á stjórnvaldssektir samhliða því að útdeila takmörkuðum fjármunum.
„Það verður til þess að umhverfi fjölmiðlanna verður óheilbrigðara með tímanum. Það er það sem ég óttast,“ segir Óli Björn að lokum.
Sem fyrr segir er rætt við Óla Björn í ítarlegu viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála. Þar er rætt um meirihlutasamstarfið á Alþingi, mikilvægi þess að efla heilbrigðiskerfið með einkarekstri, skattaumhverfið hér á landi, uppstokkun á stjórnsýslunni og mikilvægi þess að Sjálfstæðisflokkinn endurnýi hugmyndafræði sína fyrir næstu kosningar og fleira.
—
Viðtalið birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.