Hver dró stutta stráið í stjórnarsamstarfinu?

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur setið við völd í rúm þrjú ár. Kjósendur VG geta vel við unað í samstarfi flokkanna.

Síðastliðið vor samþykkti Alþingi frumvarp forsætisráðherra sem takmarkar heimildir um kaup og sölu á jörðum hér á landi. Bóndinn sem er búinn að leggja ævistarf sitt í búskap má þannig ekki selja jörðina hverjum sem er, heldur þurfa hluteigandi aðilar nú að biðla til ráðherra um að mega eiga viðskipti.

Lögin, sem fela í sér skerðingu á eignarrétti, voru samþykkt af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Það kom nokkuð á óvart því ekkert er fjallað um vandamálið við einkaeign á jörðum í rúmlega 5.600 orða stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Nær allar umsagnir um málið voru neikvæðar en lítið sem ekkert tillit tekið til þeirra við vinnslu málsins í þinginu.

Allt var þetta leikþáttur, skrifaður af Vinstri grænum (VG), sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins tóku fullan þátt í. Nú þegar, innan við hálfu ári eftir að frumvarpið var samþykkt, er búið að leggja fram annað frumvarp til að laga nokkra af þeim göllum sem fóru í gegn við samþykkt laganna í vor. Málið var sem sagt ekki unnið betur en svo að það þarf strax að laga það. Það er þó ekki gert út frá sjónarhorni eignarréttarins, heldur eingöngu til að laga atriði sem stjórnsýslulega ganga ekki upp.

Það má sýna því skilning að flokkurinn er í sérstöku ríkisstjórnarsamstarfi, en það var þó ekkert sem kallaði á það að samþykkja þessi lög. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn stendur ekki vörð um eignarréttinn má velta því fyrir sér hvort það sé mikið eftir.

***

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að til standi að stofna þjóðgarð á miðhálendinu, „í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sveitarfélaga, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra hagsmunaaðila“ eins og það er orðað.

Engin sátt ríkir um málið meðal þeirra hagsmunaaðila sem hér eru taldir upp. Þrátt fyrir það hefur umhverfisráðherra (og varaformaður VG) lagt fram frumvarp um stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Í einföldu máli felur frumvarpið í sér umtalsverða ríkisvæðingu á jörðum og hálendi, lögin koma í veg fyrir framtíðartækifæri í orkunýtingu (sem mun skerða lífskjör komandi kynslóða) auk þess sem umtalsverð stjórnsýsla fylgir því að búa til slíkan þjóðgarð, m.a. með þeim rúmlega 60 starfsmönnum sem þar eiga að starfa.

Eins og búast mátti við er frumvarpið lagt fram í nafni umhverfisverndar. Því sjónarmiði er eingöngu haldið á lofti af VG í þeim tilgangi að fá frumvarpið samþykkt. Hver ætlar að taka sénsinn á því að vera á móti því að vernda umhverfið? Það er ekki til vinsælda fallið og það verður erfitt að hefja umræðuna upp á viðræðanlegt plan þegar þetta eru ein helstu rökin fyrir málinu.

Sem fyrr segir eru settar verulegar skorður við orkunýtingu og það mun setja bæði byggðarog atvinnumál framtíðarinnar í uppnám. Líkt og með lög um jarðakaup er ráðherra falið mikið vald með óljósum skilyrðum. Þannig verður ráðherra einum falið að taka ákvörðun um friðlýsingu, sem Alþingi hefur fram til þessa komið að. Það er ekkert sem kallar á stofnun hálendisþjóðgarðs, annað en að koma í veg fyrir orkunýtingu á svæðinu í framtíðinni. Hér er verið að búa til flókna ríkislausn við vandamáli sem er ekki til í dag, en verður vandamál síðar.

Umfram allt er hér á ferðinni gífurlega pólitískt mál og það sætir mikilli furðu að afstaða Sjálfstæðisflokksins liggi ekki skýr fyrir. Það er í það minnsta búið að hleypa málinu í gegnum ríkisstjórn og enn er ekki loku fyrir það skotið að málið verði samþykkt.

***

Á fyrstu dögum stjórnarsamstarfsins lýsti heilbrigðisráðherra VG því yfir að það yrði enginn frekari einkarekstur í heilbrigðiskerfinu á hennar vakt. Hún hefur fylgt þeirri stefnu eftir af mikilli hörku og án athugasemda þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Flestir þekkja það hvernig fólk sem búið er að vera lengi á biðlista eftir liðskiptaaðgerðum er sent til Svíþjóðar þó að hægt sé að gera slíkar aðgerðir með minni fyrirhöfn og kostnaði af einkaaðilum hér heima, t.d. Klínikinni. Nýjasta dæmi er breytingar á skimunum fyrir leghálsog brjóstakrabbameini, sem færðar voru frá Krabbameinsfélaginu til ríkisins með þeim afleiðingum að þjónustan verður verri. Þess utan verður hluti sýna, sem hingað til hefur verið greindur hér á landi, sendur til útlanda til greiningar.

Þá er alveg ljóst að heilbrigðisráðuneytið, undir forystu heilbrigðisráðherra, klúðraði að miklu leyti pöntunum á bóluefnum gegn Covid-19 faraldrinum – sem hefur bæði félagslegar og efnahagslegar afleiðingar í för með sér til hins verra. Í nafni sátta og samlyndis hefur enginn þingmaður opinberlega gagnrýnt ráðherrann fyrir forystuleysi sitt í málinu – nú eða öðrum málum yfirleitt.

***

Hér eru bara tekin nokkur dæmi, þó nokkuð stór dæmi, um það hvernig VG hefur ýmist fengið sitt fram eða notið friðhelgi í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Þau eru fá málin sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur þvingað fram, nema smávægilegar en nauðsynlegar skattalækkanir til að létta íbúum og fyrirtækjum í háskattalandi lífið í gegnum heimsfaraldur.

Þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa aftur og ítrekað minnt á að núverandi ríkisstjórnarsamstarf hafi verið eina raunhæfa samstarfið og að allir séu að vinna faglega að því að stjórna landinu. Gallinn við þá röksemdafærslu er bara sá að kjósendur Sjálfstæðisflokksins hafa ekki gert þá einu kröfu á flokkinn að hann sé bestur og þægilegastur í ríkisstjórnarsamstarfi.

Hér á þessum síðum var því velt upp í upphafi ríkisstjórnarsamstarfsins að það myndi að flestu leyti snúast um að elta mestu vitleysuna í VG – og það án þess að hreyfa við mótmælum. Að miklu leyti hefur það gengið eftir. Því var líka velt upp að VG mun aldrei virða það við Sjálfstæðisflokkinn að hafa verið faglegur í samstarfi. Um leið og kosningabaráttan hefst af einhverri alvöru fara hnífarnir á loft, væntanlega strax að loknu þingi. Það verður þó fróðlegt að sjá hvernig Sjálfstæðisflokkurinn mun nýta þann tíma sem er fram að kosningum.

Enn fróðlegra verður að vita hvaða stefnumál núverandi þingmenn munu kynna fyrir kjósendum í prófkjörum flokksins á árinu. Vonandi fela þau eitthvað annað í sér en að ætla að vera bara yfir sig faglegir í næsta stjórnarsamstarfi.

Höfundur er ráðgjafi og ritstjóri Þjóðmála.

Greinin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.